Strandapósturinn - 01.06.2013, Page 142
140
urðum undrandi er við sáum á mælinum að enn var frost. Þetta
tímabil, er frostin voru sem mest, var oftast stillt og bjart veður
en snjóaði þó stundum.
Undir mánaðamót janúar-febrúar myndaðist íshryggur um Sel-
sker og ystu útnes, líklega vegna straumsþunga að utan. Þá fór
líka að draga úr mesta frostinu. Íshryggur þessi hjaðnaði þá fljótt
er fór að blása af landi og slitnaði þar aðalísinn frá fjarðaísnum
sem hryggurinn hafði verið en fjarðaísinn losnaði ekki fyrr en
löngu síðar er hafátt hafði brotið hann upp. Ís á fjörum, víkum og
vogum lá enn lengi eftir að allur annar ís var horfinn út í hafs-
auga.
Ég gekk þennan vetur til fjárins á Ströndinni og um þriggja
mánaða tíma varð ég að fara þetta á hverjum degi eða meðan
fjörubeit var engin vegna íssins sem lá á fjörunum. Meðan ísinn
var fastur við land gekk ég á honum og dró fóðurbætirinn með
mér á sleða. Hafði ávallt byssu með mér sem jafnan áður enda var
hún nú alvöru öryggistæki því engan veginn var óhugsandi að
rekast á bjarndýr. Bjarndýr var reyndar unnið þennan vetur á
næsta bæ við okkur, Drangavík, og það var einmitt heimilismaður
okkar sem það gerði, Guðjón Jónsson frá Munaðarnesi. Hafði
hann verið sendur einhvers erindis norður að Dröngum en er
hann kom í Drangavík, á heimleið, hittist svo á að bjarndýr hafði
brotist inn í útihús til að gæða sér á fóðursíld er þar var í tunnu.
Nothæf byssa var þá ekki til á staðnum og var því Guðjón fenginn
til að skjóta dýrið þarna í húsinu en hann hafði byssu með sér.
Annað bjarndýr var skotið í sveitinni meðan ég var heima en það
mun hafa verið veturinn 1910. Það dýr var á sundi á Ingólfsfirði
er það var unnið af þeim Eyrarmönnum. Áður hefur verið sagt frá
drápi þessara dýra á prenti og þótt þær frásagnir séu ekki alveg
eins og þær sem ég heyrði um atburði þessa í æsku fer ég ekki hér
að barna þær sagnir með nýjum sögnum um þessi dýradráp.