Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 14
14 – Sjómannablaðið Víkingur
ófarsælir í hernaði. Það var þarna sem selastofninn kom til,
sem margir Íslendingar vilja nú helst eyða. Það var engill sem
kom um kring eftirminnilegum orðaskiptum Bileams Beórs-
sonar við ösnuna sína. Um það atvik orti Hallgrímur Péturs-
son:
Ösnu munni einn, er kunni, upp lauk þá,
himins og láða hæstur dáða herrann sá,
fékk hún mál og fljótt nam tjá:
„Fyrir hvað gjörðir þú mig að slá?“
Í ljónagryfju austur í Babýlon blíðkuðu englar mannýg og
blóðþyrst ljón, svo næturlangt sleiktu þau tærnar á Daníel
spámanni í stað þess að éta hann, eins og ætlunin hafði þó
verið.
Færi maður sig yfir í Nýja testamentið, þá ber hæst þegar
Gabríel heimsótti Maríu, en það er vinsælasta myndefni allrar
Biblíunnar. Það voru englar sem gerðu fjárhirðunum viðvart að
koma og hylla Jesúbarnið, svo þeir hlupu frá sauðunum og
skildu þá eftir í reiðuleysi, en hvergi er lýst neinni vanþóknun á
þeirri léttúð í jólaguðspjallinu. Englar vísuðu veginn þegar
María og Jósep flúðu til Egyptalands undan grimmd Heródesar,
en þann 28. desember lét hann í forvarnarskyni myrða hvern
einasta strák í Betlehem, tveggja ára og yngri. Nýja testamentið
hefði orðið miklu styttri bók og efnisminni, ef hann hefði
klófest Jesúbarnið við það tækifæri.
Það voru englar sem hresstu Jesú við, eftir að hann hafði
staðist freistingar Djöfulsins úti í eyðimörkinni, sársvangur og
þyrstur. Það var vitaskuld engill sem tilkynnti Maríu Magda-
lenu að Jesú væri upprisinn, og þegar hann nokkru síðar var
uppnuminn til himna þá voru það engir nema englar sem
ýmist toguðu hann upp eða ýttu á eftir honum. Sami háttur var
nokkru seinna hafður á við himnaför Maríu móður hans. Er þá
fátt eitt talið af innkomum engla í atburðarásir Biblíunnar, og
alls ekkert sagt af mörgum afrekum þeirra síðan.
Hinn frjálsi vilji
Nú þrýtur mjög tímann og enn er þó margt ósagt. Upphaflega
mun Drottinn hafa útbúið englana með frjálsum vilja. En frjáls
vilji er vandmeðfarinn, eins og dæmið af Adam og Evu sannar
og ekki síður hitt, að Lúsífer notaði einmitt þennan frjálsa
vilja sinn til að finna fyrstur allra upp syndina, óhlýðnina,
hrokann og stjórnarandstöðuna, þegar hann gerði uppreisn
gegn Drottni. Við þann atburð setti felmtur að góðu englunum
sem eftir voru á himnum og það mun hafa orðið að samkomu-
lagi með þeim og Drottni, að þeir skyldu að vísu halda frí-
viljanum en aldrei nota hann. Englar eru þar af leiðandi nánast
frumkvæðislausir, þó þeim gangi ævinlega gott til. Þeir semja
heldur aldrei skilaboðin sjálfir sem þeir flytja, heldur eru alltaf í
annars erindum. Aldrei er nokkur skapaður hlutur þeim að
kenna. Að þessu leytinu líkjast þeir grandvörum opinberum
starfsmönnum sem spyrja einskis, vinna bara vinnuna sína en
eru ekki ábyrgir fyrir nokkrum sköpuðum hlut.
Stéttir í himnaríki
– féllu eftir tæpan hálftíma –
Nú skyldi maður ætla, að úr því fór sem fór með Sovét, þá væri
það helst himnaríki sem væri laust við bölvun stéttskiptingar-
innar, en svo er ekki. Af riti manns sem Dionýsus hét Aero-
pagus um 500 eftir Krist kom það glögglega fram, að jafnvel
englarnir skiptast í níu stéttir.
Æðstar eru þrjár þeirra sem eru næstar Drottni og gera lítið
annað en lofsyngja hann. Þetta eru serafar, sem á íslensku eru
kallaðir logendur enda eru þeir oftast umkringdir logandi eldi.
Þá koma kerúbar, sem yfirleitt bera fjóra vængi og eru alsettir
augum, enda gæta þeir helgidóma. Sem kunnugt er gerði
Drottinn ráð fyrir því, að Adam og Eva myndu vera heimilisföst
í himnaríki og þeim var þar allt heimilt nema að eta ávextina af
skilningstrénu og lífsins tré. Séra Árni Halldórsson, prestur á
Auðbrekku, reiknaði út að varla hafi liðið nema tæpur hálftími,
þangað til þau höfðu samt einmitt gert þetta. Þó svo Drottinn
vildi vera algóður, þá var hann líka alréttlátur, svo ekki var um
annað að ræða en reka þau út. Það gerði hann og setti engil til
að gæta hliðsins og hafði hann logasverð að vopni, samskonar
og Alec Guinnes notaði seinna í myndinni Star Wars. Drottinn
var nefnilega logandi hræddur um að þau myndu laumast inn í
garðinn aftur og éta líka af Lífsins tré með ófyrirsjáanlegum
afleiðingum. Engillinn við hliðið er fyrsti engillinn í Gamla
testamentinu og þar með í sögunni og hann var einmitt af stétt
kerúba. Í hástétt engla eru líka trónar eða hásæti. Þeir eru
nokkuð óræðir í laginu og er stundum lýst sem stórum
vængjuðum hjólum eða jafnvel kerrum.
Herradómar, dyggðir og tignir heita miðstéttir engla, en það
eru einkum þeir sem fást við viðhald sköpunarverksins, en
það vill vitaskuld ganga úr sér. Enginn þarf að halda að stjörnur
bliki, tungl snúist snurðulaust um jörð og loks bæði jörð og
tungl um sólina, án þess nokkurn tíma að bila.
Lægstu stéttirnar þrjár eru máttarvöld, erkienglar og loks
óbreyttir smáenglar, og það eru þessar stéttir sem annast
mannkynið og málefni þess. Máttarvöld sjá um meiriháttar mál
eins og almennan gang náttúrunnar og æðri stjórnmál, erki-
englar koma til skjalanna í mannheimum þegar mikið liggur
við, líkt og sendiherrar í milliríkjaviðskiptum, meðan óbreyttir
englar sýsla við þetta eilífa vesen og amstur sem er á mann-
fólkinu.
Heródes lætur myrða börnin eftir Raphel Sadeler.