Strandapósturinn - 01.06.2013, Blaðsíða 79
77
öllum kröftum í mannveruna, stökk svo, ásamt félaga mínum,
æpandi inn í eldhús til fólksins. Óskapa æsing og hræðsla hafði
gripið okkur og var nú allt reynt til að sefa okkur og ná úr okkur
mestu hræðslunni sem fólkinu gat til hugar komið. Meðal annars
var reynt að koma okkur í skilning um það að þetta hefði aðeins
verið skuggi annars okkar sem við hefðum séð þarna í dimmunni.
Þessa skýringu gat ég ómögulega fallist á þar eð ljósskíman var svo
langt að komin en maðurinn, eða skugginn, rétt fyrir framan mig
og svona mikið hærri en ég, það gat ekki verið samkvæmt skynjan
minni og enga skýringu gaf það á því að við sáum hann teygja
handlegginn að mér. Hvað leikfélaga mínum viðkom held ég að
tekist hafi að mestu að fá hann til að taka þessa skýringu gilda því
að ekki tolldi myrkfælnin eins við hann eins og mig eftir þetta.
Þessi leikfélagi minn, sem hét Janus, náði því miður aldrei full-
orðinsaldri, tólf ára gamall varð hann úti á Trékyllisheiði í norð-
austan hörkukafaldsbyl, 18. desember 1908. Faðir hans, Samson
Jónsson, fátækur barnamaður, hafði komið þessum syni sínum
fyrir til vetrarvistar inni í Steingrímsfirði og var nú að sækja hann
til þess að hafa hann heima hjá sér um jólin en fjölskyldan átti þá
heima á Gjögri. Þeir hrepptu bylinn á miðri heiðinni og grófu sig
í fönn nálægt Háafelli en það er með hæstu fjöllum á þessum
slóðum (783 m). Drengurinn veiktist þarna í skaflinum en nesti
var lítið eða ein mörtafla að sagt var. Hann mun hafa látist á öðr-
um eða þriðja degi en óveðrið stóð í nokkra daga. Faðir hans
komst loks við illan leik niður að sjó milli Kúvíka og Kjósar þar
sem hann ráfaði fram og aftur næstum blindur og skaðkalinn uns
bóndinn í Kjós rakst á hann er hann hugaði að fé sínu og gat
komið honum til bæjar í Kjós þar sem hann lá lengi í kalsárum.
Ég man að þetta var mér og reyndar öllum mikil harmsfregn er
þetta fréttist. Hann hafði verið, auk Sigríðar systur minnar, fyrsti
leikfélagi minn í frumbernsku, einmitt á þeim árum er ég fór fyrst
að muna til mín, og við höfðum oft unað okkur vel saman en
eldri bræður mínir voru minnst sjö árum eldri en ég svo að ég gat
skiljanlega ekki oft átt samleið með þeim að leikum á þessum
árum.
Eftir þessa sýn okkar félaganna við skemmudyrnar var ég svo
altekinn af andsk. myrkfælninni að ég mátti varla einn um þvert
hús ganga eftir að skyggja tók. Varð og fleira til að viðhalda þess-