Bændablaðið - 26.01.2023, Qupperneq 62
62 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. janúar 2023
Að þessu sinni tók Bændablaðið
til prufu hinn nýja Kia Niro EV.
Forveri þessa bíls var einn af fyrstu
almennilegu rafmagnsbílunum
sem komu á markaðinn og hefur
því notið nokkurra vinsælda, þrátt
fyrir að vera ekki fríður sýnum.
Nú hafa hönnuðir Kia vandað
sig sérstaklega vel og er hinn nýi
Niro ekki bara praktískur og með
góða drægni, heldur gullfallegur.
Ólíkt því sem var fyrir nokkrum
árum, þá er samkeppnin á þessum
markaði orðin mjög mikil og þarf
Niro að keppa við afbragðsgóða
rafmagnsjepplinga eins og Nissan
Ariya, Skoda Enyaq, Toyota bZ4X
og ótal fleiri.
Ef á að grípa til einhverra
lýsingarorða, þá er hægt að segja
að þessi bíll sé mjög látlaus á að
líta. Þeir sem ekki vita betur myndu
líklegast ekki einu sinni taka eftir
þessum bíl úti á götu. Það er vel
hægt að telja það til kosts, því ekki
vilja allir láta mikið bera á sér. Þeir
sem vilja krydda útlitið aðeins
geta pantað bílinn með öðrum lit
á aftasta gluggapóstinum.
Niro fæst bæði bensín
og rafmagns
Bifreiðin í þessum prufuakstri
var 100% rafmagnsbíll, en Niro
bílar eru líka framleiddir með
bensínvél – ýmist tvinn- eða
tengiltvinn. Líklegast gefur það
framleiðandanum möguleika á að
nýta verksmiðjuplássið betur og
bjóða betra verð. Ókosturinn er
hins vegar sá að gólfið í bílnum
er ekki alveg flatt, eins og í bílum
sem hannaðir eru frá grunni sem
rafmagnsbílar og ekkert annað.
Sérstakan gólfhalla má m.a. finna
í fótarými við framsætin og í
skottinu. Fyrrnefnda atriðið getur
flækst fyrir ökumönnum í stórum
skóm, á meðan það síðarnefnda
má leysa með þili sem hækkar
skottgólfið.
Innrarýmið er að miklu leyti í
stíl við þemað að utan – smekklegt
og tilgerðarlaust. Hér er ekkert sem
kemur á óvart, heldur er allt sem
hægt er að vænta af nýjum bíl til
staðar og auðfundið. Í mörgum
bílum hefur tökkum verið fórnað í
þágu naumhyggju, og öllu stjórnað
í gegnum snertiskjá – sem krefst
oft fullmikillar fyrirhafnar. Í Kia
Niro EV er helstu tækjum stjórnað
með klassískum hnöppum, eins
og miðstöð, útvarpi, sætis- og
stýrishitara og hefur náðst gott
jafnvægi milli notkunar takka
og snertiskjás. Allt virðist vera
vel skrúfað saman og úr góðum
efnum. Þegar kemur að því að nota
margmiðlunarskjáinn, þá virkar
hann almennt vel. Boðið er upp á
Android Auto og Apple CarPlay.
Þeir sem vilja nýta sér þá möguleika
þurfa að muna eftir snúru í símann
– því tengingin er ekki þráðlaus.
Þessi bíll var útbúinn með
rafmagni í sætum, sem eru
nokkuð þægileg og var áklæðið
úr mjúku leðri. Þar sem Kia Niro
er jepplingur, þá mun mörgum
finnast aðgengið í bílinn auðveldara
en almennt í fólksbílum, þar sem
sætin eru nokkuð hátt frá götunni.
Framsætin eru rúmgóð og munu
hávaxnir ökumenn komast vel
fyrir. Aftursætin eru með mjög gott
fótapláss, en höfuðrýmið þar lægra
en æskilegt er fyrir fullorðna.
Ljúfur í akstri
Akstursupplifunin er heilt yfir mjög
fyrirsjáanleg og er erfitt að benda á
vankanta. Bíllinn er hljóðlátur og
þegar kveikt er á akstursaðstoð,
eins og sjálfvirkum hraðastilli
og akreinaaðstoð, er álagið á
ökumanninn í algjöru lágmarki.
Aflið er gott – hann er fljótur að
komast upp í þjóðvegahraða, en
hröðunin er ekki þannig að maður
fái fiðring í magann.
Samkvæmt framleiðandanum á
rafhlaðan að skila akstursdrægni upp
á 460 kílómetra. Eins og alltaf ber
að taka þessum tölum með fyrirvara
og draga frá 50-100 kílómetra við
eðlilegar aðstæður – og jafnvel
meira í miklu frosti. Auðvelt er hins
vegar að fullyrða að akstursdrægnin
sé ríkuleg fyrir hinn almenna
notanda og munu þeir ekki þjást af
drægnikvíða.
Þrátt fyrir að Kia Niro sé
markaðssettur sem jepplingur, þá
er hann einungis framhjóladrifinn
og alls enginn jeppi. Í þessum
prufuakstri gafst smá tækifæri til að
reyna á eiginleika bílsins í ófærð og
sást strax að litlir skaflar geta reynst
mikil fyrirstaða.
Tölur
Grunnverð Kia Niro EV Urban
er 6.990.777 krónur, en bíllinn í
þessum prufuakstri var af gerðinni
Kia Niro EV Style og er verðið á
þeim bíl 7.490.777 krónur.
Helstu mál eru: lengd 4.420 mm;
breidd 1.825; hæð 1.570.
Þyngd er frá 1.682 kg, en
heildarþyngd með farmi og
farþegum 2.200 kg. Rafhlaðan er
64.8 kWst og getur tekið allt að 100
kW hraðhleðslu.
Afl mótors er 150 kW (204 hö).
Í stuttu máli
Kia Niro EV gerir allt sem hægt er
að væntast til af honum með sóma
og á samkeppnishæfu verði.
Ástvaldur Lárusson
astvaldur@bondi.is
Kia Niro EV er einn besti rafmagnsbíllinn á íslenskum markaði. Mikil akstursdrægni, fallegt útlit og praktísk stærð gerir þetta að vænlegum kosti á markaði
þar sem samkeppnin er mikil. Myndir / ÁL
Ekki eru allar skipanir í snertiskjánum og því fljótlegt að hækka í útvarpinu
og kveikja á sætishitaranum. Mikið fóta- og höfuðpláss gerir flestum
ökumönnum kleift að koma sér vel fyrir. Einkennilegur halli á gólfinu gerir
notkun fótstiga í stórum skóm klunnalega.
Samkvæmt framleiðanda á akstursdrægnin að vera 460 km á einni hleðslu.
Þó þeim tölum beri að taka með fyrirvara ættu flestir ökumenn að vera lausir
við drægnikvíða í almennum akstri.
Aftursætin eru rúmgóð. Höfuðplássið mætti vera meira.
VÉLABÁSINN
Skottið er 475 lítrar að stærð.