Goðasteinn - 01.09.1962, Side 24
Um tvítugsaldur gerðist ég sjómaður á millilandaskipi, og þar
með rættist loks sá draumur minn að komast út yfir pollinn og
sjá með eigin augum fjarlæg lönd og framandi þjóðir. Síðan hef
ég flest ár ferðazt meira og minna til annarra landa sem sjó-
maður, námsmaður og venjulegur ferðamaður og sífellt séð og
heyrt eitthvað, sem vakti athygli mína og veitti mér ánægju. Þó
var það alltaf eitt, sem ég fann, að ég átti ógert. Ég hafði aldrei
komið til Parísarborgar, fegurstu og frægustu borgar veraldarinn-
ar. Árin liðu hvert af öðru, og ósk mín um að líta París rættist
ekki.
Svo bar það til snemma í júní í sumar, að hringt var til min
frá Reykjavík. Ég tók símann án nokkurrar eftirvæntingar, því að
ég bjóst aðeins við, að einhver áhyggjufullur faðir eða móðir ætlaði
að biðja um skólavist fyrir dreng eða telpu, sem lærði lítið heima
og þarfnaðist annars umhverfis. En aldrei þessu vant reyndist
það ekki svo, því að í símanum var góður vinur minn, og erindi
hans var að spyrja, hvort ég mundi nokkuð hafa á móti að
fara í nokkurra daga heimsókn til Parísar í boði Atlantshafs -
bandalagsins til að kynnast lítillega starfi þess þar. Félag vest-
rænna samtaka í Reykjavík hafði beðið þenna vin minn að koma
þessari fyrirspurn á framfæri. Varð ég bæði glaður og hrærður
við þessi tíðindi og taldi enga meinbugi á, að ég gæti farið. Var
gert ráð ufyrir að senda sex manna sendinefnd síðast í júní í
umrædda för.
Dagarnir liðu óðfluga við margvísleg skrifstofustörf fram yfir
20. júní, og áður en varði, var komið að því, að ferðin skyldi
hefjast. Á sólbjörtum morgni 26. júní mætti ég á flugvellinum í
Reykjavík. Eftir að hafa farið gegnum vegabréfaskoðun og kynnzt
þar óvenju mikilli hjálpsemi og lipurð afgreiðslumannsins, steig ég
upp í flugvélina Hrímfaxa, og innan skamms renndi þessi silfur-
skínandi farkostur sér upp í himinblámann og tók stefnu ofar öllum
skýjum í suðlæga átt. Brátt lágu íslandsfjöll að baki, og mikið
ævintýri var byrjað.
Ég uppgötvaði fljótlega samferðamenn mína til Parísar, en þeir
voru: Einar Birnir, verzlunarmaður í Reykjavík, Stefnir Helgason,
verzlunarmaður í Kópavogi, Björn Arason, kennari í Borgarnesi,
22
Goðasteinn