Strandapósturinn - 01.06.1982, Page 148
Skólabróðir og alúðarvinur Guðbrands biskups Þorlákssonar á
Hólum. Séra Einar var tvígiftur og eignaðist 14 börn, sem til
aldurs komust, með báðum konum sínum. Þekktastir sona hans
munu vera Oddur Skálholtsbiskup og Ólafur skáldprestur í
Kirkjubæ í Hróarstungu. En sonur hans var séra Stefán í
Vallanesi, höfuðskáld þjóðarinnar á 17. öld annað en séra Hall-
grímur Pétursson. Oddur biskup og Ólafur prestur í Kirkjubæ
voru hálfbræður, þar eð Oddur var sonur fyrri konu séra Einars,
Margrétar Helgadóttur, en Ólafur sonur hinnar seinni, Ólafar
Þórarinsdóttur. Séra Einar í Heydölum var svo afkastamikill
ljóðasmiður, að á því sviði kvað liggja meira eftir hann, bæði
prentað og óprentað, en nokkurt annað íslenzkt skáld fyrir hans
daga. Sumt af ljóðum hans er birt í Vísnabók Guðbrands
biskups Þorlákssonar, sem prentuð var á Hólum árið 1612. En
mikill meiri hluti mun enn óbirtur almenningi, og' aðeins
geymdur í afskriftum einstakra safnara, einkum í svonefndri
„Vigurbók“, sem er safnrit eitt allmikið dregið saman af Mag-
núsi digra Jónssyni, stórbónda í eynni Vigur á ísafjarðardjúpi.
Magnús digri (1657—1702) var sonur séra Jóns skálds og
annálshöfundar í Vatnsfirði, Arasonar Magnússonar prúða í
Ögri.
Séra Einar í Heydölum hefur jafnan verið talinn bezta
sálmaskáld íslenzkrar tungu, fram að séra Hallgrími Péturssyni.
En hann orti einnig margt fleira, meðal annars er hann fyrstur
sinna landsmanna sem yrkir svokölluð ættjarðarkvæði. Úr
vísnaflokki um Islands gæði, er þetta erindi, eitt af 44 alls:
,Jökull, sandur, aur og grjót
er hér mestur á landi,
blásin öli í burtu rót,
þó byggðin víða standi.
Eg kann þar ekki mæla á mót,
þó margar nauðir grandi.
Því angrar mig það oft til sanns,
að enginn talar um gæðin lands.
Það er hinn mesti vandi. “
146