Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 28

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 28
28 – Sjómannablaðið Víkingur vita af okkur. Afgreiðslumaðurinn var gamall togaraskipstjóri. Hann sagði við mig að nú skyldi ég vera rólegur. ,,Því nú færð þú storm í hafinu gamli.‘‘ En ég var nýbúinn að hlusta á veðrið og það spáði norð- austan stinningskalda á austur djúp og Færeyjadýpi, svo að ég hlustaði ekki á gamla manninn, því var nú ver. Við fórum strax af stað og við vorum klárir. Ég stóð sjálfur vestur fyrir Myggines og veðrið var ANA kaldi, þá fór ég í koju. Við vorum ekki komnir meira en 50 mílur frá Myggunesi, þegar við komum inn í norðan brælu og síðan í fárviðri með miklum sjó. Ég lét strákana heisa messan, til að halda bátnum betur upp í veðrið. Þetta var stór gaffalmessi, en fljótlega þorði ég ekki öðru en að taka hann niður aftur. Ég hélt að hann færi með mastrið. Einhvern tíma um nóttina hefur ein aldan hent bátnum það mikið aftur á bak, að vegmælislínan fór í skrúf- una. Þá fór ég að sjá eftir því að hafa ekki hlustað á gamla og reynda skip- stjórann og líka að hafa ekki tekið eitt- hvað í kjölfestu, því að við vorum með bátinn alveg tóman, bara smávegis af mublum í lestinni. Við vorum eina tuttugu tíma í þessu veðri, það var lítið um eldamennsku á meðan veðrið stóð sem hæst, mig minn- ir að við nærðumst helst á hvítöli og maríukexi. Loks gátum við farið að keyra með rúmlega hálfri ferð til og síðan með fullri ferð. En það átti ekki af okkur að ganga, því að þegar fór að grynnka og ég hélt að við ættum að fara að sjá til lands, þá gerði þoku og þegar dýptarmælirinn sýndi 30 faðma dýpi, þá bilaði hann. Við hægðum á ferðinni og lónuðum með hægustu ferð í NV. Veðrið var gott, norð- an gola. Eftir tvo eða þrjá tíma birti að- eins og við sáum blikk á vita. Og mikið var ég montinn, þegar við gátum talið blikkið á honum og sáum þetta voru Al- viðruhamrar, sem sé gat ekki verið betra. Við fengum nú gott veður vestur á móts við Vík í Mýrdal, en þá fór að hvessa heldur betur af austan og síðan suð- austan. Við sáum aðeins móta fyrir vitan- um á Dyrhólaey, þá var komið suðaustan rok og mikill sjór. Við fengum ekkert lag á dýptarmælinn, svo við vorum hálf illa settir. Ég var búinn að reyna að kalla í Vestmannaeyja Radíó, en það svaraði okkur ekki, þó heyrði ég þá svara öðrum skipum. Ég sá að það var boði upp af Elliðaey, sem gat verið hættulegur. Ég var alveg gjörókunnugur á þessum slóðum, en Siggi vélstjóri hafði róið eina vertíð frá Vestmannaeyjum. Ég man ekki vel hvað klukkan var um morguninn, þegar við sáum grilla í Elliðaey og gátum lónað upp undir Eyðið, þar lágu nokkrir togar- ar. Við létum reka, því við treystum okk- ur ekki til að setja út akkeri. Veðrið snérist í vestan átt í birtingu um morg- uninn, svo að við fórum inn í höfn- ina í Vestmannaeyjum. Starfsmenn- irnir þar tóku vel á móti okkur og lánuðu okkur bryggjubönd, því að Svíarnir höfðu stolið öllum okkar böndum og sett ónýt snurvoðartó í staðinn, einnig höfðu þeir samband við tollinn og útvarpsvirkja. Þá kom í ljós að þegar mennirnir í Svíþjóð, sem tóku talstöðina í land og fóru yfir hana, höfðu ruglað bylgjuskiptinum, þannig að ég var alltaf að kalla á vitlausri bylgju. Við vorum orðnir ansi dasaðir, þreyttir og svangir, eftir þetta volk, svo að við fórum allir upp á Hótel HB og fengum okkur væna steik að borða. Þaðan hringdi ég í föður minn og lét hann vita af ferðum okkar. Það var farið að óttast um okkur fólkið okkar og hann búinn að láta bæði Vestmannaeyja- radíó og mig minnir Hornafjarðarradíó líka, kalla okkur upp en við svöruðum ekki. En hann sagðist ekki hafa verið mjög smeykur, því að hann dreymdi draum þar sem ég og afi minn sem var dáinn fyrir mörgum árum, vorum að togast á um sæng og ég hafði sængina. Við lágum í Vestmannaeyjum í sólar- hring og fengum dýptarmælinn í lag. Til Keflavíkur komum við eftir átta og hálf- an sólarhring frá Gautaborg. Þetta var náttúrlega mikil reynsla og lærdómur sem maður fékk og þetta að hlusta hvorki á kóng né prest og að hafa ekki hugsað fyrir því að hafa botnfestu í bátnum. Eftir þetta passaði ég upp á að hafa alltaf næga botnfestu þegar ég sótti ný skip. Núna 55 árum eftir þetta, held ég að þessi hvellur á Færeyjabankanum sé versta, eða með verstu veðrum, sem ég hef lent í á þessum 35 árum mínum á sjó. Sæborg KE 4. Páll Zóphóníasson Páll var þingmaður 1939 til 1959, búfræðin- gur að mennt og um tíma búnaðarmálastjóri. Það varð Páli að listgrein sem aðrir kölluðu orðaslys og skömmuðust sín fyrir. Lítum á fáein dæmi um listfengi Páls: * Það dregur úr vexti lambanna að slátra þeim of ungum. * Bændur hafa bætt kyn sitt mikið í seinni tíð. * Það eru tvær dulbúnar þungamiðjur í þessu máli. * Menn eru ekki búnir að súpa úr nálinni með þetta mál. Bændur ættu að þekkja ærnar sínar eins og konurnar sínar. * Duglegum bændum ætti ekki að vera ofraun að gera ærnar sínar tví- og þrílembar. * Og munið það, bændur góðir, að hafa minnst tvo mjólkandi kvenmenn á ykkar heimili. * Skýrslurnar undan þessu nauti sýna að mjólkin hefur vaxið og sömu skýrslur, undan sama nauti, sýna líka að fitan hefur vaxið. * Ég ráðlegg ykkur eindregið, bændur góðir, að láta ekki lifa undan þeim ám sem drápu undan sér í vor. * Ef fjárpest kemur upp er skylt að tilkynna það öllum nærliggjandi sýslumönnum í sveitunum í kringum landið. Og í ræðu á Alþingi sagði Páll eitt sinn að umrædd tillaga hefði komið – ... eins og þjófur úr heiðskíru lofti. * Páll fór einhverju sinni á hesti yfir Austurá í Miðfirði. Áin var í miklum vexti og kemur hann blautur og hrakinn að næsta bæ. Hús- freyjan þar, Ásta að nafni, stendur úti á hlaði og spyr um leið og hann hefur stigið af baki: – Var áin djúp? Páll svaraði: – Sæl vertu Ásta, milli hnés og kviðar. * Páll ræddi eitt sinn um það við félaga sína hvað væri besta spilið. Eftir nokkrar um- ræður kvað hann upp úr með það, að bridge hlyti þá einkunn og bætti síðan við: – Ég spilaði það í sextán kvöld á hálfum mánuði í fyrra.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.