Strandapósturinn - 01.06.1982, Page 31
sjálfsögðu lagður bæði á ytri og innri brún vegghleðslunnar allan
hringinn. Stundum voru ristir strengir til þessara nota og var
önnur röndin höfð þykkri, þvínæst var fyllt upp í vegginn með
mold og hún troðin eins þétt og hægt var, þá var hlaðið steinum
ofan á strenginn á báðar veggbrúnir og fyllt upp í með mold,
þvínæst kom strengur og svo koll af kolli þar til veggirnir voru
komnir í þá hæð sem ætlað var.
Ef veggir voru óvenju háir eða sérstaklega vandað til hleðsl-
unnar var tyrft yfir vegginn á einum eða tveim stöðum þannig,
þegar búið var að molda strengjalagið og troða moldina var tyrft
með heilum torfum sem náðu yfir vegginn milli brúna og var það
kallað að binda vegginn. Oftast var þetta gert þegar vegghæðin
var hálfnuð og bindingin þá á einum stað.
Betra þótti að hlaða veggi að vori og láta þá síga yfir sumarið
og setja þakið á að hausti, ef veggir stóðu allt sumarið þótti
öruggara að tyrfa yfir þá svo moldin i veggjunum blotnaði ekki,
því ef hún blotnaði var hætta á að vetrarfrost sprengdu vegg-
hleðsluna. Þar sem dyr áttu að koma voru hlaðnir kampar eins
og veggþyktin var, bil á milli dyra var því eins og stöplar en ekki
heill veggur.
Þá var komið að því að reisa húsið. Byrjað var á því að grafa
fyrir stoðarsteinum. Það var mjög áríðandi að þeir væru á grunni
sem ekki sigi, ef stoðarmænisássteinn var svo illa frágenginn að
hann sigi varð kjölur hússins mishár og þóttu það mikil lýti á
útliti hússins. Enn verra var ef vegglægjustoðir sigu því þá
myndaðist gáttaglenna milli veggs og þaks. Stoðarsteinar voru
eins margir og með þurfti en það fór eftir lengd hússins. Stoðar-
steinar voru yfirleitt nokkuð stórir og flatir svo stoðarendinn
hefði gott sæti á steininum og gæti ekki runnið til. Þá var að
ákveða hve hátt risið á húsinu átti að vera en lengd mæniás-
stoðanna fór eftir því. Mæniásstoðir voru venjulega mjög sterk-
legar, endastoðir ca. 8 tommur í þvermál en millistoðir 6 til 8
tommur eftir því hvernig tré voru fyrir hendi til þeirra nota,
lengd mæniásstoða fór eftir hæð á risi eins og áður er getið, ekki
mátti saga þær allar jafnlangar í byrjun því stoðarsteinar voru
misháir og misdjúpt niðurgrafnir. Þegar endastoðirnar voru til-
29