Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 21
19
Úr bréfi frá Strandasýslu
10. febrúar 1874
„Hafísinn kom hér fyrst með jólaföstu, og á honum nokkrir
hvítabjarnarhúnar, svo sem hálfvaxnir; fjórir urðu unnir nl.
á Kleyfum í Kaldbaksvík, á Gjögri, frá Bæ í Trekyllisvík, og á
Horni. Hafísinn hóf frá aptr fyrir jól, en síðan kom hann aptr
fyrir miðjan janúar svo mikill, að nú fyrir viku sá hvergi í vök af
Krossanesfjalli, einhverju hæsta í Trékyllisvík, þar með lagði alla
firði út að hafísnum. Það sem af er árinu hefir hér eigi gengið
á öðru en norðan hvassviðrum með mikilli snjókomu og ein-
stökum óþrifa-blotum, helst um nætrtíma, þar með hörku frost,
mest í Árnesi 21° R.1 og á Stað í Steingrímsfirði 18° R. Hér um
sveitir sést hvergi á beran stein á fjöllum eða dökkan dýl í bygð,
og muna elstu menn naumast slík harðindi. Lömb eru búin að
vera á stöðugri gjöf í 18 vikur, og annar fénaðr ásamt hrossum
að því skapi. Engin höpp heyrast að komið hafi með þessum
mikla hafís. Heilsufar tjáist hvarvetna gott bæði á mönnum og
skepnum – en aumingja rjúpurnar eru farnar að hordeyja.“
Heimild
[blaðið]Víkverji apríl 1874, 58. tbl., bls. 61.
Skráð hefir: Guðlaugur Gíslason frá Steinstúni.
1 Reaumur-gráður. Núll á °R er við frostmark, eins og á °C, en suðumarkið er sett
við 80°R en ekki hundrað eins og °C. Umreikna má °R yfir í °C með jöfnunni:
°C = 1,25 × °R. (Heimild: heimasíða Veðurstofu Íslands.)