Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 8

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2012, Blaðsíða 8
8 – Sjómannablaðið Víkingur það flutti norður í bóginn í leigusigling- um, til Niðurlanda, Hamborgar og Dan- merkur. Til Kaupmannahafnar var Bil- dahl oftast komið um eða skömmu fyrir jól. Þegar leið að vori var skipið hlaðið ýmiss konar nauðsynjavöru sem það flutti til Íslands. Engin mynd hefur varðveist af Bildahl og vitneskja okkar um skipið er tak- mörkuð. Það reyndist hins vegar traust og farsælt og hlýtur að skipa heiðurs- sess í íslenskri siglingasögu. Það má með réttu kallast fyrsta íslenska millilanda- skipið á síðari öldum. Skipverjar munu flestir eða allir hafa verið danskir en þó er ekki útilokað að einhverjir Íslendingar hafi verið í hópi háseta. Auk Bildahl tók Ólafur Thorlacius skip á leigu til flutn- inga fyrir verslanir sínar og hann átti tvö önnur þilskip. Þau hétu Skt. Johannes og Mette og munu bæði hafa verið gerð út til fiskveiða þótt vel megi vera að þau hafi farið stöku ferðir til Danmerkur. Eft- ir 1809 var íslenskur skipstjóri á öðru þeirra, Þorleifur Jónsson frá Suðureyri í Tálknafirði. Ólafur Thorlacius efnaðist vel á versl- unarrekstrinum á Bíldudal og árið 1795 færði hann út kvíarnar. Þá keypti hann verslun Björgvinjarmanna í Hæstakaup- staðnum á Skutulsfjarðareyri (Ísafirði) ásamt verslunar- og íbúðarhúsum, bát- um, veiðarfærum og fiskhúsum í Bol- ungarvík. Þessa verslun rak Ólafur til dauðadags og síðan ekkja hans allt til 1827. Auk þessara tveggja verslana á Vestfjörðum keypti Ólafur Stykkishólms- verslun og í upphafi 19. aldar var hann talinn umsvifamesti kaupmaður á Ís- landi. Ólafur Thorlacius lést af slys- förum í Kaupmannahöfn árið 1815. Annar í röð útgerðarmanna íslenskra kaupskipa á síðari öldum var Bjarni Sí- vertsen kaupmaður í Hafnarfirði. Heim- ildir taka ekki af vafa um hvenær hann hóf þilskipaútgerð, en það hefur ekki verið síðar en 1794. Það ár hóf hann að versla í Hafnarfirði og þá átti hann skip sem hét Johanne Charlotte. Fátt er nú vitað með vissu um þetta skip. Í Sögu Hafnarfjarðar gerir Sigurður Skúlason því skóna, að Bjarni hafi keypt skipið þegar hann var í Danmörku árið 1793 og ef til vill haft það í förum á milli Selvogs og Vestmannaeyja áður en hann byrjaði að versla í Hafnarfirði. Sú tilgáta verður hins vegar ekki studd traustum heimild- um og því er best að hafa sem fæst orð um þetta góða skip. Hitt fer aftur á móti ekki á milli mála, að nokkrum árum síðar og fyrir aldamótin 1800 eignaðist Bjarni tvö skip sem hann átti lengi. Þau hétu Foraaret og De tvende Søstre. Bæði voru í förum á milli landa vor og haust og stunduðu handfæraveiðar hér við land á sumrin. Þegar styrjöld Dana og Englendinga, sem hófst árið 1807, lauk árið 1814 ruku margir danskir útgerðarmenn til og keyptu aftur skip, sem þeir höfðu neyðst til að selja á stríðsárunum, eða létu smíða ný skip í stað þeirra sem höfðu helst úr lestinni af ýmsum ástæðum. Út- gerðin gekk hins vegar ekki sem skyldi á fyrstu árunum eftir styrjöldina og margir neyddust til að selja skipin aftur á til- tölulega lágu verði. Þá gripu aðrir og betur stæðir útgerðar- og kaupmenn tækifærið og komust yfir skip með góðum kjörum. Í þeim hópi var Bjarni sem virðist hafa aukið kaupskipaútgerð sína til muna um og skömmu fyrir 1820. Á 3. áratug 19. aldar gerði hann út fjög- ur allstór skip, sem hétu Anna Caisa, De tre Søstre, Lykkens Prøve og Thingøre. Siglingar þessara skipa voru næsta reglulegar og um margt svipaðar ferðum Bildahl, skips Ólafs Thorlacius. Þau lágu yfirleitt í Kaupmannahöfn yfir hávetur- inn en lögðu upp til Íslands undir vor, hlaðin hvers kyns nauðsynjavöru og verslunarvarningi. Til Íslands voru þau komin í byrjun sumars og lágu í höfn fram undir lok kauptíðar, í lok ágúst eða byrjun september. Þá voru þau fermd íslenskum útflutningsvörum og héldu síðan utan. Var þá ýmist að þau sigldu beint til Kaupmannahafnar eða fluttu saltfisk beint til Spánar og annarra Mið- jarðarhafslanda en eins og ýmsir fleiri íslenskir kaupmenn og danskir Íslands- kaupmenn á þessum tíma hagnaðist Bjarni Sívertsen vel á saltfiskverslun við Suðurlönd. Þekktasta skip Bjarna í íslenskum bókmenntum er vafalítið Thingøre. Með því fór Magnús Stephensen konferensráð áleiðis til Kaupmannahafnar haustið 1825. Hann lýsti ferðinni nákvæmlega í Ferðarollu sinni og er sú frásögn öll góð heimild um þá erfiðleika og óvissu sem einkenndu siglingar á milli landa á segl- skipaöld. Skipið lét í haf frá Reykjavík 7. september en hreppti langvarandi ill- viðri, lenti í hafvillum og náði ekki til Noregsstranda fyrr en réttum mánuði eftir brottförina frá Reykjavík. Hinn 24. október varpaði það akkerum í Gauta- borg í Svíþjóð. Þar fóru Magnús og aðrir farþegar í land og héldu landleiðina til Kaupmannahafnar. Rannveig Filippusdóttir, eiginkona Bjarna, lést árið 1825. Skömmu síðar fluttist hann til Danmerkur en hélt þó áfram rekstri fyrirtækja sinna á Íslandi. Hann lést í Danmörku árið 1833. Skammlífur stórútgerðarmaður Þegar Ólafur Thorlacius kaupmaður á Bíldudal andaðist árið 1815 var Bogi Benediktsson frá Staðarfelli í Dölum skipaður fjárhaldsmaður tveggja ungra sona hans, Ólafs og Árna. Bogi, sem var „fjárgæzlumaður mikill“, hafði verið verslunarstjóri hjá Ólafi á Bíldudal frá 1807 og nú varð hann yfirmaður allra verslana hans, á Bíldudal, Ísafirði og í Stykkishólmi. Þann starfa hafði hann með höndum í rúman áratug, til 1827 er hann fluttist að föðurleifð sinni, Staðarfelli, þar sem hann bjó upp frá því. Nokkrar deilur urðu um fjárhald Boga fyrir Thorlaciusbræður og þótti mörgum sem hann hefði ekki komið svo hreint fram sem skyldi. Þau mál verða ekki rædd hér, en sama árið og Bogi lét af stjórn verslananna, 1827, afréð Ólafur yngri Thorlacius að selja verslunina í Hæstakaupstað á Ísafirði. Kaupandi var Jens Jacob Benedictsen, sonur Boga Benediktssonar, og gefur augaleið að gamli maðurinn hafi haft hönd í bagga með viðskiptunum. Með Jens Jacob Benedictsen er nefnd- ur til sögu einn umsvifamesti kaupmaður og útgerðarmaður íslenskur á fyrra helm- ingi 19. aldar. Hann rak verslunina á Ísa- firði næstu fimmtán árin og varð fyrstur manna á Vestfjörðum til að gera út þil- skip til hákarlaveiða. Hann eignaðist einnig verslanir í Keflavík og Vestmanna- eyjum og gerði á báðum stöðum út skip og báta til fiskveiða auk þess sem hann átti kaupskip í förum sem fluttu varning á milli landa fyrir verslanir hans. Þá átti hann og rak brauðgerðarhús og myllu í Kaupmannahöfn. Afar fáar heimildir hafa varðveist um Jens Jacob Benedictsen og atvinnurekst- ur hans. Hann veiktist í hafi á leið til Ís- lands og lést í Vestmannaeyjum árið 1842, aðeins 36 ára gamall. Þá átti hann og gerði út alls fimm kaupskip og var skipið Hekla þeirra stærst. Hin hétu Seyen, Galeas Christiansen, Metha og Piscator. Hið síðastnefnda var búið til veiða við Svalbarða og getur það bent til þess að Jens hafi haft í hyggju að reyna selveiðar norður í íshafi. Jens Jacob Benedictsen vakti athygli samtímamanna fyrir dugnað og útsjón- arsemi í viðskiptum og miklar sögur gengu af auðæfum hans. Þau hafa þó ef til vill verið minni en margur ætlaði og víst er, að eftir andlát hans voru verslan- irnar seldar. Sama máli gengdi um skipin sem þar með hurfu úr íslenskri siglinga- sögu. Örlagaríkt skipsstrand – fyrsta norðlenska kaupskipið Tilviljanir draga oft langa drögu og hafa ófyrirsjáanleg áhrif á gang sögunnar. Þannig var um atburð sem varð við Húnaflóa þriðjudaginn 3. ágúst árið

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.