Strandapósturinn - 01.06.1974, Page 100
heimafólk, að hann hefði gist í Bæ. Um morguninn sást
hesturinn upp í hlíðinni vestan við Bakkaá, miðja vegu milli
Bakkasels og Hrafnadals. Var þá hafin leit og fannst bóndi
nokkru ofar í hlíðinni nálægt svonefndu Torffelli og var þá
örendur, en klyfjarnar hafði hann tekið ofan nálægt þeim stað
er hesturinn var.
Var því almennt trúað, að þau ímba og kálfurinn hefðu
villt um fyrir honum, eða hrakið hann af réttri leið.
Síðan þetta gerðist hafa þau ekki gert mönnum meiri háttar
skráveifur, þó hafa ýmsir jafnvel fram á þessa öld, þótzt heyra
rokkhljóð í nánd við Imbutjörn, hafi þeir verið á ferð um
Sviðuna í þoku eða dimmviðri.
LJÓTUN NARSTAÐABÓNDINN.
Helgi hét maður og bjó á Ljótunnarstöðum, sennilega á
síðari hluta 17. aldar. Hans er ekki getið í manntalinu 1703 og
hefur því verið látinn fyrir þau aldamót. Kona hans hét
Rannveig. Börn áttu þau tvö, son og dóttur. Hét sonurinn
Magnús, en dóttirin Ása. Sennilegt er, að það sé sama konan,
er nefnd hefur verið Ása Hrútafjarðarkross. Sögu hennar
skráði Sigurjón á Kollsá og birtist hún í þjóðsagnasafni Jóns
Þorkelssonar og verður ekki rakin hér.
Helgi var talinn fjölkunnugur, en notaði kunnáttu sína
einungis öðrum til góðs, einkum var hans leitað þegar kveða
þurfti niður drauga eða koma fyrir sendingum.
Einu sinni var Helgi að því spurður, hvort hann kenndi ekki
börnum sínum galdra. Hann kvað svo ekki vera, „því Magnús
minn er of heimskur til þess að kunna með slíkt að fara, en Ása
mín er of stórlynd.“ Þó er sagt, að hann hafi kennt Magnúsi að
stefna músum.
Einn vetur kom upp svo mikill músagangur á Melum, að
fólki þótti nær óbærilegt við að una. Var þá Magnús fenginn,
ef ske kynni, að hann fengi einhverja bót ráðið á þessum
ófögnuði.
Magnús gróf djúpa holu í bæjargöngin, síðan tók hann
vönd mikinn og sópaði bæinn hátt og lágt og út í hvert horn.
98