Bændablaðið - 09.03.2023, Blaðsíða 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. mars 2023
FRÉTTIR
Gæði fyrir dýrin og þig!
FB Reykjavík
Korngarðar 12
570 9800
FB Selfoss
Austurvegur 64 a
570 9840
FB Hvolsvöllur
Duftþaksbraut 1
570 9850
www.fodur.is
fodur@fodur.is
Kjúklingur:
Hyggur á verulegan
innflutning frá Úkraínu
– Innflutningsaðili segir íslenska framleiðendur áhugalausa um að selja sér kjúkling
Kjötheildsalan Kjötmarkaðurinn
flutti inn 19,2 tonn af úkraínsku
kjúklingakjöti í janúar. Kjúk-
lingurinn er aðallega notaður á
veitingahúsum og í matvælaiðnaði.
Guðmundur Gíslason á og rekur
Kjötmarkaðinn. „Ég vissi ekki að
Úkraínukjúklingur væri í boði fyrr
en ég fann hann á markaði hér á
Íslandi. Þá voru öll mötuneyti og
veitingastaðir sem eru í viðskiptum
við mig farin að kaupa þetta. Ég
leitaði þá og sá að það var ekkert mál
að flytja inn kjúkling frá Úkraínu.“
Hann hyggst auka innflutning
sinn verulega og hefur þegar gengið
frá pöntunum af tveimur gámum
í viðbót sem væntanlegir eru á
næstunni.
„Ég hugsa að í apríl og maí verði
úkraínskur kjúklingur ófáanlegur því
það er víst setið um hann í Evrópu,
enda er innflutningurinn þar einnig
tollfrjáls. Verðið á vörunni er að
hækka sökum mikillar eftirspurnar.“
Hann segist versla við fyrirtækið
Qualiko, sem er í eigu Myroniscsky
Hliboproduct (MHP), sem er
langstærsti kjúklingaframleiðandi
í Úkraínu. „Ég fékk skjóta meðferð
hjá Matvælastofnun þegar ég bað
um leyfi fyrir innflutningi frá
fyrirtækinu enda eru þeir með flottari
kjúklingaframleiðendum. Á síðunni
þeirra kemur fram að þeir séu með
rekjanleika, fóðra fuglana á meiri
maís en aðrir. Enda er þetta flott
vara. Ef ég skil það rétt eru þeir með
dreifistöðvar víðs vegar, ég kaupi til
dæmis vöruna frá Rotterdam.“
Ódýrari framleiðsla erlendis
Guðmundur segir allt benda til
þess að kjúklinganeysla eigi eftir
að margfaldast hér á landi. Hann
hafi áður leitast eftir viðskiptum
við íslenskan framleiðanda. „Það
var enginn áhugi hjá þeim að selja
mér kjúkling. Íslenskur ferskur
kjúklingur er gæðavara sem mun
seljast áfram, þó innflutningur aukist
á frosnum kjúkling.“
Hann telur landbúnað sem
reiðir sig á innflutt fóður standa á
tímamótum.
„Það verður alltaf ódýrara að
framleiða kjúkling og svínakjöt
þar sem fóðrið er framleitt. Laun
og annar rekstrarkostnaður er auk
þess lægri í framleiðslulöndum
erlendis. Það er stjórnvalda að
svara þeirri spurningu: Hvert erum
við komin með innlenda framleiðslu
þegar svínabændur flytja inn 600-
700 tonn af svínakjöti og íslensku
kjúklingaverksmiðjurnar nota mikið
af innfluttum kjúkling?“
Flestir viðskiptavinir eru
veitingastaðir og mötuneyti
Kjötmarkaðurinn er sölu- og
dreifingarstöð á óunnu kjöti sem
býður, að sögn Guðmundar, aðallega
upp á vörur frá kjötafurðastöð KS á
Sauðárkróki og sláturhúsi KVH á
Hvammstanga.
„Uppistaðan í sölu er íslenskt
dilkakjöt. Næstmest er selt af
íslensku nautakjöti. Árið 2015
hóf Kjötmarkaðurinn innflutning
á nautalundum frá Nýja-Sjálandi
sem hafa selst vel, allt upp í 90
tonn á ári. Á síðasta ári hófum
við innflutning á nautalundum
frá Úrúgvæ. Kjötmarkaðurinn
hefur auk þess lítillega flutt inn
af svínakjöti og kjúklingakjöti frá
Evrópu. Allt innflutt kjöt er selt
frosið en það íslenska kælt,“ segir
Guðmundur. Hann stefnir á að vera
með 4-6% hlutdeild af innfluttu
kjúklingakjöti í ár.
Flestir viðskiptavinir Kjöt-
markaðarins eru veitingastaðir
og mötuneyti, en einnig er hægt
að nálgast vörur fyrirtækisins í
matvöruverslunum.
/ghp
Guðmundur Gíslason hjá Kjötmarkaðnum, sem er sölu- og dreifingarstöð
á óunnu kjöti. Fyrirtækið flytur inn m.a. úkraínskt kjúklingakjöt og selur
aðallega til veitingastaða og mötuneyta. Guðmundur er fyrrum sölustjóri
hjá KS. Mynd / Aðsend
Búgreinaþing:
Sjaldan launar kálfurinn kjöteldið
– Bændur spyrja hvort eigi að halda innlendri framleiðslu áfram
Á nýafstöðnu búgreinaþingi
samþykkti deild nautgripa-
bænda ályktun þar sem bent
er á rekstrarvanda nautgripa-
kjötsframleiðslunnar og lagt
fyrir samninganefndir að
tryggja afkomu við endurskoðun
búvörusamninga.
Nautgripabændur segja að
þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir
íslensku nautakjöti, sé reyndin
sú að bændur sendi nautkálfa
í auknum mæli nokkurra daga
gamla í sláturhús. Ástæðan sé sú
að afurðaverð ungnauta standi ekki
undir framleiðslukostnaði.
Innflutningsheimildir nautakjöts
hækkuðu úr 175 tonnum upp í
801 tonn eftir tollasamning við
ESB frá 2015. Þetta leiddi til
lækkunar afurðaverðs til bænda, en
aðfangakostnaður hefur margfaldast
undanfarin ár. Vegna þessa hafi
framleiðsla nautakjöts fyrir íslenskan
markað flust í auknum mæli úr
landi. Í tölum Hagstofunnar er
hægt að sjá að nautakjötsframleiðsla
stendur fjárhagslega verst búgreina.
Samkvæmt skýrslu RML greiddu
nautakjötsframleiðendur 400-600
krónur með hverju kílói undanfarin
ár. Neytendur hafa ekki notið góðs
af lækkun afurðaverðs
Nú óska nautakjötsframleiðendur
eftir svörum frá stjórnvöldum
hvort stefnan sé að stunda
nautakjötsframleiðslu hérlendis
eða ekki. Sé vilji fyrir íslenskri
framleiðslu þurfi að tryggja greininni
stuðning og rekstraröryggi til lengri
tíma. /ÁL
Eldi nautkálfa stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Mynd / Úr safni
Eftirlitstofnun EFTA:
Óheimilt að nota örmerki
oftar en einu sinni
Óvissa er um reglur varðandi
notkun örmerkja á Íslandi.
Sá möguleiki er fyrir hendi að
bændum verði ekki heimilt að
taka örmerki með sér heim úr
sláturhúsi í haust.
Unnsteinn Snorri Snorrason,
verkefnisstjóri hjá Bændasamtökum
Íslands, segir að í úttekt Eftirlits-
stofnunar EFTA (ESA) á
sauðfjárslátrun á Íslandi síðastliðið
haust, hafi komið fram athugasemdir
um að bændum væri heimilt að taka
örmerki heim úr sláturhúsum og
endurnýta þau. „Þetta verklag hefur
verið viðloðandi um langan tíma
og hefur verið forsenda fyrir því
að bændur hafa ákveðið að innleiða
notkun örmerkja.“
Einkvæm einstaklingsnúmer
Unnsteinn Snorri segir að í grunninn
byggi þetta mál á Evrópureglugerð
frá árinu 2016 (Animal Health Law,
Regulation (EU) 2016/429) sem
hafi verið innleidd hér á landi. „Í
þeirri reglugerð er gert ráð fyrir því
að það sé skylda að örmerkja allt
sauðfé, fyrir því er undanþága ef
heildarfjöldi sauðfjár í landinu er
undir 600.000. Hér á landi er því
ekki skylt að örmerkja sauðfé.
Hins vegar kemur skýrt fram
í þessari reglugerð að örmerki,
líkt og einstaklingsnúmer gripa,
eiga að vera einkvæm, sem þýðir
að þau eiga ekki að geta komið
fram á öðrum gripum sem er
vandamálið hér.
Líklega verður bændum heimilt
að taka örmerki heim úr sláturhúsi
á komandi hausti. Það hefur þó ekki
verið gefið formlega út og þurfa
bændur því að gera ráð fyrir því að
þessi undanþága verði ekki í boði
aftur,“ segir Unnsteinn Snorri.
Óvissa ríkir um reglur
Hann segir að málið sé í skoðun
hjá matvælaráðuneytinu, Matvæla-
stofnun og Bændasamtökum Íslands.
„Allir aðilar eru samstiga í að
leita að farsælli lausn í þessu máli.
Að svo stöddu er lítið annað hægt
að segja en að óvissa ríki um þær
reglur sem munu gilda um notkun
örmerkja í komandi framtíð.“
/smh
Líklega verður bændum heimilt að taka örmerki heim úr sláturhúsi í haust
en það hefur ekki formlega verið gefið út. Mynd / smh
Tilboðsmarkaður 3. apríl
Markaður með greiðslumark
mjólkur verður haldinn 3. apríl
næstkomandi.
Tilboðsfrestur rennur út á
miðnætti 13. mars. Frá þessu er greint
á heimasíðu matvælaráðuneytisins.
Tilboðum um kaup og sölu skal
skilað rafrænt á afurd.is. Á þeirri
heimasíðu geta bændur jafnframt
nálgast allar frekari upplýsingar um
markaðinn með því að skrá sig með
rafrænum skilríkjum.
Að hámarki er hægt að óska eftir
50.000 lítrum til kaups á hverjum
tilboðsmarkaði, eða alls 150.000
lítrum árlega. /ÁL