Strandapósturinn - 01.06.1982, Side 174
Þrúðardalur var eini bærinn í dalnum eftir að ég man eftir
mér, áður voru þeir fleiri en voru að fara í eyði stuttu eftir að
foreldrar mínir fluttu þangað. Heiman að sást svolítið horn af sjó
og einn bær í sveitinni. Mér þótti gaman þegar ég var send í bæi,
þá gáfu konurnar á bæjunum mér alltaf eitthvað gott i nesti.
Þegar ég var ung var alltaf heyjað á engjum, stundum var
þurrkað þar, en oftast var heyið flutt heim blautt. Það var
bundið á fimm eða sex hestum, og ef stutt var á milli, þá var
varla búið að breiða kaplana þegar hestarnir komu næstu ferð.
Það gat oft verið strembið hjá heimafólkinu að hafa við.
Ég var látin fara með, eins og það var kallað, og fundust mér
þessir dagar leiðinlegir. Hestunum kom stundum illa saman og
þá var kjarkurinn lítill hjá mér. Svo var misjafnt hvað fór vel á
hestum, stundum vildi fara fram af þeim ef að bratt var ofan í
móti, og oft þurfti að laga reiðing og herða á gjörðum. Alltaf var
ég fegin þegar svona dagar voru liðnir.
Ég var aldrei dugleg við að slá, en ég fékk að raka bæði þurrt
og vott hey. Það var oft erfitt að raka saman mikið hey. Fyrst að
rifja það allan daginn fram að miðaftan, en þá var sett í galta ef
það var orðið þurrt en annars í föng eða sæti, sem síðan voru
breidd aftur, stundum næsta dag.
Það var lítið um hlöður fyrstu árin og varð því að bera heyið
upp í stóra tóft og byrgja með torfi og grjóti. Það var vont að gefa
úr henni að vetrinum, þá vildi torfið oft detta niður og varð að
sperra spýtur undir mænirinn. Svo lak þetta þegar fór að þiðna.
Svona þekkist ekki nú til dags sem betur fer.
Bróðir minn var snillingur að bera upp hey, þetta var erfitt
verk og alltaf var haft meira með kaffinu á svona dögum, oftast
pönnukökur eða eitthvað annað gott.
Ég bar oft mat og kaffi á engjarnar til fólksins. Þá var farið
með kaffi og mola í hádeginu, en mat klukkan þrjú aftur með
kaffi klukkan sex. Svo ef langt var að fara var þetta stanslaust
labb allan daginn. Það voru slæmar keldur framan við túnið sem
þurfti að stökkva yfir. Mamma fylgdi mér þangað ef ég þurfti að
bera mikið meðan ég var lítil.
Kaffið var á flöskum og þurfti því að halda vel áfram svo að
172