Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 67
65
húsið er einnig miðstöð félagslífs fyrir sveitina, Lestrarfélag Bæj-
arhrepps hefur þar aðsetur og eins hefur Sparisjóður Hrútfirð-
inga skrifstofu sína og afgreiðslu í húsinu.28
Kaupfélag Hrútfirðinga og Ræktunarsamband Bæjar- og
Óspakseyrarhrepps byggðu árið 1959 rúmgott geymsluhús fyrir
bíla sínar og vélar. Í því hófst rekstur vélaverkstæðis 1965 á vegum
Þorvaldar Helgasonar. Nokkrum árum síðar tók Steinn Eyjólfsson
við rekstrinum og hafði hann með höndum til 1978 en þá var
húsið stækkað mjög mikið og stofnað um það og reksturinn hluta-
félagið Klöpp. Félagið sá sjálft um reksturinn í mörg ár undir
stjórn Sveins Karlssonar. En þar kom að Sveinn keypti húsið og
reksturinn og er það í dag rekið undir nafninu S.G. Verkstæði
ehf.
Eitt sinn var uppi sú hugmynd að læknir hefði aðsetur á Borð-
eyri. Þannig kveða lög frá 1944 á um að stofna skuli læknishérað
á Borðeyri. Skyldi það ná yfir þrjá hreppa, Bæjarhrepp, Óspaks-
eyrarhrepp og Staðarhrepp. Lagaákvæði þessi komu þó aldrei til
framkvæmda, þannig að Óspakseyrarhreppur heyrir undir heilsu-
gæsluumdæmi Hólmavíkur en Bæjar- og Staðarhreppur sækja
heilbrigðisþjónustu til Hvammstanga. Um skeið var sjúkraflug-
völlur á Borðeyrarmel en hann er nú aflagður fyrir nokkru.29
28 Strandir 2, Lýður Björnsson sá um útgáfu, [s.l.] 1985, bls. 375–78 („Sparisjóður
Hrútfirðinga“ eftir Jón Jónsson).
29 Grein þessi var skrifuð fyrir byggðasögu Strandasýslu 1990 og ber þess merki að
nokkuð er umliðið frá því að hún var sett saman. – Auk þeirra heimilda sem get-
ið er neðanmáls er mikið efni sótt í ágætar greinar Jóns Marteinssonar frá Fossi,
„Þættir úr sögu Borðeyrar,“ er birtust í Sunnudagsblaði Tímans 1964.