Strandapósturinn - 01.06.1982, Side 144
mjög tíðar, en á ytri og yzta hlutann sér ekki, þar sem sjósókn var
alltíð fyrrum frá mörgum bæjum, einkum vor og haust.
Þó að aldagömul munnmæli séu yfirleitt ýkt ákaflega og
stundum hreinn tilbúningur frá rótum, munu þau á hinn veginn
einnig alloft geyma einhvern sannleiksneista, ævaforn og ýmis-
lega afbökuð sagnaminni. Þannig er það um örnefnið Stein-
grímshaugur og bæjarheitið Hofstaðir, sem er sunnan megin
Staðarár gengt Stað, að þau gætu virzt tengja landnámsmann-
inn við Staðardal, sem meginbyggð eða þungamiðju héraðsins á
landnáms- og söguöld í kringum höfuðbólið Breiðabólstað, er
síðar varð prestssetrið Staður í Steingrímsfirði.
Ekki er vitað hvenær landnámsjörðin Tröllatunga verður
lénsjörð eða beneficium, það er kirkjustaður, en elzti máldagi
kirkjunnar sem mér er kunnugt um er settur af Árna biskupi
Þorlákssyni (Staða-Árna) árið 1274. Þá er kirkjan enn ugglaust
bóndakirkja þar sem þess er ekki getið í máldaganum, að
biskupsforræði sé á öllum kirkjufjám, en í kirknamáldögum frá
þeim tímum er biskupsforræðið yfirleitt ekki látið liggja í láginni
þegar um lénsjörð eða beneficium er að ræða. í fyrrnefndum
máldaga segir meðal annars svo: „Maríukirkja í Tungu í Stein-
grímsfirði á heimaland allt, Efra-Bólstað og Köngursstaði með
öllum gæðum. — Þar skal vera heimilisprestur og djákni eða
tveir prestar ella. Og syngja þeir allar heimilistíðir tvo daga í
viku, en hvern dag um jólaföstu.“ (Isl. fornbrs. II. bls. 119)
Auk þess greinir máldaginn frá lausafjármunum kirkjunnar,
eignarhaldi hennar á landskikum hér og hvar og rekaítökum
víðsvegar bæði viðar og hvala.
Þekkt eru nöfn 25 presta, er þjónað hafa Tröllatungubrauði
frá síðasta fjórðungi 15. aldar til ársins 1906, er kirkjurnar í
Tungu og á Felli í Kollafirði voru lagðar niður, en ný kirkja tekin
upp á Kollafjarðarnesi.
Hér á eftir verður leitazt við að segja lítilsháttar frá nokkrum
þessara presta, sem eitthvað er vitað um, svo sem ætt og afkom-
endum og því öðru er frásagnarvert kann að þykja. Mun einkum
tekið mið af seinni tímum, sem mönnum eru yfirleitt kunnari en
hinir fyrri.
142