Strandapósturinn - 01.06.1982, Side 95
bátnum, tók í röng og dró hann upp á milli tveggja hleina. Þarna
var ég gagnkunnugur, þekkti svo að segja hvern stein og hverja
klöpp svo að ég átti auðvelt með að átta mig þótt dimmt væri
orðið. Mig brestur öll orð til að lýsa þeirri tilfinningu, sem um
mig fór, þegar ég hjálpaði telpunum upp úr bátnum og sá þær
stíga fótum á jarðfastar klappir og ganga upp fjöruna upp á litla
grund sem þar er fyrir ofan. Ég horfði á eftir þeim meðan ég var
að toga bátinn ofar og binda hann fastan við klett. Og ég horfði
líka á þessar gömlu og kæru æskustöðvar mínar, sem ég þekkti
svo vel, fjöruna og grundina, hvern klett og stein, þúfu og laut og
mér fannst þetta allt bjóða mig velkominn heim eins og ævinlega
áður, með sínu þögla máli, sem þrátt fyrir hávaðann í veðrinu,
náði auðveldlega eyrum mínum.
En nú var land undir fæti og ekkert eftir nema að koma
telpunum í húsaskjól.
Heim að bænum voru aðeins nokkur hundruð metrar, en móti
veðri að sækja.
Ég var að hugsa um það á leiðinni heim, að það sem gerði
björgun okkar mögulega, byggðist á þrem þáttum sem ég get
beint ekki þakkað mér sjálfum. I fyrsta lagi var það, hvað seglið
var undra fljótt að fara niður, því að þar mátti engu muna.
í öðru lagi voru það steinarnir, án þeirra get ég varla hugsað
mér ferðalokin.
Og í þriðja lagi var mér það gefið, að vera heilbrigður, vel
meðal maður að burðum og frekar lagvirkur.
Þegar við komum í bæinn fór ég beina leið inn í stofu til
mömmu, þar sem hún sat og lét fara vel um sig á rúminu sínu
með prjóna í höndum og réri lítið eitt eins og hennar var vandi.
Ég heilsaði henni og sagði um leið: ,Jæja, hér er nú komið
sjóhrakið fólk.“ Hún leit á mig undrandi og ásakandi og sagði
næstum höstug: „Ég trúi því nú tæpast á þig að þú hafir farið út
á sjó í þessu veðri og það með börn með þér.“ ,Já, en mamma
mín,“ svaraði ég, „það var logn og blíða þegar við lögðum af
stað, og við vorum komin yfir á miðjan fjörð þegar hvessti. Og
það get ég sagt þér að nú gerði ég eins og ég gat og það dugði.“
Elín systir mín tók við telpunum, færði þær úr vosklæðunum
93