Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1987, Side 61
hefur verið lögð fram áætlun um 1.800 ferkfló-
metra skógrækt á völdum svæðum. Slíkt starf er
15 ára verkefni og til þess er talið að útvega þurfi
árlega tæpar 130 m.kr. eða samanlagt fyrir allt
tímabilið um tvo milljarða króna. Við starfsemina
mætti reikna með um 150 ársstörfum. Þetta eru
stórhuga áform en það sem ekki segir í lögum eða
ályktunum er hvers konar eða hversu miklar
nytjar menn hafa í huga.
í nýútkominni Árbók bóndans er grein eftir
skógræktarstjóra ríkisins um nytjaskóga á bújörð-
um. Þar segir höfundur að orðið „nytjaskógur"
skýri sig að mestu leyti sjálft, en áhersla skuli
lögð á það, að átt sé við beinar efnislegar nytjar
sem skógurinn gefi af sér. Auk þess getur skógur
gefið af sér óbeinar nytjar. Þá er viðarframleiðsla
aðalmarkmið. f framhaldi af þessu spyr höfundur
sig eftirfarandi spurninga:
1. Hve mikið vex skógurinn?
2. Hvers slags viður fæst úr skóginum og hvaða
markaður er fyrir afurðirnar?
3. Hve mikið kosta ræktunin, skógarhögg og
vinnsla?
Allt eru þetta góðar og gildar spurningar sem
vitaskuld verður að finna svör við áður en nytja-
skógrækt er hafin. Ég held nefnilega að svörin
skipti höfuðmáli fyrir áframhald allrar umræðu
og hugtakið „nytjaskógur" skýri sig ekki fyllilega
sjálft.
Um fyrstu spurninguna ætla ég ekki að hafa
mörg orð en að því er best verður séð er vöxtur
skógar vel sambærilegur við það sem gerist í
nálægum löndum þar sem ræktaður er nytja- eða
arðskógur. Skógræktarmenn munu vera nokkuð
öruggir um að 4-5 rúmmetrar við góð skilyrði sé
líklegur vöxtur á stórum svæðum. Er þá miðað
við að jarðvegur sé unninn og áburður borinn á
plöntur til þess að örva vöxt.
Önnur spurningin varðar hvers konar viður eigi
að fást úr skóginum. Skógræktarstarf hér á landi
hefur í ríkum mæli beinst að því að finna þær
tegundir sem best fella sig við jarðveg og veður-
far. Tilteknar tegundir sýna þar yfirburði. Ekki
segir það þó að afurðir þeirra séu þær sem mest er
sóst eftir og gefi mest í aðra hönd. Þær afurðir
sem nú eru unnar úr skógum okkar eru fyrst og
fremst jólatré og girðingarstaurar. Jólin höldum
við aðeins einu sinni á ári og girðingarstaurar úr
tré eru á undanhaldi fyrir rafmagnsgirðingum og
staurum úr öðru efni. Skógrækt til nytja og sem
atvinnugrein verður því að byggjast á öðrum
rökum. Þannig liggur næst hendi að ætla, að
menn hafi í huga borðvið og massavið til iðnað-
arframleiðslu. Einnig kemur til álita vinnsla úr
trefjum og viðarkurli í t.d. plötugerð.
Markaðir þykja ótryggir á mörgum sviðum.
Þar gildir nánast einu hvort um er að ræða
þungaiðnað, léttan iðnað eða matvælafram-
leiðslu. Á öllum sviðum er hörð samkeppni um
markaði. Ég held að allir spádómar um líklega
markaði fyrir girðingarstaura, trefjaplötur eða
borðvið séu einkar ótryggir ef við hugsum hálfa
eða heila öld fram í tímann svo ekki sé lengra
farið. Iðnríkin hafa verið furðulega lagin að taka
upp hvers konar gerviefni í stað lífrænna efna.
Tökum sem dæmi fataiðnaðinn. Á því sviði hafa
gerviefni verið í stöðugri sókn.
Grundvallarspurningin er e.t.v. sú hvort lífræn
efni eins og trjátrefjar eigi framtíð fyrir sér í
heiminum. Að áliti fúturista eða framtíðarsinna
er það talið svo. Og það má líka setja fram sem
rök að trjávörur muni þá fyrst verða verðmætar
þegar skógum á stórum svæðum í heiminum hefur
verið spillt með súru regni og öðru eitri eða
skógar verið höggnir ótæpilega sem víða virðist
vera.
Þriðja spurningin sem varpað var fram var um
tilkostnað við skógrækt hér á landi. Ég held að
engum biandist hugur um það að kostnaður við
skógarbúskap hlýtur að verða allnokkur. Það
þarf að brjóta land, bera á plöntur, girða svæði,
koma upp samgönguleiðum, vélvæða starfsemina
o.fl. o.fl. Við megum alls ekki gleyma því að
skógrækt í löndum nálægt okkur er rekin sem
stóriðja og skógurinn er hluti af vistkerfinu.
Tilkostnaður er og verður því um langa framtíð
minni þar en hér á landi. Því held ég að hugmynd-
ir manna um það að nytjaskógrækt í reitum allt
niður í 25 ha geti aldrei orðið arðvænleg í hörðu,
fjárhagslegu tilliti.
í stefnumörkun og ályktunum um skógrækt
setja menn markið misjafnlega hátt eins og þið
heyrið og stundum liggur mér við að segja full
djarfmannlega.
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1987
59