Bændablaðið - 18.11.2021, Blaðsíða 46
Bændablaðið | Fimmtudagur 18. nóvember 202146
Sumarið 2016 fór ég ríðandi
umhverfis Heklu. Í þeirri ferð sá
ég uppgræðslur víðs vegar, sem ég
hafði ekki vitað að væru til, þó að
ég hafi sjálf fylgst með uppgræðslu-
starfinu á Biskupstungnaafrétti
alla tíð. Ég sá líka land í öðru
ástandi en lýst hefur verið á svæð-
inu sem nefnt er gosbeltið. Þá datt
mér í hug að rannsaka beittu upp-
græðslurnar á hálendinu, sem ég
hafði haldið að væru fáar og strjál-
ar en ekki um alla tranta, eins og ég
komst að í þessari hestaferð.
Nú hef ég lokið þessari rann-
sókn með mastersritgerð frá
Landbúnaðarháskóla Íslands.
Rannsóknin byggir á skoðunarferð-
um um valin uppgræðslusvæði á
afréttum og viðtölum við rúmlega
tuttugu bændur sem best þekkja
til uppgræðslustarfs á viðkomandi
svæði. Auk þeirra þakka ég leið-
beinanda mínum, dr. Önnu Guðrúnu
Þórhallsdóttur, fyrir frábæra hand-
leiðslu og samstarf. Ritgerðin er
á íslensku og er nú aðgengileg á
Skemman.is á slóðinni http://hdl.
handle.net/1946/40102
Í þessari grein segi ég aðeins frá
sögu uppgræðslustarfs á afréttum
landsins og kynni helstu niðurstöður
úr rannsóknarverkefni mínu.
Saga og umfang uppgræðslustarfs
Uppgræðslustörf hófust á afréttum
svo einhverju nemi um og upp úr
1970, víða að frumkvæði sveitarfé-
laganna. Frá upphafi og fram á tí-
unda áratuginn sá Landgræðslan að
mestu um áburðardreifingu. Dreift
var með flugvélum í stórum stíl en
sveitarfélögin greiddu hluta kostn-
aðar. Miklum fjármunum var varið
til landgræðslu vegna þjóðargjafar-
innar frá árinu 1974 og um nokkurt
árabil þar á eftir. Á árunum 1975-
1979 gæti áburði hafa verið dreift
á 2.500-3.000 ha árlega á afréttum
landsins. Uppgræðslur á húnvetnsku
heiðunum vegna Blönduvirkjunar
hófust árið 1981. Þar var borið á
stór svæði árlega. Árið 1988 gæti
áburði hafa verið dreift á um 2.000
ha á hálendinu, þar af um helmingur
sem tilheyrði Blönduvirkjun.
Þegar þjóðargjafarinnar naut ekki
lengur við dró úr fjárveitingum og um
1990 hafði áburðarflugið minnkað
um tvo þriðju frá því sem mest var.
Á næstu árum varð stefnubreyting í
landgræðslumálum. Bændur og aðrir
heimamenn tóku að sér framkvæmdir
við uppgræðslurnar og fengu til þess
fjármagn annars staðar frá, meðal
annars frá Landgræðslunni. Stofnunin
hafði þó áfram ákveðna umsjón með
verkefnunum. Verkefni um upp-
græðslu heimalanda, Bændur græða
landið, hóf göngu sína og varð þegar
mjög fjölmennt. Landgræðslufélög
voru stofnuð. Áhugi bænda var til
staðar og margir höfðu þegar komið
sér upp mikilli reynslu af uppgræðslu
lands. Bændur notuðu hey og fleira til
uppgræðslu í auknum mæli og nýttu
til þess þekkingu sína og tækni.
Landbótaáætlanir vegna gæða-
stýringar í sauðfjárrækt komu til
framkvæmda frá árinu 2003. Árið
1988, löngu áður en gæðastýringin
kom til, starfaði Landgræðslan með
19 aðilum að uppgræðslu örfoka
lands til beitar. Árið 2009 var 21
afréttur með landbótaáætlun þar sem
unnið var að uppgræðslum og árið
2013 voru þessar áætlanir orðnar 27.
Fyrstu árin eftir hrun drógust
framkvæmdir saman á landsvísu.
Árið 2009 gæti hafa verið unnið á
1.200 ha á afréttum og árin 2012-
2015 gæti hafa verið unnið á um
2.100 hekturum árlega. Árin 2016-
2017 rýmkaðist fjárhagur til land-
græðslustarfs nokkuð og árlegt
umfang uppgræðslustarfs á afréttum
gæti hafa verið um 5.500-6.000 ha
þessi ár.
Augljóst er að bændur standa fyrir
miklum meirihluta þess sem gert er
í uppgræðslumálum á Íslandi nú
um stundir. Stór hluti þessara ver-
kefna er á beittum svæðum, bæði
stóru sameiginlegu uppgræðslurnar
vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt
og uppgræðslur á heimalöndum undir
merkjum Bændur græða landið.
Tilraunir og rannsóknir
Frá 1960 og í nokkra áratugi, fram
um aldamót, voru gerðar ýmsar
tilraunir og rannsóknir varðandi
uppgræðslur á hálendinu. Fyrst
voru gerðar tilraunir til að ganga
úr skugga um hvort unnt væri að
græða upp land með áburði og sán-
ingu í mikilli hæð yfir sjávarmáli,
meðal annars á Holtamannaafrétti og
Sprengisandi. Þar var borið á mjög
rýr og gróðursnauð öræfi í nokkur
ár. Áburðargjöfin þétti staðargróður
ár frá ári en sáðgresi lifði ekki af við
þær aðstæður. Þessar tilraunir voru
gerðar með það fyrir augum að bæta
vatnsmiðlun og draga úr sandfoki á
vatnasvæði Þjórsár, sem þótti raun-
hæft og einnig var lagt til að dreifa
áburðinum úr flugvél. Sú aðferð við
áburðardreifingu var einmitt viðhöfð
næsta áratuginn við uppgræðslu á
afréttum.
Frá árinu 1981 græddi
Landgræðslan upp mikil afrétt-
arsvæði á húnvetnsku heiðunum
fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, síðar
Landsvirkjun. Áburði og fræi var að
mestu dreift með flugi og tilgangurinn
var að bæta eigendum Auðkúluheiðar
og Eyvindarstaðaheiðar fyrir
haglendið sem fór undir Blöndulón.
Þegar ráðist var í þetta verkefni, var
orðið ljóst að uppgræðslur á hálendi
voru raunhæfar og báru árangur en
aðferðir voru í þróun og framvinda
gróðurs í uppgræðslum til lengri
tíma var lítt þekkt. Margar rann-
sóknir og tilraunir voru gerðar af
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
í tengslum við þessar uppgræðslur
á árunum 1981-1997. Eftir að rann-
sóknirnar á húnvetnsku heiðunum
runnu sitt skeið, hefur lítið verið
unnið að rannsóknum á uppgræðslum
á hálendinu og beittar uppgræðslur
hafa hlotið afar takmarkaða athygli.
Helstu niðurstöður - viðhorf
bænda til uppgræðslustarfs
Á hverju svæði hafa menn sína
sögu að segja af uppgræðslustarf-
inu, sem hófst á ýmsum tímum og
hafði mismunandi aðdraganda en er
nú sameinað undir merkjum gæða-
stýringar í sauðfjárrækt. Ávallt hefur
Landgræðslan haft einhverja aðkomu
að þessu starfi. Til að skilja afstöðu
fólks, sérstaklega til samskiptanna
við Landgræðsluna, þarf að kynna
sér sögu svæðisins og hvers konar
samskipti hafa farið þar fram.
Markmið bænda með uppgræðslu-
starfi eru í fyrsta lagi að uppfylla
skilyrði gæðastýringar, til að geta
nýtt landið til sauðfjárbeitar. Þó að
sauðfjárbændur séu ekki einir um
uppgræðslustarfið, virðast hagsmunir
LÍF&STARF
Beittar uppgræðslur á hálendi Íslands,
reynsla bænda, aðferðir og árangur
Sigríður Jónsdóttir í Stóraveri á Hrunamannaafrétti sumarið 2018. Myndir / Einkasafn.
Áburðarsekkir Landgræðslufélags Biskupstungna innan Bláfells vorið 2019.
Á FAGLEGUM NÓTUM