Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.05.2022, Blaðsíða 22

Læknablaðið - 01.05.2022, Blaðsíða 22
242 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 R A N N S Ó K N (DHA).23 Þessi umbreytingarhæfni er þó misgóð milli einstaklinga og geta ýmsir þættir haft þar áhrif, eins og heildar fitusýrusam- setning fæðunnar, erfðir, aldur og heilsufar.24 Þannig virðist mik- il neysla á fæði sem er ríkt af ómega-6 fitusýrunni linoleic (LA) eða mjög mikil neysla á ALA-ríku fæði geta takmarkað myndun á löngum ómega-3 fitusýrum.22,23 Staða þekkingar í dag bendir hins vegar til þess að það magn ALA sem er umbreytt í DHA í líkam- anum sé afar takmarkað.4,25 Styrkur DHA og EPA hefur mælst lægri hjá grænmetisætum, sem borða ekki kjöt eða fisk, borið saman við alætur og enn lægri hjá þeim sem teljast grænkerar.24,26,27 Grænmetisætur og grænkerar geta þó tekið bætiefni, sem eru unnin úr þörungum og innihalda EPA og DHA fitusýrur.24,27 Mikilvægt er þó að taka fram að neysla á þörungum eða þara er talin óæskileg fyrir barnshafandi konur, þar sem hætta er á að joð-innihald geti verið umfram hættulaust viðmið.28 Í rannsókninni frá 2012-2013 kom fram að dagleg meðal- neysla barnshafandi kvenna á lýsi og öðrum fiskiolíum var mjög lítil, eða um eitt gramm, og að aðeins 35% kvennanna náðu ráð- lögðum viðmiðum um inntöku DHA (≥200 mg/dag að jafnaði).21 Í PREWICE I frá 2015/2016 voru birt miðgildi á sameinaðri inntöku- tíðni D-vítamíns og fiskiolíu, sem var 7,1 skipti í viku.20 Þegar við sameinum inntökutíðni D-vítamíns og fiskiolíu í okkar rannsókn- arhóp eru niðurstöðurnar svipaðar, eða 7,3 skipti í viku. Í okkar rannsóknarhópi notuðu 50% barnshafandi kvenna bætiefni sem innihalda ómega-3 daglega. Neysla langra fitusýra endurspeglaðist í styrk þeirra í blóðvökva. Um 17,1% kvennanna tók daglega fjölvítamín ætlað barnshafandi konum, sem inniheld- ur ómega-3, daglega en neysla þess endurspeglaðist ekki í styrk ómega-3 í blóðvökva. Mögulega er það vegna áhrifa lífaðgengis bætiefnisins. Lífaðgengi ómega-3 fitusýra er mismikið og spila margir þættir þar inn í.29 Það form sem fitusýrur eru á getur haft áhrif, sýruþol hylkis getur hamlað upptöku, fita sem neytt er sam- hliða getur aukið upptöku og önnur efni geta truflað ferlið.29 Al- gengustu form ómega-3 bætiefna eru: fríar fitusýrur, þríglýceríð, monoacylglýceról, etýlester og fosfólípíð.29 Samkvæmt rannsókn- um sem gerðar hafa verið á upptöku fitusýra virðist besta lífað- gengið vera þegar þær eru á formi frírra fitusýra eða þríglýcer- íða og það sísta þegar þær eru á formi etýlestera.30 Þar sem fríar fitusýrur eru óstöðugri og líklegri til að skemmast eru bætiefnin oftast á formi þríglýceríða eða etýlestera.30 Samkvæmt upplýsingum um innihaldsefni bætiefnanna frá framleiðendum kom í ljós að íslenska fjölvítamínið fyrir barns- hafandi konur inniheldur fiskiolíu á forminu etýlester á meðan ómega-3 töflur og lýsi eru á þríglýseríð formi.16-18 Líkleg ástæða þess að styrkur ómega-3 fitusýra hjá konum sem tóku inn fjölvítamínið, endurspeglaðist ekki í í blóðvökva þeirra er að frásog fitusýrunnar er ófullnægjandi á forminu etýlester. Einnig skiptir þó máli að fitu sé neytt með notkun á ómega-3 bætiefnum til að auka á frásog þeirra.31 Þá er frásog einnig háð meltingarkerfinu, þar sem þörf er á meltingarlípösum frá brisi til að vinna úr þrýglýceríðum og etý- lesterum, og er það niðurbrot talið mun hægara þegar um etýle- stera er að ræða.30,32 Önnur möguleg skýring á þessum mismun er sú að þar sem bætiefnið inniheldur fjölda annarra næringarefna, geta önnur innihaldsefni mögulega hindrað upptöku fitusýranna. Sem dæmi má nefna að kalkjónir geta bundist ómega-3 fitusýrum í meltingarkerfinu og þannig hindrað upptöku þeirra.29 Þetta gæti því verið raunin þegar um fjölvítamínið fyrir barnshafandi kon- ur er að ræða, þar sem ráðlagt magn inniheldur 300 mg af kalki, ásamt öðrum næringarefnum.18 Það gæti talist takmarkandi fyrir rannsóknina að ekki var gerð krafa um að þátttakendur væru fastandi þegar blóðprufan var tek- in. Það sama átti þó við um allar konurnar og ættu niðurstöðurnar því að vera samanburðarhæfar. Eins erum við ekki með upplýs- ingar um nákvæmar skammtastærðir, er kemur að fiskneyslu og töku bætiefna, heldur aðeins fæðutíðni. Aftur á móti sást jákvæð fylgni á milli fæðutíðni matvæla og bætiefna við styrk ómega-3 í blóði. Það að myndun EPA og DHA getur átt sér stað í líkam- anum, í mismiklu magni milli einstaklinga, og að hluti þessara fitusýra flyst yfir til fósturs getur haft áhrif á niðurstöður mælinga og fylgniútreikninga. Sterkasta fylgnin sem sást í gögnunum, var á milli neyslu alls fisks og allra bætiefna með ómega-3, að undan- skildu meðgöngu-fjölvítamíninu (r=0,46). Við gildismat matvæla og lífmerkja er fylgni um 0,3-0,4 talin meðalgóð en ákjósanlegust er fylgni á bilinu 0,4-0,7 eða hærra.9,33 Fyrri niðurstöður PREWICE II styðja einnig að svör barnshaf- andi kvenna við spurningum fæðutíðnispurningalistans endur- spegli raunverulega neyslu þeirra á heilkornum13 og tíðni mjólk- ur- og fiskneyslu tengist styrk joðs í þvagi.12 Niðurstöður okkar sýna að æskilegt er að hvetja enn frekar til þess að fiskur sé á borð- um barnshafandi kvenna, en það gæti einnig dregið úr hættu á joðskorti sem greint hefur verið frá í þýðinu á öðrum vettvangi.12 Styrkleikar rannsóknarinnar eru meðal annars að við erum með stóran rannsóknarhóp með hátt þátttökuhlutfall (75%) þar sem við höfum bæði upplýsingar úr fæðutíðnispurningalista og niðurstöðu lífmerkja sem voru mæld í blóði. Helstu niðurstöður okkar eru að rétt rúmlega þriðjungur barnshafandi kvenna borðaði fisk að minnsta kosti tvisvar sinn- um í viku í samræmi við ráðleggingar. Um það bil helmingur kvennanna notaði einhver bætiefni með ómega-3 fitusýrum dag- lega. Af þeim 554 konum (65%) sem borðuðu ekki fisk tvisvar í viku eða oftar, var um helmingur sem tók einhver bætiefni með ómega-3 (ekki birt í töflu). Neysla matvæla og bætiefna sem inni- halda ómega-3 fitusýrur endurspeglaðist í styrk þeirra í blóð- vökva, að undanskildu íslensku fjölvítamíni fyrir barnshafandi konur. Líkleg ástæða er ófullnægjandi frásog fitusýrunnar á því formi sem hún er í bætiefninu (etýlester). Niðurstöðurnar benda til þess að stór hluti barnshafandi kvenna fullnægi ekki þörf sinni fyrir langar ómega-3 fitusýrur á meðgöngu. Því er mikilvægt að afla upplýsinga um fiskneyslu í upphafi meðgöngu og ákvarða út frá því hugsanlega þörf fyrir bætiefni, ef konan getur ekki aukið fiskneyslu sína. Einnig er mikilvægt að hafa í huga á hvaða formi ráðlagða bætiefnið er til þess að upptaka þess sé nægileg. Þakkir Sérstakar þakkir fær starfsfólk fósturgreiningardeildar Landspít- alans fyrir aðstoð við öflun þátttakenda. Einnig þakka höfundar öllum þeim sem unnu við framkvæmd rannsóknarinnar. Rann- sóknin fékk styrk frá bæði Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Vísindasjóði Landspítala. Greinin barst til blaðsins 25. janúar 2022, samþykkt til birtingar 25. mars 2022.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.