Ský - 01.08.2013, Blaðsíða 26

Ský - 01.08.2013, Blaðsíða 26
Sá sem heldur til fjalla ætti aö halda sig á göngustígum og vel merktum leiðum. Sé farið um ótroðnar slóðir kemur til þeirrar góðu reglu að vera ekki einn síns liðs og helst að einhverjir viti um ferðir og áætlaðan heimkomutíma. Sá sem hyggur á fjaUgöngu aflar sér upplýsinga um leiðina eftir því sem kostur er. Hér kemur stórgóður vefur Landmæl- inga ríkisins að góðu gagni, www.lmi.is, sérstaklega sá hluti sem heitir kortasjá. Svo er rétt að horfa á veðurspána og hafa þá í huga að landslag og staðhættir á vett- vangi geta haft áhrif sem sjást ef til vill ekki á vef Veðurstofunnar. Veðurspá gildir fyrst um fremst um láglendi en vindur eykst jafnt og þétt eftir því sem göngu- maður kemur í meiri hæð. Svo nærtækt dæmi sé tekið þá er oft bjart veður við Faxaflóa þegar vindur stendur af norðri. Þá getur manni vel dottið í hug að ganga á Esjuna. Norðanvindurinn lyftir sér yfir fjallið og nær sér svo vel á strik niður hlíðina og þess vegna mætir göngumanni oft meiri vindur í fjallinu sjálfu en ætla mætti. Klókur göngumaður sér auðvitað við þessu með því að hafa alltaf með sér bak- poka sem inniheldur skjólfatnað því það er sjaldan logn á toppnum, hvaða fjall sem stefnt er á. Bakpokinn góði ætti alltaf að vera með í för. I honum er t.d. flíspeysa, hlífðargalli (buxur og úlpa), vettlingar og aukahúfa. Mikið varmatap verður út um háls, höfuð og hendur og því ágætt að geta sett upp misjafnlega þykkar og gerðarlegar húfur eftir því sem veður breytist. I pokanum er líklega einnig nesti í boxi og heitt á brúsa. Besta stundin í hverri gönguferð er stundum þegar menn setjast niður og fá sér í gogginn og ræða landsins gagn og nauðsynjar eða íhuga tilganginn með þessu jarðlífi yfirhöfuð. Til þess að njóta útivistar er skemmtilegt að þekkja það sem fyrir augu ber í náttúr- unni. Myndavél er sjálfsagður ferðafélagi. Léttur sjónauki auðveldar fuglaskoðun og rannsóknir og til eru léttar og handhægar bækur til þess að bera kennsl á fugla, plöntur og steina. FJALL ER EKKI ÞREKSTIGI MEÐ ÚTSÝNI Fjallgöngur eru ekki áhugamál sem hentar vel keppnismiðaðri hugsun. Fjall er ekki þrekstigi með útsýni. Stundum er sagt um útivist og fjallgöngur að maður eigi að njóta en ekki þjóta. Þetta er afbragðs slag- orð og fellur vel að kenningunni um að það sé ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli heldur ferðalagið sjálft. Það er semsagt ekki reglulega gott veganesti fyrir vel heppnaða fjallgöngu að leggja af stað að heiman staðráðinn í því að sigrast á fjallinu, komast á toppinn, hvað sem það kostar. Mörg og á stundum sorg- leg dæmi eru um að kappsemi og ákefð hafi leitt duglega fjallamenn og konur í vandræði og hættur. Enn og aftur er Esjan - sem er áreiðan- lega það fjall á Islandi sem flestir ganga á - ágætt dæmi. Vinsæll áfangastaður í Esjunni er hinn svokaliaði Steinn. Steinn- inn er í 600 metra hæð undir Þverfells- horni og þangað liggur göngustígur sem er á köflum brattur en hvergi illfær. Til þess að komast frá Steini og upp á Þverfells- hornið sjálft þarf að fara gegnum kletta- belti og þótt þar séu á fáeinum stöðum keðjur og tröppur göngumönnum til stuðnings þá er leiðin ekki reglulega vel fær nema snjólaust sé. Þetta þýðir að þeir sem ganga á Esjuna að vetrarlagi ættu ekki að fara upp fyrir Stein nema vera með mannbrodda og ísöxi og kunna fótum sínum forráð í hættulegu færi. Hlíðin fyrir ofan Stein er snarbrött og efst í fjallinu eru klettar. Leiðin upp að Steini er í hópum fjalla- manna og hlaupara notuð sem æfinga- svæði. Meðal fjallgöngufólks er sagt að sá sem kemst upp að Steini á einni klukku- stund eða minna sé „Hnúksfær". Það þýðir að viðkomandi ráði við göngu á Hvanna- dalshnúk án teljandi vandræða og ágæt viðmiðun í sjálfu sér þótt ekki eigi að leggja of mikið upp úr henni sem slíkri. En þegar lítill hópur vaskra göngu- manna kemur upp að Steini þá horfa menn oft skáhallt upp hlíðina og hafi mönnum runnið kapp í kinn þá þarf oft ekki nema einn gikk til þess að æsa fleiri upp í að ráðast til uppgöngu á Þverfells- hornið. Þá er gott ráð að setjast niður við Stein- inn, horfa yfir höfuðborgina og eyjarnar á sundunum og njóta stundarinnar. Fá sér nesti, hrósa ferðafélögunum fyrir góðan tíma upp að Steini og íhuga um stund hver tilgangurinn sé með því að ganga á fjöll. Hann felst nefnilega að miklu leyti í því að eiga góðar stundir undir berum himni með góðum félögum og losna um stund við amstrið og stressið sem fylgir daglegu lífi auk þess að fá nauðsynlega heilsubót og vellíðan í kaupbæti. Móðir náttúra tekur okkur í faðm sinn hvort sem við förum alla leið á toppinn eða ekki. Fjallið er eilíft og verður þarna áfram þegar við komum aftur á öðrum degi í betri aðstæðum og betur undirbúin. Það er ekkert athugavert við að snúa við og láta sér í léttu rúmi liggja hvort einhverjum sérstökum keppnismetnaði sé fullnægt eingöngu með því að stíga á tindinn. Því sá sem snýr við tekur ákvörðun á sínum eigin persónulegu forsendum ótruflaður af áhrifum annarra. Slíkt sjálfstæði er afar dýrmætt. SKV 26 SKÝ 4. tbl. 2013

x

Ský

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.