Fréttablaðið - 28.01.2023, Qupperneq 19
Í dag eigum við aftur
yndislegt samband og
hann er farinn að trúa
því að mamma detti
ekki í það aftur. Hann
er hættur að vera
hræddur.
1. nóvember 2018 markaði nýtt upphaf fyrir Tinnu. Þá fór hún í meðferð á
Hlaðgerðarkoti þar sem glíman við gömul áföll hófst loks.
„Ég var alltaf rosalega feimin og
þorði ekki að vera ég sjálf. Ég var
alltaf grátandi ef við vorum að fara
eitthvað, til dæmis í matarboð. Mér
fannst ég ömurleg. Líf mitt hafði
bara alltaf verið þannig.“
Ógeðslegur vítahringur
Lengi vel notaði Tinna aðeins
kókaín á skemmtanalífinu. „Svo
kom að því að ég fór að fara meira
út á djammið, kynntist mörgu fólki,
fór að vera lengur úti og missa tökin.
Þetta varð ógeðslegur vítahringur.
Ég náði lengi að vera móðir og þó ég
væri andlega fjarverandi passaði ég
að það væri matur á borðum og svo
framvegis en svo fór ég að missa það
líka.“
Í kjölfar efnahagshrunsins missti
Tinna heimili sitt og á svipuðum
tíma skildu hún og barnsfaðirinn.
Það var þá, árið 2013, sem stjórnin
á neyslunni var úr hennar höndum
og í kjölfarið, lífinu öllu.
Tinna fór í nýtt samband sem hún
lýsir sem skelfilegu. „Það var mikið
andlegt og kynferðislegt of beldi
og ég endaði á spítala með mikla
áverka. Þetta var hræðilegt, ég var
að koma að honum með alls konar
konum í rúminu og ég dró eina út
á hárinu. Þetta var algjörlega sjúkt
samband og mikil neysla.“
Ég hataði karlmenn
Sambandið varði í rúmt ár og segist
Tinna að því loknu hafa verið búin
að missa lífsviljann.
„Ég var alltaf að leita í fólk sem
var verra statt en ég. Ég endaði í
hópi glæpamanna og mjög veikra
fíkla,“ segir hún en reiðin var orðin
ráðandi afl í lífi hennar. „Ég hataði
karlmenn og langaði að hefna mín,“
segir Tinna sem var komin inn í
hringiðu óreglu og fíkniefna.
Barnsfaðir Tinnu gat ekki horft
upp á ástandið og tók son þeirra til
sín í byrjun árs 2018.
„Þá var ástandið búið að vera
mjög slæmt í eitt ár,“ segir Tinna
og ekki var útlitið bjart þegar hún
hafði misst einkasoninn frá sér og
eins íbúðina sem hún hafði leigt.
Þráin til að verða edrú var sterk
og tilraunirnar margar en entust þó
ekki nema nokkrar vikur í senn. Það
var svo árið 2014 sem hún fór í sína
fyrstu meðferð á Vogi en tveimur
mánuðum síðar var hún fallin.
„Ég var ekkert að tengja við
AA, var greinilega ekki tilbúin að
hætta. Ég gat ekki séð fyrir mér að
mega aldrei aftur fá mér rauðvín,
þó ég myndi hætta að taka kókaín.
En auðvitað get ég bara aldrei aftur
fengið mér í glas,“ segir hún.
Allslaus á götunni
Eftir að hafa farið vestur til móður
sinnar yfir sumarið kom Tinna aftur
í bæinn í ágúst og eins og hún orðar
það sjálf: „Þá byrjaði ballið!“
„Ég var bara í partíum og á göt-
unni frá ágúst og fram í nóvember.
Ég átti hvergi heima og gisti bara
einhvers staðar. Ég hataði sjálfa mig
og langaði bara að deyja. Þegar rann
af mér leið mér svo illa og ég komst
ekki undan sænginni,“ segir Tinna
sem var ákveðin í að svipta sig lífi.
„Það voru allir alltaf að reyna
að hjálpa mér en ég gat ekki þegið
hjálpina. Ég var búin að missa son
minn og allt sem ég átti. Áður en ég
fór vestur til mömmu var brotist inn
til mín og allt sem ég átti tekið. Ég
sem hafði átt svo fallegt líf, fallegt
innbú og fatnað, átti nú ekkert.“
Það grétu allir viðstaddir
Fyrsti nóvember árið 2018 er í huga
Tinnu upphafið að nýju lífi. Dagur-
inn sem hún gekk inn á Hlaðgerðar-
kot í þriggja mánaða meðferð.
„Ég reyndi að taka mitt eigið líf
og það heppnaðist ekki. Ég fann þá
svo sterkt að ég vildi ekki fara frá
syni mínum og fannst ég eiga meira
skilið.“
Nokkrum dögum síðar var Tinna
hjá tengdamóður sinni þangað sem
barnsfaðir hennar og þrjár vin-
konur komu til að hvetja hana í
meðferð.
„Ég varð brjáluð og réðst á barns-
föður minn. Það grétu allir við-
staddir enda horfðu þau á mig alveg
tryllta.“
Eitthvað hafði þó gerst innra með
Tinnu sem vildi komast í meðferð
og pantaði sér viðtalstíma hjá SÁÁ,
þangað sem hún svo mætti drukkin.
Það var svo ekki fyrr en eiginkona
föður hennar, sem sjálf hefur unnið
með konum með fíknivanda, sótti
Tinnu niður í bæ í tryllingsástandi,
að hreyfing komst á hlutina.
„Ég var bara farin að berja fólk –
ég var alltaf í því að meiða aðra. Hún
kom að sækja mig niður í bæ en ég
neitaði að fara, en þegar mér var
hent út úr partíi daginn eftir sótti
hún mig aftur og þá var ég tilbúin.
Hún fór með mig í bústað og það
var pantað fyrir mig á Hlaðgerðar-
kot þangað sem ég átti að hringja á
hverjum degi þar til ég fengi pláss.“
Brotnaði saman í lögreglubíl
Tinna ákvað að halda sér edrú
þangað til að því kæmi en viku síðar
var hún svo komin í lögreglubíl,
handtekin fyrir að leggja hendur á
neyslufélaga sinn.
„Þarna, í fyrsta sinn á þessu
tveggja ára djammi, fæ ég tauga-
áfall. Ég bara græt í lögreglubílnum
og segi: Ég verð að komast í með-
ferð!“
Tinna segir lögregluþjónana hafa
sýnt sér mikinn stuðning, enda
annar þekkt hana eftir að hafa
leikið með henni í kvikmyndum.
„Þarna fékk ég bara nóg. Þetta var
á mánudegi og ég fór inn á Hlað-
gerðarkot á fimmtudegi.“
Þangað inn gekk Tinna algjör-
lega brotin og sá fyrir sér að þriggja
mánaða meðferð væri heil eilífð. En
þrátt fyrir að vera í molum hið innra
klæddi Tinna sig upp.
„Ég var í háum hælum og hvítum
síðum pels,“ segir hún og hlær. „Ég
átti enga sjálfsvirðingu, hún hékk í
þessum hvíta pels.“
Reiði það eina sem stóð eftir
Tinna lýsir því hvernig neyslan hafi
skapað mikinn tilfinningadoða.
„Ég átti ekki sorg, ekki gleði og
ekkert frumkvæði. Eina tilfinningin
sem ég átti í neyslunni var reiði, ég
gat ekki einu sinni grátið fyrr en í
lögreglubílnum. Það var allt farið.
Það var ekkert sem bjó innra með
mér nema reiði.
Ég var í miklu niðurrifi, hataði
sjálfa mig meira en allt í heiminum.
Þarna var ég komin með nokkuð
skýran haus því ég var búin að vera
edrú í nokkra daga og trúði því ekki
upp á sjálfa mig hvert ég var komin.
Ég var hætt að horfa í spegil því ég
gat ekki horfst í augu við sjálfa mig.“
Þau björguðu lífi mínu
Tinna segist hafa tekið fyrsta sporið,
að viðurkenna vanmátt sinn, eftir
nokkra daga og tekið því alvarlega.
„Þarna áttaði ég mig á því að ég
var bara algjörlega búin að missa
stjórn á eigin lífi, það var ekki ég
sjálf sem réði. Frá þessum degi
hugsaði ég: Ég ætla að verða edrú
– ég ætla að fá aftur Tinnuna mína.
Ég gerði þetta af heilum hug, frá
hjartanu, mig langaði að breytast og
fá að vera ég, en ekki ég kvíðin, ekki
ég reið, sár og áfallaröskuð.“
Tímann á Hlaðgerðarkoti nýtti
Tinna til fulls og hóf vinnuna sem
hún vildi óska að hún hefði hafið
þegar læknarnir spurðu 18 ára hana
hvort hún hefði orðið fyrir áfalli.
„Ég sagði frá leyndarmálunum
mínum í meðferðinni og í framhaldi
fjölskyldunni. Það var rosalega erf-
itt enda kenndi ég sjálfri mér um
misnotkunina.“
Tinna sem sótti viðtöl í Bjarkar-
hlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeld-
is, og síðar Stígamót, segir það hafa
verið gott að eiga öruggt skjól í Hlað-
gerðarkoti á milli erfiðra funda þar.
„Ég veit ekki hvort ég hefði höndl-
að það að fara heim til mín, nýorðin
edrú, að vinna vinnuna fyrir næsta
fund.“
Það er augljóst á máli Tinnu að
henni er hlýtt til starfsfólks Hlað-
gerðarkots.
„Ég elska þau öll sem unnu þarna,“
segir Tinna og nefnir sérstaklega
Guðrúnu Einarsdóttur fyrrverandi
forstöðukonu. „Ég elska hana svo
mikið og við erum alltaf í sambandi,
hún bjargaði lífi mínu – og þau öll.“
Eigum öll skilið þúsund tækifæri
Eftir þrjá mánuði í Hlaðgerðar-
koti f lutti Tinna á áfangaheimilið
Dyngjuna og síðar á Brú. Uppbygg-
ingarstarfið er hvorki skammvinnt
né einfalt en Tinna er ákveðin í
að leggja þá vinnu á sig og skráði
sig í framhaldi í Grettistak, náms-
og starfsendurhæfingu á vegum
Reykjavíkurborgar, auk þess að hafa
sótt aðstoð í VIRK.
„Ég sæki líka fundi hjá fíknifræð-
ingi og sálfræðingi,“ segir Tinna sem
einnig er virk í starfi AA og segir það
gefa sér mikið.
„Ég elska að fara til sálfræðings,
ég er alltaf betri eftir hvern tíma.
En það er líka erfitt, ef maður er
með fíknisjúkdóm þarf maður að
vera orðinn mjög sterkur til að fara
í gegnum erfiðar minningar.“
Tinna starfar nú að sjónvarps-
þáttunum True Detective sem
teknir eru upp hér á landi. „Þar held
ég utan um aukaleikarana. Þetta er
mikil ábyrgð og mikið nýtt að læra
í svo stóru verkefni. Ég lít orðið á allt
lífið sem verkefni sem ég þarf að
standa mig í og klára það vel.“
Hún segir sambandið við soninn
hafa styrkst á ný.
„Í dag eigum við aftur yndislegt
samband og hann er farinn að trúa
því að mamma detti ekki í það aftur.
Hann er hættur að vera hræddur.“
Lífið brosir við Tinnu rétt rúmum
fjórum árum eftir að hún bjó á göt-
unni, úrkula vonar um betra líf. Hún
fékk frábæra aðstoð fagmanna en
vinnuna vann hún sjálf.
„Ég nýtti mér annan séns. En ég
þurfti að sækja hann. Maður má
ekki gefast upp á sjálfum sér, við
verðum alltaf að halda áfram. Við
eigum öll skilið þúsund tækifæri.“ n
Mér fannst ég ömurleg. Líf
mitt hafði alltaf verið þannig.
Fréttablaðið helgin 1728. janúar 2023
lAUgARDAgUR