Iðjuþjálfinn - 2023, Side 16
Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa I 1. tölublað 2023 16
matstækja geta ráðið miklu um ákvarðanatöku og faglegar
áherslur þannig að mikið er í húfi. Af einstökum matstækjum
tengdust flestar greinarnar uppbyggingu, þróun og notagildi
A-One með einum eða öðrum hætti líkt og fram hefur komið
og sjá má í töflu 1 (Árnadóttir, 2017; Árnadóttir og Fisher, 2008;
Árnadóttir o.fl., 2012; Gardarsdóttir og Kaplan, 2002; Higashi
o.fl., 2019; Higashi o.fl., 2023). Tvær þeirra fjalla um réttmætis-
athuganir og Rasch greiningu á japanskri útgáfu þess (A-ONE
J) (Higashi o.fl., 2019; Higashi o.fl., 2023) en matstækið hefur
mikið verið notað í norðaustur Asíu.
Athygli vekur hve margar greinar fjalla um þátttöku og
umhverfi og er það líkast til í takt við þróunina innan
iðjuþjálfunar og iðjuvísinda þar sem síaukin áhersla er lögð
á samfélagslega þætti. Meðal annars hefur verið áréttað að
iðjuþjálfar þurfi í auknum mæli að beina sjónum að þeim ólíku
aðstæðum sem fólk býr við, aðstæðum sem móta tækifæri
þess til að lifa mannsæmandi lífi og stunda iðju sem er því
mikilvæg. Bent hefur verið á að fjölmargar hindranir sem
notendur iðjuþjálfunar standa frammi fyrir eiga rætur að
rekja til stjórnsýslu, menningar og félagslegs umhverfis, svo
sem þegar upplýsingar og þjónusta koma ekki til móts við
þarfir þeirra (t.d. Egilson og Jónasdóttir, 2023; Gerlach, 2015;
Hammell, 2017; 2021; Snæfríður Þóra Egilson og Guðrún
Pálmadóttir, 2018; Snæfríður Þóra Egilson og Sigrún Kristín
Jónasdóttir, 2022). Þarna endurspeglast einnig hugsanlega
áherslur og áhrif Alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni,
fötlun og heilsu (International Classification of Functioning,
Disability and Health (World Health Organization, 2001) þar
sem hugtökin þátttaka og umhverfi eru í brennidepli (Guðrún
Pálmadóttir, 2013). Þrjár af fjórum greinum af hugmynda-
fræðilegum toga endurspegla gagnrýnar áherslur en greinum
af þeim toga fer fjölgandi, ekki síst í SJOT og JOS. Einungis
tvær greinar beindust hins vegar sérstaklega að færni, en í
annarri þeirra voru þátttaka barna og skólaumhverfi einnig í
brennidepli (Egilson og Coster, 2004). Líkt og fyrr segir var þó
undirliggjandi áhersla á framkvæmd og færni víðar, svo sem í
greinum sem beindust að þjónustu og matstækjum. Greinar
þar sem viðhorf og líðan voru í brennidepli voru af mjög ólíkum
toga eins og fram hefur komið og beindust ýmist að námi
og fagi t.d. (Kaplan og Ásmundsdóttir, 2000; Thordardottir
o.fl., 2020) eða viðhorfum almennings eða hópa um tiltekin
málefni (t.d. Gunnhildur Jakobsdóttir o.fl., 2017; Sonja Stelly
Gústafsdóttir, 2016).
Fræðigreinar á öðrum vettvangi
Líkt og fram kemur í töflu 2 og mynd 1 hér að framan hafa
iðjuþjálfar birt fræðigreinar í fjölda tímarita og á fjölbreyttum
þverfaglegum vettvangi. Mikill meirihluti greinanna snýst
hvorki um iðjuþjálfun né iðjuvísindi sem kemur ekki á óvart
þegar birt er á öðrum vettvangi. Alls komu 21 íslenskur iðjuþjálfi
að þessum greinarskrifum, að hluta til þeir sömu og í greinum í
iðjuþjálfunartímaritum en þó ekki að öllu leyti.
Tæpur þriðjungur greinanna, 23 greinar alls, voru í tímaritum á
heilbrigðisvísindasviði. Tímaritin eru æði fjölbreytt og endur-
spegla vel þá breidd sem er á sviðinu. Álíka margar birtingar
voru í tímaritum í lýðheilsuvísindum (15%) og fötlunarfræðum
(15%) annars vegar og í uppeldis- og menntunarvísindum
(11%) og lífvísindum (10%) hins vegar. Sjö prósent birtinga
voru í tímaritum í félagsvísindum og endurhæfingu. Þar
sem endurhæfing er svo miðlæg í kjarna iðjuþjálfunar kom
greinarhöfundum nokkuð á óvart að einungis fimm greinar
voru í skilgreindum endurhæfingartímaritum, en hugsanlega
hefði mátt flokka tímaritið Work undir endurhæfingu og þar
birtust aðrar fimm greinar. Skilgreind endurhæfingartímarit
eru reyndar ekki mörg og ekki auðvelt að fá birt þar enda
höfnunarhlutfall hátt, svo sem í Disability and Rehabilitation
og Clinical Rehabilitation.
Þess ber að geta að áður en viðmiðin voru þrengd flokkuðust
flestar greinar undir tímarit í lífvísindum. Það tengist því að
Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfi hefur um árabil starfað með
afkastamiklum rannsóknarhópi sem birt hefur mikið á þeim
vettvangi og víðar. Líkt og fyrr segir eru greinarhöfundar
í lífvísindum oft mjög margir og einnig í sumum greinum
heilbrigðisvísinda og öldrunarfræða, öfugt við það sem tíðkast
í iðjuþjálfatímaritum og í félags- og menntavísindum. Þegar
viðmiðin voru þrengd fækkaði því mjög í flokki lífvísinda. Ekki
verður farið nánar í áherslur og efni greina á öðrum vettvangi
enda leikurinn ekki til þess gerður.