Strandapósturinn - 01.06.1974, Side 111
ÓTEMJAN
Tveimur árum eftir að við fluttum að vestan úr Lágadal,
var okkur tilkynnt að við ættum hest vestur í Langadal. Við
vorum þá flutt að Gautshamri. Hesturinn hafði strokið vestur.
Okkur var sagt, að annaðhvort yrðum við að sækja hestinn
fyrir ákveðinn tíma, eða hann yrði seldur. Maðurinn minn og
elstu drengirnir voru í vinnu og því ekki mörgum á að skipa.
Bjarni sagði þá við mig. „Gætir þú ekki farið, góða mín og sótt
hestinn.“ Ég svaraði, að ég myndi hafa gaman af því, ég var
alltaf eins og strákur á hestum og hafði gaman af.
Morguninn eftir lagði ég á tvo gæðingana mína og hélt af
stað. Ég kom við á Kleppustöðum í Staðardal og skildi annan
hestinn eftir þar og fór einhesta yfir Steingrímsfjarðarheiði. Ég
naut þess að fára vestur heiðina um kvöldið. Það var fallegt
veður og sólin var að setjast í Djúpið. Það var dásamlega
fallegt, að sjá vestur yfir Isafjarðardjúp.
Ég gisti á Bakka um nóttina. Morguninn eftir hélt ég af stað
með ótemjuna og fólk úr Langadal f'ylgdi mér fram í
heiðarbrekkur. Meðan fólkið hjálpaði mér gekk allt ágætlega.
En þegar ég var orðin ein og fór að teyma ótemjuna, gekk mér
illa að fá hana til að hlaupa við hliðina á hinum hestinum, en
samt komst ég alla leið á móts við sæluhús, sem er þarna á
heiðinni, þar stoppaði ótemjan og fékkst ekki úr sporunum.
Þegar ég snéri á leið vestur, var hún lipur og þæg, en stóð kyrr
ef ég ætlaði norður.
Ég sá mér því ekki annað fært, en að spretta af reiðhestinum
og setja söðulinn á ótemjuna. Ég var mjög dugleg við hesta
þegar ég var ung og það kom sér vel í þetta skipti. Ég gat ekki
haldið í beislið á báðum hestunum, svo ég sleppti reiðhestin-
um, en hann tók strax götuna norður. Þá yrði ég illa stödd, ef
ég gæti ekki komist á bak ótemjunni eða ráðið við hana. Ef ég
hefði misst hana hefði ég orðið að ganga norður, en það var
nokkuð löng leið. Ég gat stokkið á bak, en ótemjan hringsnér-
ist fyrst, en tók svo götuna á eftir reiðhestinum. Ég komst að
Kleppustöðum og tók hestinn, sem ég átti geymdan þar og rak
báða reiðhestana á undan mér.
109