Goðasteinn - 01.09.1962, Qupperneq 8
Þú skildir, að andans og valdsins vegsemd skín
í vizku og rausn, - ekki oflæti þótta né prjáls:
Að höfðinginn skyldi meistari vera þess máls,
sem meitlað stendur á grunni eilífra raka.
Að guð á æðstu aðild mannlegra saka
og efsta dómsorð hans náð, sem ei þrotnar né dvín.
Að draga til sátta, deyfa eggjarnar hörðu,
skal dýrð þess valds, sem bindur og leysir á jörðu.
Og stöpullinn hóf sig stoltur við Vörðufells egg,
steindur og fáður og lýstur með skrif og pent.
Þar tvinnuðust þjóðlegur hagleikur, heilög mennt.
Þín hugsjón og trú höfðu viljað og skapað hann báðar.
Á hvelfdum ræfrum heilagrar ritningar skráðar,
en höfugir reflar neðra um skarir og vegg.
Hér stóð hann, kastali drottins, vígður og varinn
að vera á íslandi himna konungsins arinn.
Og innst í kór fyrir augum á breyskri hjörð
stóð öldum saman landsins fegursta smíð:
Skrín hins heilaga Þorláks, en þrautir og stríð
voru þjóðarbarnsins vegur um aldirnar næstu.
Þú vissir gjörla, að uppi í hæðunum hæstu
sló hjarta drottins ríkara en sýnt yrði á jörð.
Hér stóð þess upphafin ímynd á greyptum stalli:
Andsvar lifandi guðs við mannlegu kalli.
Og hvenær varð þjóðin svo frjáls, að frelsarans orð
flutt á heilögum stað yrði reykur og hjóm?
Og hvenær svo voldug, að drottins og sögunnar dóm
eitt dægurbarn gæti með sérþóttans skóhæl mulið?
Ráð guðs, hið heilaga, hrópað af þökum og hulið
skal hljóma héðan um vora bjartleitu storð
og vitarnir tendrast, sem vegi fólksins lýsa,
og vegur hins nýja jafn hinu forna rísa.
6
Goðasteinn