Goðasteinn - 01.06.1983, Page 105
segír að þau sumur sem hann vann með föður sínum
séu besti skóli sem hann hafi fyrr og síðar fengið í verk-
lagni og hagnýtum vinnubrögðum og er Ingjaldur þó
lærður húsgagnasmiður.
Af framangreindu mætti ætla að Sigurður hafi eytt
öllum stundum sem gáfust frá búskap við smíðar. Svo
var þó ekki. Hann var hestamaður snjall og vatnamaður,
íþróttamaður góður og iðkaði bæði sund, glímu og
skautahlaup, söngvinn vel og lék á harmoniku á dans-
leikjum á yngri árum, samkvæmis- og gleðimaður og
höfðingi í hvívetna. Mætti um hvern þessara þátta í fari
Sigurðar rita pistil sem þennan, en því hefur mér orðið
tíðrætt um smíðar Sigurðar að þar hygg ég að snilli hans
hafi borið hæst. Einnig er það mér ráðgáta eins og fram
hefur komið hvernig alþýðumaður aflar sér þeirrar þekk-
ingar sem hann vísast beitir á viðfangsefni sín við afl
og steðja á meðan eldsmiður dagsins í dag er krafinn um
strangt tækninám og þekkingu sem staðfest er í rann-
sóknarstofum nútímans. Sigurður var einn af þeim síð-
ustu í þverrandi hópi þessara alþýðumanna þótt enn megi
finna menn sem bera verk sín fram úr sjóði aldanna,
hafa fengið í vöggugjöf þá náðargáfu að mega ljúka upp
þeim sjóði, eru smiðir góðir.
Sigurður lést 11. júní 1981 eftir að hafa búið við örkuml
af völdum kölkunar síðustu áratugina. Hann undi við spil,
sjónvarp, samræður við góða vini, var söngvinn gleði-
maður og hélt glaðlyndi sínu til síðasta dags. En oft var
eins og óþol gripi vinnulúnar hendur hans og þær tækju
að þreifa eftir viðfangsefnum sem þær vissu óleyst. Við
eftirlifendur þökkum honum arfinn sem hann eftirlætur
okkur í verkum sínum, hugviti og þekkingu.
Hann var smiður góður.
Káratanga á Hörpu 1982.
Goðasteinn
103