Mímir - 01.02.1974, Blaðsíða 45
STARFSANNÁLL MÍMIS
Aðalfundur Mímis var haldinn 20. október 1972
í stofu 308, Arnagarði. Þar var Guðni Kolbeins-
son kjörinn formaður félagsins og aðrir stjórn-
arlimir Guðrún Jónsdóttir, Sæmundur Rögn-
valdsson, Sölvi Sveinsson og Þórhallur Braga-
son. Skipti stjórnin þann veg með sér verkum,
að Sölvi skyldi hafa fjárreiður með höndum,
Guðrún rita það sem þyrfti, en þeir Sæmundur
og Þórhallur útbreiða ritið Mími.
Kynningarkvöld var haldið í Dentalíu heit-
inni í Bolholti 4, hinn 11. dag nóvembermán-
aðar. Þar var fyrsta árs nemum kynnt, hvað í
vændum væri, og sáu Höskuldur Þráinsson og
Helgi Skúli Kjartansson um það. Bókmennta-
kynning var einnig meðal dagskrárliða, og var
kynnt skáldið Kálhaus og lesið úr verkum þess.
Síðan hófust almennar kynningar, og leið kvöld-
ið við söng og gleði, drykkju og dans, og kynnt-
ust sumir Mímisliðar svo vel við dansiðkanir,
að þeir kinntust.
Haustferð félagsins var farin 19. nóvember,
og voru kannaðar söguslóðir á Reykjanesi undir
traustri forystu Bjarnar Þorsteinssonar prófessors.
Tókst ferð þessi hið bezta, og voru menn fullir
ánægju, þegar heim kom.
Mímisfundur var haldinn 13. desember í
stofu 201, Árnagarði. Þar flutti Þorkell Gríms-
son safnvörður erindi um Reykjavík á liðnum
öldum og fornleifarannsóknir þar. Var erindi
þetta bæði fróðlegt og skemmtilegt, og skugga-
myndir, sem sýndar voru til skýringa, rýrðu
ekki gildi þess. Að lokum var drukkið kaffi
og spjallað um fornleifagröft og bústað Ingólfs.
Mímungar sýndu fundi þessum eigi alllítið tóm-
læti; mætm 8 þá flest var.
Félag íslenzkra fræða og Mímir stóðu fyrir
rannsóknaræfingu á Gamla-Garði 22. desember.
Sigurður Líndal prófessor flutti þar ýtarlegan
fyrirlestur um pólitískar hugmyndir í Heims-
kringlu. Æfing þessi var fjölmenn og tókst
mætavel. Sýnir það áhuga Mímunga á viðfangs-
efnum sínum, að síðustu rannsakendurnir luku
ekki störfum fyrr en á sjötta tímanum morgun-
inn eftir.
Sagnfræðiráðstefna var haldin í febrúar.
Voru þrír fundir með nokkurra daga millibili,
þannig að unnt væri að taka saman og dreifa
helztu niðurstöðum síðasta fundar á þeim næsta.
Urðu oft fjörugar umræður á ráðstefnu þessari,
og skiptust kennarar og nemendur á skoðunum.
Þarf ekki að fjölyrða um gagnsemi slíkra við-
ræðna.
Páll Skúlason lektor mætti á Mímisfundi 15.
febrúar í stofu 104, Árnagarði og flutti þar
erindi: Semiologi — Semantic. Voru fundar-
menn mjög áhugasamir og meðan kaffi var
drukkið var Páll spurður að mestu spjörunum
úr. Fjöldi fundarmanna var 14, — að Páli
meðtöldum.
Þorrablót Mímis fór fram í Þinghóli í Kópa-
vogi 10. marz. Heiðursgestur var Bjarni Olafs-
son, og flutti hann snjalla ræðu, innblásinn af
húsnæðinu. Þórhallur Bragason las upp Tummu
Kukku, formála að kvæði úr Eddu Þórbergs
Þórðarsonar. Sverrir Páll Erlendsson mælti fyrir
minni kvenna — og mæltist skörulega. Sungið
var úr hinni stórkostlegu söngbók félagsins,
Tummu Kukku, sem kom út þennan sama dag.
Einnig var iðkuð fótmennt og kverkar vættar,
og var mál manna, að lítt hefði þar á gleði skort.
45