Strandapósturinn - 01.06.2013, Síða 86
84
gagnvart heimilinu alveg skilyrðislaus. Öll framkoma þess og um-
gengni við okkur börnin hefði ekki getað verið betri þó að það
hefði átt í okkur hvert bein.
Á æskuárum mínum var tvíbýli í Ófeigsfirði. Gísli Gíslason og
kona hans, Sigþrúður Jónsdóttir, þá miðaldra hjón, bjuggu á 1/8
hluta jarðarinnar en voru eigendur að 1/6 hluta hennar eða fjög-
urra hundraða, jörðin alls 24 hundruð að fornu mati. Eitt hundr-
að þeirra var í ábúð föður míns. Þessi hjón voru barnlaus en hjá
þeim dvaldist þá bróðurdóttir konunnar, Jónína Guðlaugsdóttir.
Hún var á svipuðum aldri og ég, indæl telpa og leikfélagi okkar
yngstu systkinanna, en varð því miður ekki langlíf, dó aðeins 14
ára. Kona Gísla, Sigþrúður, andaðist 1916, 62 ára, en hann kvænt-
ist aftur Kristbjörgu Ingimundardóttur frá Asparvík. Gísli lést
1928, 58 ára, en Kristbjörg 1941, 74 ára. Allt var fólk þetta hið
ágætasta sambýlisfólk og okkur öllum gott og ljúft í allri um-
gengni. Það bjó í litlum en snotrum gólfbaðstofubæ örskammt
frá okkar bæ, hinum megin við bæjarlækinn er skildi milli tún-
anna. Fáeinar kindur og einn hest höfðu hjónin en enga kú og
fengu þau því tíðast einhverja mjólk hjá okkur.
Leikir
Leikir okkar krakkanna voru margvíslegir. Við áttum okkar
horna- og skeljabú eins og önnur sveitabörn. Þetta búfé okkar
geymdum [við] inni í bæ á vetrum en er snjóa leysti á vorin
fórum við með það fram fyrir túngarð og höfðum það í kletta-
skútum er þar voru undir lágum hjalla, svo þegar veður var gott
hleyptum við því út til beitar. Við drengirnir áttum líka smábáta
og skútur sem við smíðuðum sjálfir eða aðrir höfðu gefið okkur.
Þessum fleytum sigldum við á allstórri tjörn sem er rétt sunnan
við túngarðinn. Tjörnin heitir Óskatjörn en hún hefur þann
galla til þessara hluta að upp úr henni vex nokkuð hátt stargresi
í nokkrum hluta hennar og hætti skipunum til að villast inn í
„þanghafið“ og festast þar. Varð þá litlum körlum stundum nokk-
uð erfitt að bjarga farkostunum enda ekki ætíð sérlega snyrtilega
til fara er þeir komu heim frá þessum „sportsiglingum“. Í bakka
tjarnarinnar grófum við dálitla skipakví með rennu út í vatnið og
kölluðum „dokku“. Í henni geymdum við skipin er þau voru ekki
í siglingum. Ýmsa útileiki aðra höfðum við jafnan á takteinum,