Morgunblaðið - 02.10.2021, Blaðsíða 49
MENNING 49
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. OKTÓBER 2021
J
óhannes Sveinsson Kjarval
er einn frægasti og jafn-
framt ástsælasti listamaður
þjóðarinnar. Varla er til sá
Íslendingur sem ekki hefur séð eftir
hann listaverk í einhverri mynd, til
dæmis á listasafninu við Flókagötu
sem kennt er við hann og í myndefni
frá Bessastöðum þar sem málverkið
„Flugþrá“ prýðir aðalmóttökusalinn
og raunar einnig tvö þúsund króna
seðilinn, sem því miður var tekinn
aftur úr umferð.
Fyrir 16 árum kom út glæsileg
fræðibók um Kjarval þar sem list-
ferli hans voru gerð ítarleg skil í
máli og myndum, en bókin hlaut
Íslensku bókmenntaverðlaunin í
flokki fræðibóka og rita almenns
efnis. Fyrir tveimur árum kom síðan
út fallega fjölskyldubókin Kjarval –
Málarinn sem fór sínar eigin leiðir
eftir Margréti Tryggvadóttur. Leik-
stjórinn Stefán Hallur Stefánsson
byggir fjölskyldusýninguna Kjarval,
sem frumsýnd var á Litla sviði
Borgarleikhússins um liðna helgi, að
hluta á bók Margrétar. Stefán Hall-
ur sýndi það fyrir sjö árum með leik-
gerð sinni og leikstjórn á Litla
prinsinum að hann er flinkur að
móta sögur fyrir svið og leyfa sjón-
rænum þáttum sýninganna að njóta
sín.
Í sýningu Borgarleikhússins er,
líkt og í bók Margrétar, stiklað á
stóru í ævi listamannsins sem fædd-
ist á Efri-Ey í Meðallandi árið 1885;
var sendur úr foreldrahúsum aðeins
fjögurra ára gamall tæpa 500 km,
þriggja vikna leið á hesti til frænd-
fólks á bænum Geitvík í Borgarfirði
eystri þar sem hann dvaldi næstu 13
árin án þess að hitta foreldra sína;
byrjaði að teikna barn að aldri og
dreymdi um að verða listamaður;
sigldi 1911 til listnáms í Bretlandi og
síðan Danmerkur þaðan sem hann
lauk prófi frá Konunglega Lista-
háskólanum 1917; giftist rithöfund-
inum Tove Merrild á námsárum sín-
um í Danmörku og flutti ásamt
henni og tveimur börnum þeirra til
Íslands 1922 þar sem hamingjan
entist stutt enda flutti Tove með
börnin aftur til Danmerkur aðeins
tveimur árum síðar og kom aldrei
aftur til Íslands; komst í tísku hér-
lendis og málaði sleitulaust úti í
náttúrunni, en frægt er hvernig
hann fékk leigubílstjóra til að keyra
sig vítt og breitt um landið til að
komast í rétt umhverfi.
Stefán Hallur einskorðar sig ekki
við línulega frásögn í nálgun sinni
heldur stökkva sögumennirnir Gilli
(Haraldur Ari Stefánsson) og Gogg
(Þuríður Blær Jóhannsdóttir) óhik-
að fram og til baka í tíma en einnig
stundum út og suður í trúðslegri
nálgun sinni þar sem leyfilegt er að
ruglast í ríminu og vera ekki alltaf
með það á hreinu hvaða persónu
hinn er að leika í sögunni og jafnvel
skiptast á að leika ólík hlutverk.
Þessi nálgun á efnið kallast með frá-
bærum hætti á við Kjarval sjálfan
sem þótti skrýtinn, var stundum
með leikaraskap og trúðslæti og
svaraði með orðinu „gilligogg“ þeg-
ar hann var spurður óþægilegra
spurninga. Sem dæmi um sérlyndi
Kjarvals þótti honum ekkert tiltöku-
mál að sigla austur á land illa klædd-
ur og án farangurs þegar erindið
niður á höfn var einvörðungu að
kaupa fisk í soðið fyrir fjölskylduna
sem heima beið og vissi ekki hvað
um hann hafði orðið. Sökum þess að
sýningin, eins og listamaðurinn, er
sífellt að koma á óvart þurfa áhorf-
endur að halda sér á tánum til að
fylgja framvindunni og reyna að
skilja þennan einstæða listamann,
sem verður samt kannski aldrei skil-
inn til fulls.
Sjónræn umgjörð sýningarinnar
er mikið konfekt fyrir augun. Guðný
Hrund Sigurðardóttir, sem hannar
bæði leikmynd og búninga, rammar
leikrýmið af með vel á annan tug
málverka Kjarvals sem endurspegla
fjölbreytni hans í efnisvali þar sem
hann málaði fólkið í landinu, náttúr-
una og ýmsar kynjaverur. Með hjálp
undurfagurrar lýsingar og mynd-
banda Pálma Jónssonar er á köflum
eins og myndirnar og leikrýmið lifni
við þegar grænir og bláir ópallitir
flæða um fossinn og doppóttir stein-
arnir virðast sjálflýsandi. Mjúk
áferð sumra steinanna á sviðinu
magnar upp þá tilfinningu að náttúr-
an sé í raun lifandi allt í kring og því
full ástæða til að tala við bjargið og
leggja einnig við hlustir.
Sögumennirnir Gilli og Gogg
klæðast báðir ljósum smekkbuxum,
litríkum skyrtum, víðum frökkum og
höttum, en hver einasta flík er alsett
málningarslettum í anda Kjarvals.
Gólfið og steinarnir á sviðinu eru
líka alsettir doppum sem gætu virk-
að eins og málningarslettur en má
líka hæglega sjá sem litbrigði jarð-
arinnar. Þannig renna listamað-
urinn, myndlistin og náttúran bók-
staflega saman. Nostur í leik-
myndinni gleður augað því uppi á
svölum blasa við nokkrar tillögur
Kjarvals að fána fyrir Ísland úr sam-
keppni sem haldin var 1914. Ramm-
ar eru notaðir með skemmtilegum
hætti til að stýra fókusnum og nýt-
ast einnig vel í samspili sögumanna.
Haraldur Ari Stefánsson og Þur-
íður Blær Jóhannsdóttir njóta sín
vel í hlutverkum sögumannanna sem
eru skemmtilega skrýtnir, en geta
óforvarindis tekið upp á því að öskra
í myrkri. Óborganlegur var Har-
aldur Ari þegar hann sem Gilli brá
sér í hlutverk hestsins Blesa og var
alveg að örmagnast eftir að hafa
borið Kjarval unga þriggja vikna
leið til Borgarfjarðar eystri. Þuríður
Blær miðlaði sorg Tove yfir enda-
lokum hjónabandsins með hjart-
næmum hætti. Þess á milli sprella
þau, spjalla við áhorfendur, klifra
um leikmyndina, dansa og syngja
ljómandi lög úr smiðju Úlfs Eld-
járns, en Kata Ingva hannaði sviðs-
hreyfingar.
Dýrmætasta gjöfin sem Kjarval
gaf þjóð sinni var að kenna Íslend-
ingum að horfa á náttúruna nýjum
augum og meta fegurðina sem býr í
jafnt hinu stóra sem smáa. Sýning
Borgarleikhússins um Kjarval er
unnin af miklum metnaði og list-
fengi. Hún er góð kynning á mikil-
vægum listamanni og frábær leið til
að kynna bæði myndlistina og leik-
listina áhorfendum á öllum aldri.
Horfið á fegurðina
Ljósmyndun/Grímur Bjarnason og Bjarni Grímsson
Listfengi „Sýning Borgarleikhússins um Kjarval er unnin af miklum metnaði og listfengi,“ segir í dómi um Kjarval.
Borgarleikhúsið
Kjarval bbbbn
Höfundur leikgerðar og leikstjórn:
Stefán Hallur Stefánsson. Verkið er að
hluta til byggt á bók Margrétar Tryggva-
dóttur: Kjarval – Málarinn sem fór sínar
eigin leiðir. Leikmynd og búningar:
Guðný Hrund Sigurðardóttir. Tónlist:
Úlfur Eldjárn. Lýsing og myndbönd:
Pálmi Jónsson. Hljóð: Þorbjörn Stein-
grímsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir.
Sviðshreyfingar: Kata Ingva. Aðstoðar-
maður leikstjóra: Rakel Björk Björns-
dóttir. Leikarar: Haraldur Ari Stefáns-
son og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.
Frumsýning á Litla sviði Borgarleik-
hússins 25. september 2021.
SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR
LEIKLIST
Í Gerðubergi verður í dag, laugar-
dag, opnuð ný sýning og jafnframt
ratleikur, „Þín eigin bókasafns-
ráðgáta“. Borgarbókasafnið í
Gerðubergi hefur fengið nýja
ásýnd og umbreyst í heim byggðan
úr mörgum þúsundum bóka. Í til-
kynningu segir að í þessum dular-
fulla bókaheimi búi Gerðubergur
gamli, aðalpersónan í ráðgátunum
þremur; Ævintýraráðgátunni, Vís-
indaráðgátunni og Hrollvekju-
ráðgátunni.
Við opnun sýningarinnar í dag
tekur „sýningarteymið“ á móti
gestum, en teymið skipa sýningar-
stjórarnir Embla Vigfúsdóttir og
Svanhildur Halla Haraldsdóttir,
Auður Ösp Guðmundsdóttir leik-
myndahönnuður og Ævar Örn
Benediktsson rithöfundur, sem tók
þátt í samsköpun á ráðgátunum
þremur sem ratleikurinn hverfist
um. Ævar Þór býður svo yngri kyn-
slóðinni að leysa með sér eina ráð-
gátu og Embla og Svanhildur veita
leiðsögn um sýninguna og segja frá
tilurð hennar.
Bókaheimur Borgarbókasafnið í Gerðubergi hefur fengið nýja og ævin-
týralega ásýnd og umbreyst í heim byggðan úr mörgum þúsundum bóka.
Bókasafnsráðgáta og
ratleikur í Gerðubergi
Ævintýrið um Pétur og úlfinn verð-
ur flutt tvisvar af Kammersveit
Reykjavíkur í Norðurljósasal
Hörpu í dag, laugardag, klukkan 14
og 16.
Pétur og úlfurinn eftir Prokofíev
hefur fangað ímyndunarafl barna,
kynslóð fram af kynslóð. Verkið um
krakkann uppátækjasama, árans
úlfinn og dýrin í sveitinni er einnig,
eins og segir í tilkynningu, í uppá-
haldi hjá mörgum fullorðnum, þar
með töldum meðlimum Kammer-
sveitar Reykjavíkur. Steinunn Ól-
ína Þorsteinsdóttir mun leiða börn-
in inn í söguna og kynna hljóðfærin
fyrir þeim. Steinunn er ein ástsæl-
asta leikkona þjóðarinnar og hefur
bæði hlotið Grímu- og Edduverð-
laun fyrir leik sinn. Að þessu sinni
flytur Kammersveit Reykjavíkur
verkið í kammerútsetningu Hel-
muts Schmidinger og stefnir á
gáskafulla túlkun á sögupersónum
og atburðarás ævintýrsins. Stjórn-
andi er Kornilios Michailidis.
Flytja Ævintýrið um Pétur og úlfinn
Gáskafull Kammersveit Reykjavíkur ásamt
Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu.
Myndlistarmennirnir Jón Sæmund-
ur og Ýmir Grönvold opnuðu í gær
samsýninguna „Án Vonar – Án
Ótta“ á Laugavegi 25 við hliðina á
Gallerí Port en að sýningunni
stendur Dead Gallery/Studio í sam-
starfi við Gallerí Port.
Undanfarna mánuði hafa Jón Sæ-
mundur og Ýmir unnið saman og
hvor í sínu lagi að verkum sínum,
sum verkin eru sögð á tilrauna-
kenndu rófi á meðan í öðrum
bregði fyrir áður kunnuglegu stefi
listamannanna. Fyrir þá báða er
málverkið og listin allt í senn heilög
bæn og ljóð til guðanna, samtal við
framtíðina, leikur að litum og til-
finningu, innblástur fyrir aðra til
fara að skapa, hugarró og snertur
af geðveiki, fræ með fyrirheit um
uppljómun. Sýningin stendur til 10.
október og er opin alla daga frá kl.
12-20.
Jón Sæmundur og Ýmir Grönvold sýna
Á staðnum Jón Sæmundur og Ýmir.
Útgefendur hinnar hinnar metn-
aðarfullu Pastel-ritraðar halda út-
gáfuhóf í menningarhúsinu Mengi í
dag, laugardag, kl. 16. Þar verður
útgáfu fimm nýrra bókverka fagn-
að en þau eru númer 24 til 28 í rit-
röðinni og sögð fjölbreytt að vanda.
Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir er
höfundur verksins Gríseyjar –
ósýnilegt landslag; bókverk Árna
Friðrikssonar nefnist Einleikir um
tímalaust eðli; Sesselía Ólafs er höf-
undur verksins Leiðsla; verk Kára
Tulinius nefnist Uppruni augna-
bliks og þá er heiti Pastel-rits Gerð-
ar Kristnýjar Jólaboð.
Höfundar verða á staðnum til
skrafs og ráðagerða og það er eng-
inn aðgangseyrir. Pastel-ritröð er
samstarfsverkefni listamanna á
vegum Flóru menningarhúss á Ak-
ureyri. Hvert verk er gefið út í 100
tölusettum og árituðum eintökum.
Fyrstu verkin komu út árið 2017.
Bókverkin verða til sýnis og sölu
á staðnum. Líka er hægt að glugga
í verkin á pastel.is.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Höfundur Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir er
höfundur eins af nýju Pastel-ritunum.
Útgáfu Pastel-rita
fagnað í Mengi