Strandapósturinn - 01.06.1974, Side 42
byggðir landsins, og er þetta næst elsta hús af þeirri gerð í
Bæjarhreppi. Símstöðvarhúsið á Borðeyri er ári eldra, byggt
1911. „Forðabúrið“, eins og það var kallað í daglegu tali, eftir
að húsið var byggt, er hið vandaðasta að gerð og hefur furðu
lítið látið á sjá, þrátt fyrir háan aldur og er enn í fullri notkun,
þó til annarra hluta sé. Fullfrágengið kostaði forðabúrið
samkvæmt reikningi kr. 605,07.
Arið 1913, þann 25. júní er á hreppsfundi samþykkt tillaga
þess efnis að hreppurinn taki eitt þúsund króna lán til þess að
auka með kornforðann. Það ár er kornforðinn aukinn úr 70
tunnum í 120 tunnur.
Næstu ár virðist kornforðabúrið hafa verið rekið með
svipuðum hætti og í upphafí og kornforðinn sá sami. Strax á
fyrstu árum þess var sá háttur upp tekinn, að þeir sem fengu
fóðurvöru þar, greiddu þær með sams konar vöru að haustinu
og þannig voru fóðurbirgðirnar endurnýjaðar og því alltaf
nýtt mjöl í forðabúrinu í vetrarbyrjun. Það kom oft fyrir, að
bændur þurftu ekki á þessum kornforða að halda og var
honum þá skipt upp til bænda og þeim gert að skyldu að
greiða aftur með nýju mjöli, og mun hafa verið farið eftir
skepnufjölda við þessi uppskipti.
Samkvæmt hreppsfundargerð frá 12. febrúar 1918 er þar
gerð samþykkt um að úthlutun úr forðabúrinu skuli framvegis
fara eftir þörfum búenda að mati forðagæslumanna, en ekki
eftir skepnufjölda. Eftir þessu að dæma virðist annar háttur
hafa verið hafður á úthlutuninni fram að þeim tíma, en þessi
tilhögun átti aðeins við þegar úthlutun fór fram vegna
fóðurvöntunar. Eins og áður hefur komið fram var kornforði
forðabúrsins 120 tunnur. Þó að þetta væri allnokkur varaforði,
var hann ekki nægilegur þegar óvenju langvinn harðindi
dundu yfir eins og veturinn 1920, er kallaður hefur verið
snjóaveturinn mikli. Á hreppsnefndarfundi, er haldinn var að
Bæ í Hrútafirði 1. maí 1920, samþykkir hreppsnefndin að taka
víxillán í Landsbanka Islands að upphæð 9000,— krónur til
þess að greiða með fóðurbæti og matvörur 100 tunnur, er
hreppsnefndin hafði útvegað í apríl það ár, til þess að bæta úr
yfirvofandi fóðurskorti.
40