Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 120
118
Á hverju vori voru keyptir yrðlingar til eldis fram á vetur eða
fram yfir áramót er skinnin voru orðin fallegust en þá var hátt
verð á refaskinnum eins og fyrr var getið. Voru þeir flestir keyptir
af grenjaskyttum í Húnavatnssýslu á vorin þegar pabbi var í viðar-
flutningunum þangað á Ófeigi en slíkar ferðir voru venjulega
farnar tvær á hverju ári. Stundum náðum við nokkrum yrðlingum
úr greni í okkar landareign því oftast grenjuðu sig ein refahjón í
svonefndu Hrúteyjarnesi sem skerst fram milli Ófeigsfjarðar og
Eyvindarfjarðar en aldrei reyndum við að granda foreldrunum,
kusum heldur að geyma okkur tilraunir við þá til vetrarins er
skinnin urðu verðmætari. Það var sjaldgæft að refir legðust á fé
eða lömb hjá okkur enda höfðu þeir nóg æti úr fjörunni, bæði
krækling, fugl og fleira góðgæti sem þar mátti finna. Á tveimur
öðrum bæjum í sýslunni var yrðlingaeldi stundað vegna skinn-
anna sem ég vissi til. Það var í Stóru-Ávík og í Bæ á Selströnd. Hjá
okkur voru þeir flestir 44 en oftast um 30. Fyrstu vikurnar voru
þeir hafðir í sérhæfðu húsi fyrir þá meðan þeir voru að venjast
móðurleysinu. Var þeim þá gefinn grautur, mjólk, egg og fleira
sem til féll á heimilinu. Síðar voru þeir svo aldir í hólma sem er í
firðinum tæpa sjómílu frá landi þegar varpi æðarfuglsins var lok-
ið. Matur var fluttur til þeirra vikulega þegar fært var vegna veð-
urs en gæta varð þess að jafnan væru nægar matarbirgðir hjá
þeim því að í norðaustlægum áttum gat orðið ófært út í hólmann
jafnvel svo vikum skipti. Vatnsleysi þurfti ekki að óttast þar eð nóg
skarfakál var þarna sem þeir átu við þorstanum. Ef ís bar að landi
meðan þeir voru í hólmanum þurfti að hafa skjót handtök við að
ná þeim þaðan lifandi eða dauðum sem gefur að skilja en ekki
man ég að til þess þyrfti að grípa nema einu sinni en þá rak inn ís
upp úr áramótum. Voru þeir þá allir aflífaðir greyin enda orðnir
sæmilega fallegir. Maturinn sem þeim var færður í hólmann var
aðallega selur, bráðapestarket og fleira en fyrstu vikurnar einnig
grautur og mjólk sem látið var standa hjá þeim í vel afskorðuðum
trogum. Það var oft gaman að þessum vesalingum. Sumir voru svo
gæfir að þeir komu alveg að fótum okkar er við færðum þeim
matinn en aðrir héldu sig alltaf í hæfilegri fjarlægð, vildu ekkert
eiga undir náð okkar að sækja. Svo þurftu þeir oft að eltast við
hrafninn sem mjög tíðkaði heimsóknir til þeirra í ætisleit. Hann
gat skemmt sér ágætlega á þeirra kostnað. Sat hinn rólegasti við