Afmælismót Skáksambands Íslands - 01.02.1985, Page 31
Guðmundur Arnlaugsson
Erlendir skákmenn
r
á Islandi á fyrri hluta
aldarinnar
Á afmælisári Skáksambands íslands er eðlilegt að
rifja upp þætti úr sögu skákarinnar á íslandi. Hér verður
gerð tilraun til að segja frá einum þessara þátta: heim-
sóknum erlendra skákmanna til íslands á fyrri hluta ald-
arinnar. Síðari aldarhelmingurinn hefur margsinnis
verið rifjaður upp i boðsritum þeim sem skáksambandið
hefur sent frá sér í sambandi við Reykjavíkurmótin, og
er því óþarfi að rekja hann hér. Hins vegar má búast við
að atburðir á fyrri hluta aldarinnar séu mörgum lesanda
lítt kunnir.
1879: Daniel Willard Fiske (1831—1904)
Fiske á ekki að öllu leyti heima í þessum hópi, því að
hann var ekki virkur teflandi nema á yngri árum og kom
ekki hingað sem taflmeistari heldur vísindamaður. En
það gildi sem heimsóknir hans höfðu fyrir íslenskt skák-
líf er ómetanlegt og því er hann nefndur í þessu yfirliti.
Fiske kom til íslands í fyrsta skipti árið 1879 og skrifaði
árið eftir grein um skák á íslandi í kunnasta skáktímarit
heims — Deutsche Schachzeitung — og var sískrifandi
um ísland og skák á íslandi síðan. Hann var staddur í
Svíþjóð þegar jarðskjálftarnir miklu urðu á Suðurlandi
1896 og skrifaði þá um þessar feiknalegu hamfarir
náttúrunnar í sænsk blöð og efndi til fjársöfnunar.
Bóka- og taflgjafir hans til Grímseyinga, Landsbóka-
safns, Lærða skólans í Reykjavík og fleiri aðila eru kunn-
ari en svo að frá þeim þurfi að segja í löngu máli hér. Hið
ótrúlegasta er enn ótalið: skáktímaritið „í uppnámi“
sem hann gaf út suður í Flórens — á íslensku — með að-
stoð hafnarstúdentanna Halldórs Hermannssonar og
Sigfúsar Blöndal, sem báðir urðu kunnir fræðimenn
síðar — og gaf íslendingum. Fiske hafði ekki lokið hinu
mikla riti sínu „Chess in Iceland“ að fullu er hann and-
aðist árið 1904, en það var gefið út engu að síður eftir
dauða hans. íslenskir skákmenn minnast hann enn í dag
með virðingu og þakklæti.
1902: William Everett Napier (1881—1952)
Napier fæddist í London en fluttist með foreldrum
sínum vestur um haf og ólst upp í Bandaríkjunum. Lík-
lega hefur hann byrjað snemma að tefla, því að 1897 er
hann orðinn skákmeistari skákfélagsins í Brooklyn
(Brooklyn Chess Club) og nokkru siðar sigrar hann
Marshall í einvígi. Napier fluttist aftur til Evrópu og
tefldi þar á ýmsum skákmótum. Einn frásagnarverðasti
árangur hans var að ná 5. verðlaunum á öflugu alþjóða-
móti í Hannover 1902 (fyrir ofan Tsjígórin, Marshall og
fleiri kappa). Á því móti hlaut hann líka fegurðarverð-
laun fyrir skák sína við von Bardeleben. En kunnasta
skák hans er líklega sú sem hann tefldi við Emanúel
Lasker á skákþinginu í Cambridge Springs árið 1904, og
taldi Napier sjálfur hana einhverja bestu skák sem hann
hefði teflt — þótt hann tapaði henni að lokum.
Napier kom til íslands haustið 1902 og dvaldist hér um
veturinn. Frá því segir Pétur Zóphóníasson svo í grein er
hann ritaði árið 1940:
„Veturinn 1902—1903 dvaldi hér einn af alþjóða skák-
meisturum heims, William Napier blaðamaður. Hafði
hann teflt á alþjóðamótum, þar á meðal í Buffalo, þar
sem hann fékk 2. verðlaun, en Pillsbury varð efstur. Tók
hann þátt í skákum í félaginu, og mátti heita að hann
væri álltaf reiðubúinn til að tefla. Var það mjög gott fyrir
okkur og lærðum við margir margt af honum“.
Nú er óliklegt að nokkur sé á lífi er kynntist Napier
þegar hann dvaldist hér og ekki hef ég rekist á annað á
prenti um dvöl hans en þessar línur Péturs Zóphónías-
sonar.
Vísast verður því erfitt að grafa meira upp um dvöl
Napiers hér veturinn 1902—1903, hvers vegna hann var
hér eða annað í því sambandi.
1928: Karl Berndtsson skákmeistari Norðurlanda
Skipuleg samskipti íslenskra skákmanna við aðrar
þjóðir hófust ekki fyrr en á árunum milli 1920 og 1930.
Árið 1927 tefldu íslendingar við norðmenn tvær sam-
ráðaskákir og voru leikirnir fluttir landa á milli með loft-
skeytum. Munu þetta vera fyrstu skákir í heiminum sem
tefldar voru á þennan hátt.
Til er bréf frá árinu 1926 þar sem Taflfélagi Reykjavík-
ur er veitt innganga í Skáksamband Norðurlanda, þó
með því skilyrði að það skuli víkja fyrir Skáksambandi
íslands, verði það stofnað. Þetta er sennilega einhver
angi af þeirri misklíð sem varó milli Taflfélags Reykjvík-
ur og annarra skákfélaga við stofnun Skáksambandsins.
En þær öldur lægði fljótt og árið 1928 eru þeir Pétur
Zóphóníasson og Eggert Gilfer komnir á þing Skáksam-
bands Norðurlanda, annar til að sitja þingið, hinn til að
tefla.
31