Strandapósturinn - 01.06.1982, Blaðsíða 143
fjölmörg dæmi eru um annars staðar á landi hér, þegar um
stórbrotnar náttúrusmíðar er að ræða. Til dæmis Tröllafell,
Tröllakirkja, Tröllagil o.s.frv.
Aftur á móti er frá því sagt í þjóðsagnaskáldskap síðari alda,
að Steingrímur landnámsmaður fjarðarins hafi átt sér viður-
nefnið „Trölli“ og þess vegna hafi bústaður hans verið kallaður
Tröllatunga. Þetta er þó ugglaust seinni tíma tilbúningur og
skýringartilraun á nafni jarðarinnar eins og alþekkt er um land
allt, þar sem ekki liggur í augum uppi af hverju örnefni, heiti
bæja og bólstaða eru dregin.
Eins og fyrr segir, er Steingrímsfjörður allra fjarða mestur í
Strandasýslu og vestanmegin Húnaflóa, þar eða Hrútafjörður
getur eigi talizt til sýslunnar nema að hálfu, því að bróðurpart-
urinn, það er að segja hinn helmingurinn tilheyrir Vestur--
Húnavatnssýslu. Mynni Steingrímsfjarðar, á milli Drangsness að
norðan og Grindar eða Hvalsárhöfða að sunnan, er um 7 km
breitt, en lengd fjarðarins allt að fjórum sinnum meiri eða vel
það, 28—30 km.
Aðalstefna fjarðarins er til norðvestur áttar, en innri hlutinn,
sem er allmiklu mjórri en hinn ytri, beygir smám saman meir og
meir til vesturs unz innsti hlutinn stefnir í hávestur.
Upp frá fjarðarbotninum liggja tveir allmiklir og byggðir
dalir, Staðardalur og Selárdalur, á milli þeirra er Staðarfjall um
300 m hátt víðast hvar. Þar sem fjallið ber einna hæst, á milli
Gilsstaða í Selárdal og Staðar í Staðardal, er kletta- eða klapp-
arholt eitt stundarmikið þakið dávænni grastorfu og kallast það
Steingrímshaugur. Munnmæli, skráð um miðja 19. öld, og síðan
birt í Þjóðsögum Jóns Ámasonar, segja þar vera haug Steingríms
landnámsmanns. Á hann að hafa mælt svo fyrir, að sig skyldi
heygja þar, sem víðsýnast væri frá um landnám sitt og á skipa-
leið um Steingrímsfjörð, því að þau skip kvað hann eigi farast
mundu er hann fengi augum litið frá haugi sínum á Staðarfjalli.
Og þykir það hafa rætzt allt til þessa. I sambandi við þá varð-
veizlu haugbúans er þess að gæta, að frá hauginum sér aðeins á
innri hluta fjarðarins, þar sem skipaferðir munu aldrei hafa verið
141