Börn og menning - 2020, Blaðsíða 15
15Þessir Rómverjar eru klikk!
gamanbókmenntum allra alda: litla og
stóra. Asterix er lítill og snaggaralegur
og rödd skynseminnar í sögunum en
félagi hans, Obelix (Steinríkur), er stór,
fílsterkur, vitgrannur en með hjarta úr
gulli.
Nöfn félaganna tveggja og raunar
allra gallverskra karlpersóna enda á við-
skeytinu –ix, en í íslensku þýðingunum
er notast við endinguna –ríkur. Raunar
mætti skrifa langa ritgerð um nafngift-
ir sögupersóna Ástríksbókanna frá einu tungumáli til
annars, þar sem orðaleikir vaða uppi og þýðendum er
gefið talsvert skáldaleyfi.
Ástríkur og Steinríkur voru óvenjulegar söguhetjur.
Gallarnir eru fávísir sveitamenn sem bera enga virðingu
fyrir valdi og virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir
að þeir standi uppi í hárinu á valdamesta ríki heims.
Skemmtanir þeirra eru einfaldar, ganga mest út á át-
veislur og slagsmál, sem oftar en ekki brjótast út milli
þorpsbúanna sjálfra af minnsta tilefni. Aukapersónur
eru mýmargar, flestar einvíðar en dregnar sterkum lit-
um. Gert er út á klisjur, sem geta af sér síendurtekna
brandara, svo sem um fisksalann Slorrík sem selur
furðuúldinn fisk miðað við að búa í sjávarþorpi eða
skáldið Óðrík sem hefur upp raust sína í sífellu en endar
oftast bundinn og keflaður. Konur gegna vandræðalega
litlu hlutverki í sögunum nema þá sem fegurðardísir,
matseljur eða kerlingarsköss sem siða til eiginmenn
sína.
Með nokkurri einföldun má skipta Ástríksbókunum
í tvennt. Um helmingur sagnanna gerist í og við Gaul-
verjabæ, þar sem Gallarnir takast á við utanaðkomandi
ógn – oftar en ekki rómverskan útsendara í dulargervi
sem reynir árangurslaust að sá fræjum misklíðar meðal
þorpsbúa. Hinn helmingurinn er ferðasögur, þar sem
Ástríkur og Steinríkur halda í leiðangur til að hjálpa
vinum eða fjarskyldum ættingjum sem eiga í höggi við
Rómverja.
Ferðalög þessi hafa leitt félagana víða um lönd. Má
þar nefna Bretland, Spán, Sviss, Korsíku, Egyptaland,
Grikkland, Mið-Austurlönd og jafnvel Indland og Am-
eríku. Sagnfræðileg nákvæmni verður oft að víkja fyrir
fjörugum söguþræðinum; þannig taka
Ástríkur og Steinríkur þátt í púnversku
styrjöldunum sem þó áttu sér stað nærri
tveimur öldum fyrir þeirra tíð og villast
til Ameríku um leið og norrænir sæfar-
ar, sem þó voru þúsund árum síðar á
ferðinni!
Það er einkum í ferðasögunum sem
höfundarnir komast á flug við að leika
sér með staðalmyndir og klisjur. Á ferða-
lögum innan Frakklands úir allt og grúir
af orðaleikjum sem tengjast mállýskum einstakra svæða
eða hugmyndum um hegðun og skapferli íbúanna,
klæðaburð eða matarsmekk. Lýsingar á fjarlægari sam-
félögum draga fram allar ýktustu hugmyndir Frakka
um viðkomandi þjóðir. Þannig hverfist líf Svisslendinga
um ofurhreinlæti, þagmælskar bankastofnanir með fjár-
sjóðshillum, fondúveislur, bogaskyttur og gauksklukk-
ur (sem er annað dæmi um sagnfræðilegt skáldaleyfi
bókanna). Oftar en ekki hafa þeir Ástríkur og Steinrík-
ur svo óvart varanleg áhrif á menningu landanna sem
þeir heimsækja, svo sem með því að kenna Bretum að
drekka te, uppgötva olíu í Miðausturlöndum og brjóta
í ógáti nefið af sfinxinni miklu í Egyptalandi.
Spámenn í sínu föðurlandi
Óhætt er að segja að franskir lesendur hafi tekið þess-
um nýju söguhetjum opnum örmum. Fyrsta bókin um
ævintýri þeirra Ástríks og Steinríks seldist mjög vel,
en síðan margfölduðust sölutölurnar með hverri nýrri
sögu og upplagið varð stærra en dæmi voru um varð-
andi myndasögur. En sögurnar um Ástrík fengu ekki
bara pláss í frönskum bókahillum, heldur líka í hjörtum
þjóðarinnar á þann hátt sem fátítt má telja um bók-
menntapersónur. Staða Ástríks í hugum Frakka minn-
ir helst á þann sess sem Múmínálfarnir hafa í finnskri
menningu, helstu persónur Astridar Lindgren meðal
Svía og góði dátinn Svejk hjá Tékkum. Það er til marks
um þessa sterku stöðu að strax árið 1965 ákváðu Frakk-
ar að gefa fyrsta gervihnetti sínum nafnið Astérix, en
gervihnettir voru um þær mundir taldir hápunktur
tækniþróunar og mesta stolt einstakra ríkja.