Strandapósturinn - 01.06.1983, Side 80
samkvæmt tíundarlögum Gissurar biskups og annara spakra
manna frá árinu 1096 eða 1097. Hitt er svo annar handleggur að
í Staðamálum 13. aldar og að þeim báðum önduðum séra Jóni
Brandssyni og séra Bergþóri (d. 1232) syni hans komst jarðeignin
undir forræði biskups og varð beneficium (lénsjörð), þó að eigi
muni það að öllu leyti hafa farið fram með friði og spekt, eins og
lítillega má lesa um í Arna biskups sögu (Staða-Arna).
Eftir fornum en of fáum heimildum að dæma er Staðar-
prestakall í Steingrímsfirði elsta stofnun sinnar tegundar í
Strandasýslu, jafnframt hin eignamesta innan héraðsins og
prestum sínum góð tekjulind er stundir liðu fram, enda ávallt i
röð betri og eftirsóttari brauða Skálholtsbiskupsdæmis, þó að
auðvitað væru prestaköll eins og til dæmis Vatnsfjörður,
Breiðabólstaður í Fljótshlíð og fleiri stórstaðir nokkru ofar á
vinsældalistanum.
Um aldamótin 1700 eru 14 jarðir með samtals 40 leigukú-
gildum í eigu Staðarkirkju, auk ýmissa rekaítaka bæði viðar og
hvala hér og hvar um Strandir. Fleiri tekjustofna mætti og telja
svo sem skyldudagsverk og skyldufóður svonefndra „prests-
lamba“, en þau voru 50 að tölu hjá Staðarpresti og bar sóknar-
mönnum að ala þau vetrarlangt án endurgjalds. Alkunnugt er
að föst laun presta samkvæmt gömlu skipulagi voru landskuldir
og kúgildaleigur af kirkjujörðunum, þ.e. þeim jörðum sem
kirkjan átti og ennfremur nokkrar smærri greiðslur. Þessi
greiðslumáti á launum presta var breytingalítið við lýði allt fram
á 20. öld, en þá varð mikil bylting í því efni með nýrri löggjöf árið
1907 og launalögunum frá árinu 1919. Augljóst er það hverjum
manni er vita vill, að undir hinni eldri skipan hafa laun og tekjur
presta almennt verið mjög misjafnar, bæði í hlutfalli við fólks-
fjölda prestakallanna og þó einkum mergð verðmætra ítaka og
hlunninda, fjölda jarðarhundraða og kúgilda, en árgjald (leiga)
eftir hvert kúgildi (6 ær) var 2 fjórðungar (10 kg) smjörs. Eftir því
sem hver kirkja var auðugri að jarðeignum, kúgildum, ítökum
o.s.frv. voru tekjur viðkomandi prests vitanlega hærri.
Um miðja 19. öld var á Stað torfkirkja, sem jöfnuð var við
jörðu sumarið 1855 og á rústum hennar reist timburkirkja sú er
78