Strandapósturinn - 01.06.1982, Síða 161
nýjan. Safnaði mörgu því sem ella hefði glatazt, átti gott og
allmikið bókasafn. Hann hélt dagbækur allt til dauðadags og
Björn sonur hans eftir hann og eru þær merkilegt safn. Hafði séra
Hjálmar Þorsteinsson byrjaði þær og þeir feðgar þrír haldið
þeim áfram hver eftir annan.
Séra Björn var glaðvær og skemmtinn og svo voru mörg börn
hans og bamabörn, gestrisinn og góðgerðasamur. Bráðsinna en
stjómaði vel geði sínu. Siðferðisgóður og hafði jafnan gott álit og
var elskaður af sóknarfólki sínu. Hann og kona hans, Valgerður
Björnsdóttir frá Þursstöðum í Borgarhrepp, voru saman í
hjónabandi i 56 ár og eignuðust 15 börn. Hún var nokkuð
skapstór, en þó góð kona, varð karlæg og dó á Klúku hjá Birni,
yngsta syni þeirra hjóna, 81 árs að aldri árið 1848.“ Hér á eftir
mun nú verða sagt frá nokkrum börnum þeirra séra Björns og
Valgerðar, og öðrum afkomendum, eftir því sem ástæða þykir til
og aðstæður leyfa. Meðal svo geysifjölmennrar ættar verður þó
eigi hægt að taka fyrir nema lítið brot hennar, og tiltölulega fáa
einstaklinga að nafngreina.
III.
Jón Bjömsson, fæddist í Steinadal í Kollafirði árið 1796, var
fjórða barn þeirra Tröllatunguhjóna, séra Björns og Valgerðar
konu hans. Hann einn af sex sonum þeirra varð prestslærður.
Um eða innan við tvítugsaldur mun hann hafa byrjað á latinu-
skólanámi hjá föður sínum, en eftir það vann hann fyrir fram-
haldsnámi sínu á fjarlægum stöðum, unz hann útskrifaðist hjá
séra Páli Hjálmarssyni á Stað á Reykjanesi, árið 1825 tuttugu og
níu ára gamall. Séra Páll Hjálmarsson var gáfumaður og prýði-
lega að sér. Hafði verið síðasti rektor Hólaskóla frá 1786, þar til
skólinn var lagður niður með konungsúrskurði 2. október 1801.
Séra Páll kenndi mörgum undir skóla og veitti nokkurum
stúdentsvottorð, eftir að hann var orðinn prestur. Tveimur árum
eftir stúdentsprófið vígðist Jón Björnsson aðstoðarprestur föður
sins, og bjuggu þeir feðgar síðan saman í Tröllatungu eftir það á
meðan báðir lifðu. Kona séra Jóns hét Guðrún Jónsdóttir bónda
í Engidal við Skutulsfjörð vestra. En vestur við ísafjarðardjúp
159