Strandapósturinn - 01.06.2013, Side 102
100
síðan fram allan Bjarnarfjarðarháls, norður Trékyllisheiði, austan
Búrfells og norður í Ófeigsfjörð. Komum þangað laust eftir mið-
nætti steinuppgefnir. Höfðum fengið líðilegasta göngufæri, sér-
staklega eftir að við komum á heiðina, þá skellti á okkur bleytu-
kafaldsbyl og göngufærið varð þannig að hvorki var hægt að
ganga á skíðunum eða draga þau svo við urðum að bera þau
ásamt pokaskjöttunum sem við höfðum meðferðis og auðvitað
urðum við holdvotir inn að skinni í bleytukafaldinu. Ég man
naumast eftir að ég hafi í annað sinn orðið öllu þreyttari heldur
en ég var síðasta spölinn heim að bænum enda varð Sigurgeir þá
að bæta á sig poka mínum og skíðum svo að ég gæti dragnast
heim að bænum.
Tveimur eða þremur árum síðar fór ég gangandi inn að
Óspakseyri að finna systur mína en þá voru þau hjónin flutt þang-
að. Fylgdist ég þá með Torfa bróður mínum inn að Hólmavík en
hann var þá sýslunefndarmaður og þurfti að sitja þar sýslufund.
Önnur systir mín, Ragnheiður, var þá gift Guðbrandi Björnssyni
frá Smáhömrum og bjuggu þau á Hvalsá í Tungusveit en þetta var
á fyrsta búskaparári þeirra. Gat ég því sameinað heimsókn til
þeirra beggja, systra minna, í sömu ferðinni, skrapp því þarna inn
eftir á meðan Torfi sat sýslufundinn, gisti í báðum leiðum hjá
Ragnheiði og var og tvær nætur hjá Jensínu á Óspakseyri.
Læt ég þetta nægja um langferðir mínar á barns- og unglings-
árum, og víst nóg komið. Að vísu fór ég nokkrum sinnum gang-
andi yfir Ófeigsfjarðarheiði en það var ekki fyrr en á árunum
1915–1920 og þá kominn til meiri þroska. En svona var nú ferða-
mátinn á þessum árum, eiginlega ekkert farið á vetrum nema
gangandi, í það minnsta í norðurhluta Strandasýslu, enda tíðast
allt á kafi í snjó og því ófært með hesta.
Hátíðahald, veislur og samkomur
Á aðfangadagskvöld, þegar venjulegum heimilisstörfum var
lokið og allir höfðu þvegið sér hátt og lágt og klæðst spariföt-
unum, safnaðist allt fólkið saman í baðstofunni til guðsþjónustu.
Voru þá sungnir sálmarnir „Í Betlehem er barn oss fætt“ og
„Heims um ból“ og lesin jólahugvekjan. Jensína, systir mín, hóf
jafnan sönginn því að hún var lagvís og hafði góða söngrödd
en Ásgeir afi las alltaf alla húslestra meðan hann hélt sjóninni.