Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 10

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 10
10 – Sjómannablaðið Víkingur grár að lit. Leið svo ekki á löngu uns tekið var að nefna skipið Gránu og félagið Gránufélag. Hvort tveggja nafnið festist við. Hlutafélagið sem stofnað var í janúar 1869 var sett á laggirnar í þeim til- gangi einum að kaupa byrðing Emilie af „Jóhanni í Haga“ og félögum hans. Þegar þeim áfanga var náð var næsta skref tekið og í júní 1870 stofnuðu 24 Eyfirð- ingar og Þingeyingar hlutafélag um verslun. Það félag var formlega nefnt Gránufélag og eignaðist skipið Gránu. Útgerð þess hófst svo 10. september 1870, þegar það lagði upp frá Akureyri til Kaupmannahafnar, hlaðið íslenskum útflutningsvörum. Skipið kom til baka sumarið eftir og flutti þá hvers kyns út- lendar nauðsynjavörur. Saga Gránufélagsins verður ekki rakin hér. Höfuðstöðvar þess voru á Oddeyri og það var varð á skömmum tíma mjög umsvifamikið í verslun á Norðurlandi og Austfjörðum og sýndi, svo ekki varð um villst, að Íslendingar voru fullfærir um að stunda verslun og kaupsiglingar. Gránu gerði félagið út í rúman aldar- fjórðung, til ársins 1896, er hún strand- aði við Hjaltland. Þá átti félagið um skeið annað skip, sem hét Gefjun. Það fórst með allri áhöfn í aftakaveðri á Værðarskeri, lítið eitt vestur af Ólafs- fjarðarmúla yst í Eyjafirði aðfaranótt 27. nóvember 1877. Rósa hét þriðja skip Gránufélagsins og var, eins og Grána, upphaflega frönsk fiskiskúta sem strand- aði við Ísland. Gránufélagið keypti skip- ið á stranduppboði árið 1878 og átti það til 1913, er það var selt til Svíþjóðar. Rósa var stærst skipa Gránufélagsins, 136 rúmlestir, og þannig mun stærri en Grána sem var 87,05 rúmlestir og Gefjun sem var 47 rúmlestir. Skipverjar á skipum Gránufélagsins voru jafnan danskir. Þeirra þekktastur hér á landi var Petersen, skipstjóri á Gránu. Hann stýrði skipinu allan tímann sem það var í eigu Gránufélagsins og var þekktur á Norðurlandi sem „Gránu-Pet- ersen“. Hann reyndist mjög farsæll og naut vinsælda meðal félagsmanna og viðskiptavina Gránufélagsins. Sonur hans, Ludvig, var einnig í þjónustu félagsins um hríð og var skipstjóri á Gefjunni þegar hún fórst. Vestfirsk stórútgerð – fyrstu íslensku gufuskipin Vorið 1852 kom til Ísafjarðar frá Dan- mörku lítið seglskip, sem bar nafnið Lovísa. Við stýrið stóð ungur maður, Ás- geir Ásgeirsson frá Rauðamýri á Langa- dalsströnd. Íbúar verslunarstaðarins á Skutulsfjarðareyri þekktu að sönnu vel til hans og skipsins, sem hann hafði út til hákarlaveiða frá Ísafirði undanfarin fimm ár. Engu að síður markaði þessi skipskoma tímamót. Með henni hófst saga Ásgeirsverslunar á Ísafirði og um leið merkilegt tímabil í íslenskri siglinga- og verslunarsögu. Fyrstu árin sem Ásgeir skipherra, eins og hann var tíðast nefndur vestra, rak verslun á Ísafirði samdi hann við lausa- kaupmenn um vöruflutninga eða tók skip á leigu í Danmörku og Noregi. Þeg- ar kom fram yfir 1860 varð hins vegar æ algengara að hann færi sjálfur á milli landa á eigin skipum vor og haust. Þessi skip voru flest lítil, gengu til hákarla- veiða á sumrin og farmur þeirra var oftast aðeins viðbót við það sem Ásgeir sendi með leiguskipum og lausakaup- mönnum. Þar kom hins vegar að þessi flutningsmáti dugði ekki lengur og á árunum 1871-1872 lét Ásgeir smíða í Danmörku 120 rúmlesta skonnortubrigg. Það hlaut nafnið S. Louisa og var í förum fyrir Ásgeirsverslun allt til ársins 1900, er það týndist í hafi. Þar með var eiginleg kaupskipaútgerð Ásgeirsverslunar hafin. Á meðan Ásgeir skipherra lifði annaðist S. Louisa vöru- flutninga fyrir verslunina ásamt leigu- skipum, en þegar Ásgeir Guðmundur sonur hans (Ásgeir yngri) tók við rekstr- inum eftir lát föður síns árið 1877 leið brátt að því að fleiri skipa yrði þörf. Ás- geir lét árið 1880 smíða í Vejle í Dan- mörku 147 rúmlesta skonnortu, sem hann gaf nafnið Louise, vafalaust eftir hinu gamla hákarlaskipi föður síns. Þetta skip reyndist einstaklega traust og far- sælt og var í eigu Ásgeirsverslunar uns hún hætti starfsemi 30. nóvember 1918. Og ekki leið á löngu þar til kaupskipa- floti Ásgeirsverslunar stækkaði enn. Gránufélagið bjó um sig í þessum húsi á Oddeyri fyrir norðan en um það er alltaf talað í fleirtölu – Gránufélagshúsin – enda að stofni til tvö hús og tvær ný- byggingar. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.