Strandapósturinn - 01.06.2013, Blaðsíða 121
119
að háma í sig krásirnar og þóttist ekki taka eftir neinu, þótt þeir
væru á harðaspretti til hans með uppglennt ginið, fyrr en þeir
voru að því komnir að skella hann skoltum, lyfti sér þá eldsnöggt
upp, rétt við trýnið á þeim og flögraði síðan svo lágt yfir þeim að
á mörkum var að þeir næðu ekki til hans. Þannig gat hann látið
þá elta sig fram og aftur um hólmann, settist svo kannski á ein-
hverja fuglahræðuna og krunkaði og skrækti til þeirra rétt eins og
hann vildi gera þeim skiljanlegt hvað hann skemmti sér vel.
Í hólmanum voru klettagjótur og holur sem þeir gátu legið
inni í en auk þess voru gerð fyrir þá nokkur smáskýli með þak-
plötu yfir er þeir gátu skriðið undir í hrakviðrum. Í þessum holum
og skýlum voru þeir flestir teknir þegar þeim var lógað en þá urðu
menn að vera með þrenna vel þæfða vettlinga á höndum því
tennur þeirra voru skæðar og ekki skorti grimmdina þegar í hart
var komið. Oftast þurfti að skjóta 2–3 þá síðustu er virtust hafa
orðið þess áskynja að holurnar væru ekki lengur öruggir felu-
staðir en kusu heldur að þeysast fram og aftur um hólmann en
skríða í felur.
Á vetrum var jafnan haft nokkuð margt fé, 60–70 ær, norður á
svokallaðri Strönd en það var strandlengjan milli Hvalár og Hrút-
eyjarness. Beitarhús var í Strandartúni sem svo var nefnt en þang-
að er um klukkustundar gangur frá bænum. Þarna var heyjað 2–3
daga á hverju sumri og heyið hirt í hlöðutóft áfastri húsinu.
Slægjulandið var túnblettur kringum húsið, nokkrir töðugras-
blettir hér og þar á ströndinni með fram sjónum svo og nokkur
mýrarsund milli holta nær og fjær. Fjörubeit er þarna ágæt þegar
ekki eru ísalög eða fjörur byrgðar íshröngli en þá varð stundum
að taka féð heim á hús ef snjóalög voru einnig svo það næði ekki
til jarðar. Venjulega var fé mjög létt á fóðrum þarna, einkum er
tíðarfar var milt. Þurfti þá ekki að ganga til þess nema annan
hvern dag til að gefa því á jötu og hafa tölu á því. Varð þá oftast að
sækja það alla leið norður í Hrúteyjarnes og reka það að húsinu.
Þarna var féð látið „liggja við opið“, sem kallað var, þ.e. húsið var
látið vera opið svo ærnar gætu gengið út og inn eftir vild. Þegar
kom fram á útmánuði var þessum ám jafnan gefin fóðursíld með
heyinu. Var síldin þá skorin niður í smábita sem dreift var um
heyið í jötunni.