Bændablaðið - 09.03.2023, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. mars 2023
Nú um stundir eru frumframleiðendur og
neytendur að fást við talsverða merkingar
óreiðu á íslenskum landbúnaðarafurðum.
Skýrar merkingar matvæla eru nauðsynlegar
svo neytendur geti byggt val matvöru á
þekkingu um innihald og upprunaland,
hvort sem hún er kryddlegin eða unnin á
annan hátt. Hér er ekkert undanskilið, allar
landbúnaðarafurðir eru hér undir, hvort
sem um er að ræða haframjólk, kjöt, unnar
afurðir, grænmeti, blóm og svo mætti lengi
telja. Það er mikilvægt að frumframleiðendur,
afurðastöðvar og verslunin taki höndum saman
um að koma þessum málum í betri farveg en
er í dag. Það er með öllu óviðunandi að ekki
sé gætt að merkingum umbúða því neytendur
verða að geta treyst því að á umbúðamerkingum
séu áreiðanlegar upplýsingar um innihald og
uppruna matvöru.
Íslenskt staðfest
Fyrir tæpu ári síðan afhjúpaði matvælaráðherra
nýtt íslenskt upprunamerki fyrir matvörur og
blóm. Tilgangur merkisins er að auka sýnileika
og markaðshlutdeild íslenskra afurða, tengja
neytendur betur við frumframleiðendur og
fræða þá um kosti íslenskra matvæla og
verslunar. „Íslenskt staðfest“, sem unnið
hefur verið á grunni norrænna fyrirmynda
um upprunamerkingu afurða, mun auðvelda
neytendum að velja íslenskt, en til að mega
nota merkið þurfa framleiðendur að ábyrgjast
að hráefnið sé íslenskt og að framleiðsla hafi
farið fram á Íslandi. Kjöt, egg, fiskur og mjólk
skal í öllum tilfellum vera 100% íslenskt.
Þá er jafnframt hægt að nýta ábyrgðar- og
gæðamerkið til útflutnings undir „Certified
Icelandic“, sem er enska skráningin af
„Íslenskt staðfest“, á ýmsar vörur og þjónustu
til útflutnings, þ.á m. hráar og óunnar
landbúnaðar-, lagareldis-, garðræktar- og
skógræktarafurðir, vatn og bjór.
Enn eitt merkið?
„Enn eitt merkið?“ er spurning sem við
iðulega fáum þegar merkið hefur verið
kynnt. En munurinn hér er sá að þriðji aðili,
vottunarstofan Sýni, sér um úttektir hjá þeim
fyrirtækjum sem kjósa að nota merkið. Enginn
má nota merkið nema hafa til þess leyfi sem
sótt er um sérstaklega, gangast undir staðal
merkisins og uppfylla opinberar kröfur til
sinnar starfsemi. Bændasamtökin hafa unnið
að regluverki og samningsdrögum um aðkomu
fyrirtækja og verslunarinnar að þessu merki.
Í mínum huga er þetta flaggskipið, eitt
mikilvægasta verkefni matvælaframleiðenda
í harðnandi samkeppni við innfluttar afurðir,
sem við sem frumframleiðendur verðum að
sinna þar sem það er ekki síður okkar að
upplýsa neytendur um hvaðan afurðirnar
koma.
Þú veist hvaðan það kemur
Hér á landi búum við að hreinu lofti, hreinu
vatni og sýklalyfjanotkun í íslenskum
landbúnaði er ein sú minnsta meðal allra
Evrópulanda. Íslensk matvælaframleiðsla
er því í fremstu röð, hvort heldur er um
að ræða kjöt, fisk, mjólkurafurðir eða
grænmeti. Það hlýtur því að vera eðlileg krafa
neytenda að innfluttar vörur séu uppruna-
og innihaldsmerktar þannig að neytandinn
geti glöggvað sig vel á því hvort vara sé
af sömu gæðum og innlend framleiðsla
varðandi hreinleika og með tilliti til notkunar
sýklalyfja og dýravelferðar. Í síðasta tölublaði
Bændablaðsins var umfjöllun um notkun á
sýklalyfjum í landbúnaði sem er mun meiri en
hingað til. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
hefur varað við að sýklalyfjaónæmi sé ein
helsta ógnunin við lýðheilsu í heiminum í
dag og gríðarlegur munur er á útbreiðslu
sýklalyfjaónæmis milli heims- og landshluta.
Það skiptir því sköpum fyrir neytendur að vita
hvaðan varan kemur.
SKOÐUN
Að fatta
Sögnin „að fatta“ hefur verið mér
hugleikin undanfarna daga.
Þegar sögninni er flett upp á Íslensku
orðaneti þá birtast tvö orðasambönd; að
fatta <þetta> eins og að fatta brandarann
og að fatta <þetta> ekki. Ef rýnt er ofan í
fyrrnefnda orðasambandið þá ber hugtakið
„skilningur“ mörg sambærileg heiti
merkingarlega við sögnina fatta. Ef andstæða
orðasambandið er skoðað, að fatta ekki,
koma fram 97 tengingar gegnum hugtökin
„skilningserfiðleikar“ og „sljóleiki“.
Kjúklingur var fluttur hingað inn
í leyfisleysi. Við erum upplýst um að
varan fékk innflutningsleyfi eftir að hún
var komin á neytendamarkað. Kannski
áttuðu innflutningsaðilarnir sig ekki á því
að þeir hefðu átt að biðja um leyfi fyrst
(föttuðu þeir það ekki?). Þótt reglur segi
annað, þá fengu innflutningsaðilarnir leyfi
fyrir rest og það eftir að þeir voru búnir
að selja vöruna áfram. Formsatriðum var
reddað fyrir horn. Eflaust var vonast til að
að enginn fattaði þetta og að engum yrði
meint af. Innflutningsaðilarnir töpuðu engu,
þeir högnuðust. Reyndar segjast talsmenn
Matvælastofnunar enn vera með málið í
skoðun. Viðurlög við brot á reglum geta
varðað sektum og fangelsi.
Málið snertir viðkvæma taug því
kjötið var borið fram í mötuneytum og á
veitingastöðum í skjóli upprunamerkinga-
leysis og án vitneskju neytenda. Fólk
borðaði sem sagt innflutt kjöt sem hafði
ekki farið í gegnum áhættumat og því ekki
leyfilegt til sölu né neyslu hér á landi.
Í þessu felst einhver mjög vafasöm mynd
af eftirliti með matvælaöryggi, kerfi sem
neytendur eiga að geta treyst afdráttarlaust.
Veitingaaðilum ber ekki skylda til
að segja frá uppruna matvæla sem þeir
bjóða upp á. Þar liggur ein misfella í
merkingarlöggjöfinni; lagalegur skortur
á upplýsingagjöf sem setur neytendur
óafvitandi í hlutverk hins sljóa, fattlausa.
Ekki eru mörg ár síðan ég áttaði mig
sjálf á mikilvægi upplýsinga á umbúðum
utan um mat. Heilsuvakningin lagði það
svo sannarlega af mörkum að neytendur
kunna að telja ofan í sig kaloríurnar með
því að lesa næringar- og innihaldslýsingar.
Ef marka má skoðanakannanir getur
upprunaland haft áhrif á afstöðu fólks
gagnvart því sem það leggur sér til munns.
Gagnsæjar upplýsingar um upprunaland
ættu því að vera skýrar. En lögum
samkvæmt þarf ekki að merkja uppruna
unninna eða óforpakkaðra matvara, eins og
útskýrt er hér í blaðinu. Eins og áhersluþögn,
felur merkingarskortur í sér upplýsingar.
Neytandinn fattar ekki – seljandinn nýtir
sér það til hagsbóta.
Ef uppruni matvöru skiptir þig máli,
hvort sem þú vilt borða íslenskt eða innflutt,
unna eða óunna vöru, taktu afstöðu til
merkinga þeirra. Á meðan fjárhagur er það
sem stjórnar vali kaupenda mest, þá er það
hagnaðarkrafa sem stjórnar hegðun seljenda.
Ef þeir komast upp með að selja þér ómerkta
leyfislausa vöru þá er nokkuð borðleggjandi
að slík athæfi munu halda áfram að eiga
sér stað.
Guðrún Hulda Pálsdóttir
ritstjóri.
Merkingar landbúnaðarafurða
Húsmæðraskólinn á Varmalandi 1953. Skólinn var stofnsettur á Varmalandi 1946 fyrir forgöngu Sambands borgfirskra kvenna og starfaði til
1986. Rekstri skólans var hætt vegna þess að mjög hafði dregið úr aðsókn í hann. Mynd / Myndasafn Bændasamtaka Íslands.
GAMLA MYNDIN
Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
gunnar@bondi.is
Bændablaðið kemur út 23 sinnum á ári.
Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim
í pósti gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (23. tölublöð) kostar þá kr. 14.900
með vsk. Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar kr. 11.900 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Borgartún 25, 4. hæð - 105 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Kt: 631294-2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0300 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is
Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 563 0303
Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621