Strandapósturinn - 01.06.1974, Qupperneq 31
hann fékk vonda lungnabólgu um vorið og var ávallt heilsu-
veill eftir það. Það kom einnig fyrir að ekki varð ávallt komist
yfir heiðina, þó að sumri væri, vegna óveðurs og að ár, sem á
leiðinni eru, uxu það mikið, að þær urðu ófærar yfirferðar.
Sumarið 1919 gerði stórrigningu með hvassviðri (það mun
hafa verið 19. júlí) Þá var það snemma laugardags, að
Kristmundur læknir Guðjónsson kom norðan úr sveit. Þá voru
síldarsöltunarstöðvar á Ingólfsfirði og Djúpuvík og þurfti
Hólmavíkurlæknir því oft að fara norður. Veður var þá orðið
vont og árnar miklar, svo ótækt var að leggja á heiðina.
Læknir settist því um kyrrt, enda þurfti hann að sinna ýmsum
læknisstörfum í Djúpuvík. Þar var þá margt fólk. Allan þann
dag var stórrigning og næstu nótt. Þegar kom fram á
sunnudag fór að stytta upp, en lítt dró úr ánum.
Á mánudag var komið þurrt veður, en mjög kalt, og höfðu
þá árnar minnkað svo þær voru færar. Lagði þá læknir á
heiðina, og var þá búinn að vera tvo daga veðurtepptur um
hásumarið. Ingimundur Magnússon Bæ í Króksfirði, sem lengi
var ullarmatsmaður, varð að vera dag um kyrrt vegna veðurs
sumarið 1932. Þá var komið fram i ágúst, en gott veður var
daginn eftir og beið hann þá ekki boðanna og hélt áfram för
sinni.
Karl Magnússon var um langt skeið læknir á Hólmavík og
gegndi um leið læknisþjónustu í Árneshreppi, þegar ekki voru
læknar þar. Hann var skíðamaður góður og einnig duglegur á
hestum, eftir að farið var að nota þá í læknisferðir á vetrum.
Karl var traustur læknir og hreppsbúum að góðu þekktur.
Fyrst kom hann hingað norður í Árneshrepp í marz 1920, þá
til Símonar bróður míns, er lá í svæsinni lungnabólgu. Þá voru
veður svo, að ógerlegt var að fara heiði, og varð hann því að
koma norður Bala. Með honum var dugmikill maður, Óli
Pétursson, sem að nokkru ólst upp í Kjós hjá foreldrum
mínum og fyrr er nefndur. Það má geta þess hér, að Karl
læknir fór að minnsta kosti þrjár ferðir norður í Árneshrepp
þennan umrædda harðavetur. Ekki man ég eftir neinum, sem
af heiðinni komu, jafn örmagna af þreytu og Árna lækni
Gíslasyni, en það var seinni hluta vetrar 1917. Jóhann
29