Börn og menning - 2020, Blaðsíða 29
29Gamalt og nýtt í bland
einn hópurinn lagði það á sig að læra meira en með-
almaður á Photoshop og nýttu þeir nemendur sér allar
Goðheimabækurnar sem þeir komust yfir til að búa til
bókina Goðaginning. Um er að ræða frumsamda sögu
um Óðin þar sem lögð er áhersla á að sýna hann meira
í þeirri mynd sem gefin er upp af honum í Gylfaginn-
ingu, sem vísum og göfugum, fremur en í þeim gam-
ansama stíl sem kemur fram í Goðheimabókunum.
Nemendurnir nýttu sér myndir Goðheimabókanna til
að miðla sögu sinni, klipptu og límdu og settu eigin
texta við myndirnar og útkoman var vel gerð, frumleg
og skemmtileg ásamt því að mikil vinna var lögð í að
rannsaka persónuleika Óðins og hvar og hvernig hann
kemur við sögu í Gylfaginningu.
Skapa eigin merkingu
Kostirnir við að tengja norræna goðafræði sérstaklega
við teiknimyndasögur eru meðal annars þeir að þar er
hægt að mæta bæði nemendum sem standa vel að vígi
í bóklegu námi og þeim sem þurfa aðstoð en við það
að hafa stuðning af teiknimyndasögunum öðluðust þeir
aukinn metnað og þorðu frekar að takast á við krefjandi
vísur og sögur. Enn einn kostur er sú leikni sem nem-
endur öðluðust í að greina teiknimyndasögur, horfa
gagnrýnum augum á samspil mynda, texta, leturs og
staðsetningar alls þessa á síðu og opnu.
Ég er ekki fyrsti kennarinn sem nýtir sér fjölbreytta
miðla og aðferðir við að kenna norræna goðafræði.
Þetta gera framhaldsskólakennarar um land allt og gera
það mjög vel auk þess sem þeir beita hugmyndaríkum
aðferðum við að kenna aðrar bókmenntir. Ég hef til að
mynda séð Njálsbrennu túlkaða sem piparkökuhús,
fengið að sjá málverk byggð á Grettis sögu og hlustað á
hlaðvarp um bækur Kristínar Mörju Baldursdóttur, svo
örfá dæmi frá kollegum mínum séu nefnd. Og alls stað-
ar er grunnmenntaþátturinn læsi tengdur sköpun og
nemendur taka virkan þátt í að skapa eigin merkingu,
finna bókmenntunum stað í eigin lífi og samfélagi.
Heimildir
1. Kristján Jóhann Jónsson. (2016). „Lífið og dauðinn og önnur
viðfangsefni bókmenntakennslu.“ Tímarit Máls og menn-
ingar, 77(4), 65-78. Sjá hér bls. 68.
2. Kremer, Nick. (2010). „This is Not Your Father‘s Thor: Us-
ing Comics to Make Mythology Meaningful.“ SANE journal:
Sequential art narrative in education, 1(1): (grein 4), 1-24. Sjá
hér bls. 2-3 og 7.
3. Kolfinna Jónatansdóttir. (2013). „Goð, menn og myndasög-
ur.“ Spássían, 4(2): 21-25. Sjá hér bls. 21-22.
4. Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2011). Aðalnámskrá
framhaldsskóla: Almennur hluti. Reykjavík: Höfundur. Sjá
hér bls. 17.
Höfundur kennir íslensku