Mímir - 01.02.1974, Blaðsíða 12
GUÐNI KOLBEINSSON:
OG ÞAÐ VARÐ BYLTING
Morgunn hins efsta dags eftir Þórberg Þórðar-
son var meðal þess, sem lesið var til lands-
prófs miðskóla í íslenzku, þegar ég þreytti
þá raun, ungur sveinn og smávaxinn.
Og Morgrnn hins efsta dags varð oftar á
lestrarskrám til prófa, þegar ég staulaðist áfram
námsbrautina. — Lestrarbók Sigurðar Nordals
er jú undirstöðurit íslenzkrar bókmenntakennslu
allt til B. A. prófs. — Raunar var Morgunn
hins efsta dags ekki í hópi þeirra bókmennta-
verka, sem ég las til prófs í fjórða eða fimmta
sinni hér við Háskólann. En ég rakst á þessa
perlu meistarans einn gang eða tvo í mennta-
skóla. — Það er nefnilega ekki nauðsynlegt að
falla á prófum til þess að fá nokkrar yfirferðir
á nokkrum mestu snilldarverkum nokkurra
mestu ritsnillinganna.
Síðan ég lauk menntaskólanámi, hef ég kennt
unglingum í gagnfræðaskólum og hef oftlega
átt tal við starfsbræður mína um námsefnið.
Morgunn hins efsta dags hefur ósjaldan orðið
tilefni hrósyrða og aðdáunarupphrópana: Ja,
mikið asskoti var þetta gott á hann Guð!
Enginn hinna fjölmörgu íslenzkukennara, sem
ég hef rætt við um téð verk, hefur nefnt tengsl
við annað verk eftir annan höfund. En ótvírætt
virðist, að meistari Þórbergur hafi hér ekki einn
um vélt, heldur farið í smiðju til Oscar Wilde
og fengið þar léðan fýsibelg og deiglu. Mikil
efnislíking er með Morgni hins efsta dags og
The House of Judgement eftir Wilde; ennfrem-
ur orðalagslíkingar töluverðar. Rittengsl milli
þessara tveggja verka virðast augljós, og þar sem
The House of Judgement var fyrst gefið út í
febrúar 1893 í The Spirit Lamp en Morgunn
hins efsta dags 1924 í Bréfi til Láru virðist
einsýnt, hvora leiðina áhrifin hafa farið.
En hvað segir meistari Þórbergur sjálfur um
tilurð verksins? I bréfi til Kristínar Guðmunds-
dóttur, skrifuðu á ísafirði, 27. júní 1924, í þann
mund sem hann er að ljúka við Bréf til Láru,
segir svo:1
’Fyrir nokkrum dögum fekk eg ofurlitla send-
ingu frá guði. Eg var nýháttaður og var að
pissa í koppinn minn eins og eg er vanur. Mér
brá svo við, varð svo gagntekinn frá hvirfli til
ilja, að eg æddi fram úr rúminu og hrópaði, svo
að allir vöknuðu í húsinu: „Heivreka, heivreka!"
Það er útlagt: Eg hefi fundið, eg hefi fundið!
Svo hrópaði og Arkimedes forðum, er hann
fann lögmálið um þyngd fastra hluta í vatni.
Hann var þá í baði. Eg var að pissa í grábláa
koppinn minn, er sending drottins var rétt inn
til mín. Um morguninn færði eg hana í letur.
Þá leit hún svona út:’
Síðan kemur ’sending drottins’, og að henni
lokinni:
’Svona skrifa að eins þeir, sem guðirnir hafa
útvalið til að boða mannkyni mátt orðsins. Það
er ekki að eins formið, sem er yfirnáttúrlega
smellið, heldur kaffærir efni þessarar litlu sögu
gervalla klerkaspekina gömlu um guð og annað
líf. En jafnframt er sagan sprenghlægileg. Eg,
Þórbergur Þórðarson, í lifandalífi mesti smæl-
inginn meðal hinna smæstu, stend þarna hnakka-
kermr frammi fyrir Drotni allsherjar og geri
byltingu í ríki himnanna með nokkrum einföld-
um heimspekisetningum. A jörðinni stóð eg í
látlausum stælum við menn, sem mátu meira
vitleysu sína en speki mína. En Drottinn alls-
herjar er sanngjarn og réttlátur. Hann þrætir
ekki. Hann er laus við þá megingalla mannanna
að halda dauðahaldi í sínar eigin vitleysur, að
eins fyrir það eitt, að villurnar eru búnar til af
honum. Hann er skárri en kapitalistarnir, sem
þið hafið herjað á árangurslaust ár eftir ár, enda
1 Þetta bréf er prentað í Tímariti Máls og menn-
ingar 1, 1973, bls. 8—1'6.
12