Börn og menning - 2020, Side 3
Þegar þessi pistill er skrifaður
líður að áramótum og mörg
vona að nýtt ár verði hreinlega
óeftirminnilegt í samanburði
við það sem er að líða. Þrátt
fyrir að þrengt sé að flestum
sviðum mannlífsins tekst okkur
samt einhvern veginn að skakk-
lappast áfram. Við styðjum
hvert annað úr hæfilegri fjarlægð og og finnum okkar
leið. Tækifærin liggja víða. Nú er tíminn til að skapa.
Skrifa, teikna, smíða, mála, prjóna og perla. Lesa, horfa
og hugsa. Hlusta.
Starfsemi IBBY á Íslandi heldur áfram eins og hægt
er. IBBY hefur um margra ára skeið veitt Vorvinda-
viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar á Ís-
landi. Eins og heiti viðurkenningarinnar gefur til kynna
hefur hún jafnan verið veitt að vori. Í ár breyttist vind-
áttin og viðurkenningin var veitt í byrjun nóvember.
Bjarni Fritzson rithöfundur hlaut viðurkenningu fyr-
ir framlag til barnamenningar með barnabókunum um
Orra óstöðvandi. Bækurnar um Orra eru spennandi,
fyndnar en samt með sterkan boðskap um að fara út
fyrir kassann, leggja hart að sér, hafa trú á sjálfum sér og
gefast aldrei upp. Þessi boðskapur er kjarninn í bókun-
um um Orra óstöðvandi og vini hans. Þótt bækurnar
samanstandi af skemmtilegum sögum úr lífi Orra og
vina hans, sigrum og ósigrum, þá stendur Orri stund-
um frammi fyrir áskorunum sem hann þarf að sigrast á
með jákvæðni, ákveðni og hugrekki. Allt er þetta boð-
skapur sem er mjög þarfur í dag. Sama máli gegnir um
lestraráhugann sem bækurnar hafa skapað.
Hildur Knútsdóttir rithöfundur hefur skrifað margar
bækur fyrir börn og unglinga en teygir sig jafnframt upp
í ungmennabókmenntir. Í bókum sínum hefur Hildur
komið víða við, hún hefur fjallað um framandi heima,
furður og framtíðarmarkaðar aðstæður. Á Íslandi koma
einungis út örfáar bækur árlega eftir íslenska höfunda
sem ætlaðar eru eldri börnum
og unglingum. Bækur Hildar
hafa því haft afgerandi jákvæð
áhrif á barna- og unglinga-
bókaflóruna á Íslandi. Ekki síst
fyrir það að vera einmitt bæk-
ur sem börn og unglingar hafa
áhuga á að lesa.
Rósa Björg Jónsdóttir hlaut
einnig viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar
með brautryðjendastarfi sínu, bókasafni Móðurmáls.
Rósa Björg hefur unnið ómetanlegt starf í þágu barna
og unglinga á Íslandi sem eiga annað móðurmál en
íslensku með yfirumsjón og skráningu barna- og ung-
lingabóka og annarra gagna á erlendum málum í sjálf-
boðaliðastarfi. Rósa hóf skráningu gagna fyrir fjórum
árum og í dag eru skráð um 6.000 gögn í bókasafni
Móðurmáls á 88 tungumálum. Rósa hefur ekki einung-
is séð um skráningu heldur hefur hún haft yfirumsjón
og sótt um styrki fyrir starfinu, útvegað safnkostinn,
séð um útlán og lengst af hýsti hún safnið sjálf á eig-
in heimili. Með sjálfboðaliðastarfi sínu fyrir bókasafn
Móðurmáls hefur Rósa gert íslenskt samfélag sterkara,
fallegra og betra.
Seinna tölublað Barna og menningar í ár er að stórum
hluta helgað teiknimyndasögum. Í gegnum fjölbreyttar
greinar liggja sameiginlegir þræðir, um hvernig teikni-
myndasögur hafa í gegnum árin verið samtímaspegill,
um átök hetja og illmenna, ofurkrafta og breyskleika
manna og goða. Myndmál teiknimyndasagnanna er
alþjóðlegt og þær njóta vinsælda meðal lesenda á öll-
um aldri. Teiknimyndasögur sem undirrituð las í æsku
lituðust af tíðaranda sem fylgdi kalda stríðinu og þar
má víða finna fordóma og staðalmyndir sem ekki eiga
upp á pallborðið lengur. Þær eru heimild um veröld
sem var. Það verður forvitnilegt að sjá þá tíma sem nú
eru uppi speglast í sögum samtímans – ekki síst þegar
frá er liðið.
Frá ritstjóra
Nú er tíminn til að
skapa. Skrifa, teikna,
smíða, mála, prjóna og
perla. Lesa, horfa og
hugsa. Hlusta.
Ingibjörg Valsdóttir