Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 111
109
ann og Skúla Thoroddsen og hafði enda nokkur persónuleg
kynni af Skúla og heimili hans á Ísafirði er Skúli var sýslumaður
þeirra Ísfirðinga. Við krakkarnir og heimilisfólkið yfirleitt vorum
og ákafir fylgjendur sömu stjórnmálastefnu og faðir okkar. Mátti
kannski þar um segja að eftir höfðinu dansi limirnir. Þó var hér
ein undantekning því að Ásgeir afi var jafn ákafur heimastjórnar-
maður og pabbi var sjálfstæðismaður enda forðuðust þeir að
ræða stjórnmál sín á milli. Guðrún amma talaði aldrei um stjórn-
mál og lítið um trúmál og vissu því fáir um hug hennar í þeim
efnum en hún hugsaði vel um sokkaplögg okkar og prjónaði
mikið. Ég held að amma hafi verið mjög vel gefin kona og stál-
minnug var hún enda gat hún rakið saman ættir ótrúlega margra
þótt fjarskyldir væru. Hún reykti dálítið pípu og sat þá jafnan fyrir
framan eldstóna og kveikti ætíð í tóbakinu með eldiviðarbrandi
úr stónni eða logandi móköggli er hún lagði á pípukónginn. Hún
sagðist hafa vanist á að reykja er hún, unglingur, hefði verið látin
kveikja í pípu fyrir gamlan mann á heimilinu. Sagði hún okkur
ýmislegt frá fyrri tíð og var furðulega fróð um sögu lands og þjóð-
ar fyrri alda. Einnig kunni hún góð skil á mörgum atburðum og
mönnum annarra landa allt aftur í gráa forneskju. Ásgeir afi var
einnig fróður um margt. Hann hafði á búskaparárum sínum verið
hreppstjóri og á sínum yngri árum, eða um tvítugsaldur, sótt
Kollabúðafundi í Þorskafirði. Var sem andlit gamla mannsins
uppljómaðist er hann minntist þeirra funda.
Fyrstu Alþingiskosningar sem ég minnist voru kosningarnar
1908 þegar slagurinn um Uppkastið stóð. Guðjón Guðlaugsson
frá Ljúfustöðum hafði þá verið þingmaður Strandamanna um 15
ára skeið og var því orðinn mjög gróinn í sessi enda hafði hann
jafnan verið töluvert atkvæðamikill á þingi og ávallt verið traustur
fyrirsvarsmaður síns heimahéraðs. Hann hafði orðið sjálfkjörinn
þingmaður kjördæmisins við síðustu kosningar, var vel máli far-
inn og harðskeyttur málafylgjumaður, ef því var að skipta, gagn-
vart andstæðingum. Guðjón var þá framkvæmdastjóri kaupfélags-
ins á Hólmavík og mikill áhrifamaður í héraðinu. Töldu því flestir
að enginn mundi sá finnast er líklegur væri til að bera sigurorð af
honum í þessum kosningum. Hann var, sem kunnugt er, mjög
eindreginn heimastjórnarmaður og ákafur fylgismaður Hannesar
Hafsteins og Uppkastsins. Andstæðingur hans og gagnframbjóð-