Fréttablaðið - 26.11.2022, Blaðsíða 42
Á morgun er fyrsti sunnu-
dagur í aðventu. Víða setur
fólk upp aðventukrans en sú
hefð er talin vera upprunnin
í Þýskalandi á fyrri hluta 19.
aldar.
birnadrofn @frettabladid.is
Fyrsti sunnudagur í aðventu
er á morgun, 27. nóvem-
ber. Aðventa er annað heiti
á jólaföstu og hefst hún
fjórða sunnudag fyrir jóla-
dag og stendur því í fjórar vikur. Ef
aðfangadag ber upp á sunnudegi
verður hann fjórði sunnudagurinn
í aðventu.
Fyrst er vitað um jólaföstu í
Antíokku á Sýrlandi um miðja 5.
öld og einni öld seinna varð hennar
vart í Rómaborg. Í fyrstu var misjafnt
hversu löng jólafastan var en þeirri
reglu var komið á um árið 600 að
fastan skyldi hefjast fjórða sunnudag
fyrir jól. Sú regla um lengd föstunnar
náði þó ekki verulegri útbreiðslu fyrr
en á 11. til 13. öld.
Orðið aðventa hefur verið notað
í íslensku að minnsta kosti frá því á
14. öld. Orðið er tökuorð úr latínu,
sprottið úr orðinu „adventus “ sem
merkir „tilkoma“. Orðið vísar í komu
Krists og er aðventan sá tími þegar
beðið er með eftirvæntingu eftir
fæðingarhátíð hans.
Víða um heim setur fólk upp
aðventukrans á aðventunni. Sú
hefð að setja upp slíkan krans
kemur frá Norður-Evrópu en
aðventukrans er talinn vera
upprunninn í Þýskalandi á
fyrri hluta 19. aldar. Þaðan barst
kransinn til Danmerkur þar sem
hann varð vinsæll og algengur eftir
árið 1940, frá Danmörku barst hann
svo hingað til Íslands.
Hér á landi voru aðventukransar
aðallega notaðir sem skreytingar í
búðargluggum til að byrja með en
upp úr 1960 fór að tíðkast að setja
upp aðventukrans á íslenskum
heimilum. Í upphafi var notast við
greni eða greinar í kransana en nú
eru þeir þó orðnir fjölbreyttari.
Hinar sígrænu grenigreinar tákna
lífið og hringurinn táknar eilífðina.
Kransinn er skreyttur fjórum
kertum sem tendruð eru á sunnu-
dögum aðventunnar, á fyrsta sunnu-
degi aðventu er kveikt á einu kerti,
öðrum sunnudegi tveimur og svo
koll af kolli.
Fyrsta kertið nefnist spádóms-
kerti og minnir á fyrirheit spámanna
Gamla testamentisins sem höfðu
sagt fyrir um komu frelsarans, Jesú.
Annað kertið nefnist Betlehems-
kertið og vísar til þorpsins þar sem
Jesús fæddist. Þriðja kertið nefnist
hirðakertið en snauðir fjárhirðar
voru þeir fyrstu sem fengu fregnir af
fæðingu Jesú og fjórða kertið nefnist
englakertið og er því ætlað að minna
á englana sem báru mannheimi
fregnir af fæðingu hans.
Aðventuljós eru önnur hefð en
hjá mörgum Íslendingum tíðkast að
setja slík ljós í glugga fyrsta sunnu-
dag í aðventu og eru ljósin með vin-
sælla jólaskrauti landsins. Miðað við
vinsældir aðventuljósa mætti ætla að
um ævafornan sið væri að ræða en
talið er að fyrstu aðventuljósin hafi
ekki borist til landsins fyrr en árið
1964.
Það ár fór Gunnar Ásgeirs-
son kaupsýslumaður í versl-
unarferð til Stokkhólms. Þar
keypti hann aðventuljós
í jólagjöf handa nokkrum
gömlum frænkum sínum. Ljós-
in vöktu slíka lukku að Gunnar hóf
að flytja þau inn og selja og nú má sjá
þau í nærri hverjum einasta glugga í
jólamánuðinum. n
Við kveikjum
einu kerti á
Hér á landi er hefð fyrir því að setja upp aðventukrans og aðventuljós. Kransarnir eða skreytingarnar þurfa ekki að vera flóknar og er um að gera að nýta í þær það sem til er heima. Fréttablaðið/Getty
Hvít kerti fara afar vel með grænu greni.
Hér sést dæmi um afar klassískan aðventukrans.Kerti á fallegum bakka gera fínasta krans.
Það þarf ekki að vera flókið að gera flottan krans.
Hér eru notaðar gamlar niðursuðudósir í skreytingu.
42 Helgin 26. nóvember 2022 LAUGARDAGURFréttablaðið