Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.03.2021, Blaðsíða 30

Skinfaxi - 01.03.2021, Blaðsíða 30
30 S K I N FA X I Þær Þorbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Ásta Farestveit hafa síðastliðin fimmtán ár haldið námskeiðin Verndum þau. Námskeiðin og bókin fjalla um það hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum. Þorbjörg segir nýja útgáfu af bókinni á teikniborðinu. „Það hefur verið afskaplega gefandi að halda námskeiðin Verndum þau, sérstaklega hefur verið gaman að kenna unga fólkinu, sem er mjög áhugasamt og lætur símana sína alveg vera. Þau koma oft eftir nám- skeiðin til okkar með spurningar eða vilja tala. Því miður getum við stundum greint í augum ungra þátttakenda og holningu þeirra ef þau hafa sjálf lent í einhverju og þá verðum við að hlusta sérstaklega vel,“ segir Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi og annar höfunda bókarinnar Verndum þau. Fimmtán ár eru síðan fyrsta útgáfa bókarinn- ar kom út og tíu ár síðan Æskulýðsvettvangurinn tók að bjóða upp á samnefnd námskeið. Námskeiðið var í höndum annarra áður. Tilkynningarskylda starfsmanna Námskeiðin byggja á efni bókarinnar og eru ætluð þeim sem starfa með börnum og ungmennum. Í bókinni og á námskeiðunum er fjallað um þætti bókarinnar og bæði lesendur og þátttakendur upplýstir um eðli og birtingarmyndir ofbeldis og vanrækslu. Á meðal þess sem fjall- að er um á námskeiðunum er tilkynningarskylda starfsmanna sem vinna með börnum og ungmennum, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanræksla, hvernig eigi að taka á ofbeldisfrásögnum ung- menna, reglur í samskiptum og þau úrræði sem í boði eru í samfélag- inu fyrir börn og ungmenni. Þorbjörg segir markmið námskeiðanna að þátttakendur verði örugg- ari í starfi sínu og þekki algengustu merki um vanrækslu og ofbeldi, viti hvernig þau eigi að bregðast við ef þau grunar að barn í hópnum hafi orðið fyrir slíku eða greini frá og viti einnig um mikilvægi þess að til- kynna málið til barnaverndar svo það fari í rétt ferli. Námskeiðin eru um 20 á ári og telur hún að þau séu orðin yfir 300 sem þær Ólöf hafi haldið á síðastliðnum fimmtán árum. Níðingar sækja að börnum Þorbjörg segir námskeið eins og Verndum þau mikilvæg, bæði fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða sem vinni með börnum og ungmennum sem þurfa að bæta þekkingu sína en ekki síður sé það forvörn gegn því að níðingar sæki í störf með börnum. Nú eru hins vegar breyttir tímar og kalla þeir á að bætt verði nýju efni við bókina. Ný útgáfa er á teikniborðinu. Þar verður lagakafli bókarinn- ar endurnýjaður í samræmi við ný barnaverndarlög sem taka gildi um næstu áramót, auk þess sem lögð verður meiri áhersla á stafrænt ofbeldi, því að gerendur nýti samfélagsmiðla á miskunnarlausan hátt til að nálgast börn og unglinga. „Gerendur eru alltaf að finna betri leiðir til að nálgast börn og ung- menni. Þeir nota samfélagsmiðla, skoða vinalista þeirra, hóta börnum sem þeir eiga í samskiptum við, bjóða þeim gull og græna skóga fyrir óhæfuverk og neyða þau til ýmissa hluta. Þetta er alveg skelfilegt því börn hafa hvorki þroska né þekkingu til að meta þetta eða bregðast við, enda nota gerendur ýmsar aðferðir til að byggja upp traust í byrjun samskiptanna. Í fyrstu ljúga þeir til dæmis iðulega um aldur. Börn og unglingar halda því að þau séu að tala við jafnaldra fyrst um sinn og telja gerandann jafnvel vera besta vin sinn,“ segir Þorbjörg en bætir við að fjölmiðlar ýti stundum undir ranghugmyndir sem hafi áhrif á börn. Þar á meðal að fjalla um vefsíðuna Onlyfans eins og eðlilegan vettvang, sem hann er ekki heldur klámsíða. „Fyrir ekki svo löngu fannst svo bók á manni sem var handtekinn á Íslandi. Þetta var handbók um það hvernig á að tæla til sín börn, unga drengi. Þessi bók hefur verið lengi til og þetta var uppfærð útgáfa með nýjustu upplýsingum. Það er alveg ljóst að til eru skipulagðir hópar níðinga sem leita uppi börn. Okkar hlutverk er að upplýsa um það og fyrirbyggja að þeim takist ætlunarverk sitt,“ segir Þorbjörg. Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og UMFÍ. Æskulýðsvett- vangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan Sjáum í augum barna ef þau hafa lent í einhverju aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins sæki námskeiðið Verndum þau. Félögin geta fengið þau sér að kostnaðarlausu. Námskeiðið stend- ur jafnframt öðrum utan aðildarfélaga til boða en þá gegn gjaldi.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.