Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 6
6 – Sjómannablaðið Víkingur
Mér hefur verið sagt í svip,
að sig hún taki að yggla
og ætli nú að eignast skip,
þótt enginn kunni að sigla.
Þannig orti Jónas Hallgrímsson í Borð-
sálmi um sumarmálin árið 1839. Tilefn-
ið var fréttir, sem borist höfðu til Kaup-
mannahafnar frá Íslandi um fyrirætlanir
nokkurra manna í Reykjavík um að
kaupa skip og hefja útgerð póstskips frá
Íslandi. Kveðskapurinn er í sjálfu sér
meinfyndinn en segir einnig mikla sögu
um ástandið í íslenskum samgöngumál-
um og samskiptum Íslendinga við um-
heiminn á fyrra helmingi 19. aldar. Ís-
lendingar áttu engin skip sem siglt gátu
á milli landa og engir, eða að minnsta
kosti sárafáir, Íslendingar kunnu nógu
mikið í siglinga- og sjómannafræðum til
þess að geta stýrt skipum yfir hafið. Þeir
höfðu allt frá því á miðöldum verið háðir
öðrum þjóðum um siglingar til og frá
landinu og smám saman var að renna
upp fyrir mönnum, heima og heiman,
hve mikill dragbítur á allar framfarir
skipaleysið var. Eljaragletta listaskáldsins
var því ekki einungis gamanmál og háð,
hún var ekki síður hugsuð sem hvatning
til þeirra sem loks sýndu þann dug og
kjark að reyna að komast yfir skip og
hefja siglingar á milli landa – og það þótt
enginn kynni að sigla.
Enginn, sem hefur kynnt sér íslenska
atvinnu- og verslunarsögu síðustu
tveggja alda, mun mæla á móti því að
þar sé saga kaupskipaútgerðar einn allra
merkasti og veigamesti þátturinn. Nú á
dögum leiða fáir hugann að þessum
mikilvæga þætti sögunnar og það vill
gleymast, að á um það bil fjórum áratug-
um, frá 1915 og fram yfir 1950 byggðu
íslensk fyrirtæki upp myndarlegan kaup-
skipaflota, sem annaði nánast öllum
vöru- og farþegaflutningum til og frá
landinu, þótt erlend skip sigldu reyndar
einnig mikið hingað til lands. Flotinn
var endurnýjaður og stækkaður að mun
á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og
næstu áratugina sigldu íslensk kaupskip
reglulega til flestra landa í Evrópu og
Norður-Ameríku, auk stöku ferða til fjar-
lægari landa og heimsálfa. Þá var eng-
inn hörgull á íslenskum mönnum, sem
kunnu að sigla, íslensk kaupskip voru
nær einvörðungu mönnuð Íslendingum
og farmennska var í senn eftirsótt og vel
metin starfsgrein á Íslandi.
Í þessum greinaflokki verður saga
íslenskrar kaupskipaútgerðar rakin frá
upphafi og fram undir lok 20. aldar.
Reynt verður að geta sem flestra útgerð-
ar- og skipafélaga, sem komu við sögu,
sagt frá skipum og helstu ferðaleiðum og
einstakra manna getið eftir því sem við á
hverju sinni. Þau kaupskip eru talin ís-
lensk, sem voru sannanlega í eigu ís-
lenskra manna og fyrirtækja, en fram til
1. desember 1918 sigldu íslensk kaup-
skip undir dönskum fána og á 19. öld-
inni voru þau oft skráð í Danmörku og
áttu þar heimahöfn þótt eigendurnir
væru íslenskir.
Víkur þá sögunni að fyrstu tilraunum
til útgerðar kaupskipa á Íslandi.
Tveir frumkvöðlar
Hver varð fyrstur Íslendinga til að hefja
útgerð kaupskips á síðari öldum? Þessari
spurningu verður ekki svarað með óyggj-
andi hætti en flest bendir til þess að
heiðurinn eigi Ólafur Thorlacius kaup-
maður á Bíldudal við Arnarfjörð.
Ólafur var Sunnlendingur að ætt og
uppruna, fæddur árið 1761. Hann hóf
ungur störf við verslun og þegar einok-
unarverslunin var afnumin og verslun-
arstaðirnir seldir einn af öðrum, festi
hann kaup á Bíldudalsverslun, annað
hvort árið 1789 eða 1790. Um leið eða
skömmu síðar keypti hann flutningaskip,
sem hann nefndi eftir verslunarstaðnum
og uppá dönsku – Bildahl. Þetta skip
notaði Ólafur öðru fremur til að flytja
saltfisk beint frá Bíldudal til Spánar og
var þá venjan sú, að þegar skipið var
fullfermt í lok sumarkauptíðar hélt það
áleiðis til Spánar og var Ólafur kaup-
maður þá oft með í för. Á Spáni var
farmurinn seldur og skipið síðan lestað
með ýmsum suðrænum varningi sem
Myndin er af Ísafirði um aldamótin 1900. Mynd: Frederick W.W. Howell/Cornell University Library
Jón Þ. Þór
Þættir úr sögu íslenskrar
kaupskipaútgerðar
I
Tímabilið fyrir 1914