Strandapósturinn - 01.06.1982, Page 17
stórviði með tvískeptu, togþráður var hafður til margra annarra
nota þó ekki séu hér upp talin.
Svo grannur var þessi þráður stundum að þrinnaður var hann
lítið sverari en hörtvinni og má sjá það enn á byggðasöfnum hér
á landi.
Hrossahár og nytjar þess
Eitt af því sem haldið var til haga og nytjað var hrosshárið.
Þegar hrossin voru klippt var því safnað saman, sett í poka og
geymt þar til vetraði en þá var það tekið til vinnslu.
Hrosshár var bæði fax- og taglhár, töluvert mismunandi var
hve mikið hár fékkst af hrossum og fór það eftir því hversu
stuttklippt þau voru og svo voru hross mismunandi hárprúð.
Einhvern óveðursdag að vetrinum þegar gott tóm gafst frá
öðrum störfum var byrjað á að vinna hrosshárið, farið var með
pokann sem það var geymt í inn á baðstofuloft, tekið var skinn
eða yfirbreiðsla og lagt á gólfið, en niður á það átti að tæta
hrosshárið. Hrosshárið var táið með fingrunum og látið falla
niður á skinnið á gólfinu, mjög þurfti að vanda þennan tóskap
svo betra væri að spinna hrosshárið. Þegar komin var allmikil
hrúga á skinnið var hárið vafið allþétt upp í vafning er helst
líktist vindli í lögun, stungið var oddhvössum mjóum tréprjóni í
vindilinn svo hann héldist kyrr í vafinu, þannig var allt hross-
hárið táið og vafið upp.
Þá var að spinna hrosshárið og var það gert með halasnældu. í
gömlum baðstofum voru alltaf föst rúm og voru gaflar milli
rúmanna mikið hærri en rúmstokkar, til að geta haft gaflana
hærri voru settir rúmstuðlar í, þá var rúmstokkunum fest en til
að festa á þá rúmgafla urðu þeir að vera hærri eins og áður er
sagt. Oft voru renndar kúlur ofan á rúmstuðlunum til skrauts og
jafnvel útskurður á þeim.
Að sjálfsögðu var eftirfarandi aðferð að nota rúmstuðla ekki
algild regla þó hún sé notuð hér.
15