Strandapósturinn - 01.06.2013, Síða 71
69
Inngangur
Ég er fæddur 20. nóvember 1898 í Ófeigsfirði á Ströndum.
Foreldrar mínir voru Guðmundur [Pétursson] bóndi þar og
seinni kona hans, Sigrún Ásgeirsdóttir frá Heydalsá, Sigurðssonar.
Var ég áttunda barn þeirra hjóna en móðir mín lést 22. desem-
ber 1902, 33 ára gömul. Höfðu þau þá átt tíu börn en af því ell-
efta lést hún ásamt barninu. Þá var norðan frosthörkubylur og
vart fært milli bæja en engan lækni að fá nær en frá Smáhömrum
innan Steingrímsfjarðar eða frá Ísafirði. Það var því engrar
læknishjálpar að vænta í þetta sinn fremur en vant var á þessum
tímum og þessum slóðum. Með fyrri konu sinni, Elísabetu
Þorkelsdóttur í Ófeigsfirði, hafði pabbi átt fimm börn. Af þeim
komust upp tvær dætur, Jensína Guðrún sem stóð fyrir búi föður
okkar frá 1902 til 1911 er hún giftist og Elísabet sem var gift og
farin að heiman áður en ég fæddist. Af okkur, seinni konu börn-
unum, komust sjö til fullorðinsára, fjórir synir og þrjár dætur.
Ég hef víst verið orðinn nokkuð gamall peladrengur þegar mér
varð það á að brjóta pelann minn. Að minnsta kosti er fyrsta end-
urminning mín bundin því atviki, líklega verið á þriðja ári, enda
fékk ég ekki fleiri pela að totta þar eð fleiri slíkir voru ekki til á
heimilinu að sagt var. Í þá tíð var þetta nógu slæmt til að setjast að
í minningunni og lúra þar til þessa.
Heldur er það fátt sem ég man til móður minnar enda aðeins
röskra fjögurra ára er hún lést. Þó minnist ég nokkurra atburða
tengdra henni og hafa þeir þá líklega orðið á síðasta æviári henn-
ar. Ég minnist þess er hún og pabbi komu eitt sinn ríðandi vestan
yfir Ófeigsfjarðarheiði og voru þá að koma frá Ísafirði. Gaf hún
okkur krökkunum þá eitthvað gott í munninn og gleðin var mikil
bæði vegna þess og þá ekki síður yfir heimkomu pabba og
mömmu. Ég man aðeins eftir einni refsingu sem ég og leikfélagi
minn hlutum af hennar hendi. Hafði ég af einhverjum prakk-
araskap pissað í buxurnar en hann sagt henni frá þessu ódæði
mínu, en að klaga félaga sinn þótti heldur ekki gott á þessu heim-
ili. Refsingin var sú að hún fór með okkur báða út að bæjarlækn-
um, klæddi okkur úr ytri fötunum og baðaði okkur í læknum.
Síðan vorum við berháttaðir niður í rúm en ekki man ég hve lengi
við máttum liggja þar áður en við fengum að klæðast aftur. Enn
fremur man ég þegar hún bjargaði mér úr fjóstunnunni. Við