Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 22

Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 22
HP í Himalaja SI^JSTU HIPPARNIR SOGA ENN HASSIÐ Á INDLANDI: UTBRUNNAR EFTIRLE6UKINDUR I frumstæöu bænda- þorpi í Parvati-dal haldast enn við síð- ustu hippar Vestur- landa á flótta undan siðgæðis- og eitur- lyfjalögreglunni. Hass- plantan vex nánast eins og illgresi allt ( kringum bæinn og þeir sem vilja geta keypt efnið fullunnið hjá bændunum. ,,Do you know for how long time Italians have been in this valley? Fourteen years,“ — það er ungur maður úr Rómaborg sem ávarpar blaðamann ofan af íslandi, langt inni í þröngum dal sunnanverðra Himalajafjalla. Hann er síðhærður með hárið í óteljandi fléttum, íklæddur leppum sem ekki hafa ver- ið þvegnir í nokkur misseri. Pó ný- lendutíminn sé liðinn eiga fulltrúar vesturveldanna enn ítök í Indlandi. Við vorum komnir vel fimm stunda gang frá akvegi og rafmagni, höfðum gengið í gegnum mörg frumstæð bændaþorp þegar okkur var bent á húskofa þar sem mætti finna reytingslegar leifar af þeim hippum eða fríkum sem í eina tíð var ekki þverfótað fyrir á Indlandi. Fyrstu árin eftir að bresku Bítlarnir fundu sinn gúru við Gangesána fylltist Indland af ungum síðhærð- um vesturlandabúum sem höfðu kastað trú feðra sinna, tilbáðu líkn- eski hindúa og fundu i Indlandi griðland fyrir eiturlyfjalögreglu og siðgæðisvörðum heimalands síns. Að hætti Shiva; guðs tortímingar og endursköpunar, sitja sumir þessir nýfrelsuðu hindúar uppi í Himalaja og reykja hass. En annars er tími gúrúanna senn liðinn og færri vest- rænir ferðalangar eru ginnkeyptir fyrir hassi og heimsfrelsun. „Om Shanti" Gestgjafar okkar í tvílyftum úr sér gengnum leirkofa voru Gino, Róm- verjinn með flétturnar og félagar hans, tveir litlu gæfulegri strákar og stúlka sem skar sig úr fyrir hreinlæti og heilsusamlegt útlit. Okkur var vísað í litla kytru þar sem tvær strá- mottur fyrir rúm lágu ofaní mold- ugu trégólfi. Við höfðalagið vár öskubakki, tómir sígarettupakkar og útbrunnar eldspýtur. Tvær hass- pípur á gólfinu og þar með voru inn- anstokksmunir að mestu upp taldir. Frammi voru kulnaðar hlóðir og nokkur spjöld úr eggjakassa. Einn heimamanna reri á gólfinu og horfði glærum augum á stílabók þar sem setningin „Om shanti", hefur verið skrifuð niður aftur og aftur. Trúarsetning hindúa sem mætti þýða með orðinu ,,þögn“. Dalurinn heitir Parvati-dalur eftir einni af ástkonum Shiva og húsið er í eigu bænda í Pulga sem er nær- liggjandi þorp. í kring er túnsnepill þar sem búpeningur gengur en rétt ofan við kofann rísa snarbrattar fjallshlíðar, grónar reisulegum barr- trjám upp í topp. í gilinu seitlar á og handan við hana er annað þorp og önnur fjallshlíð. Fyrir dalbotninum grillir svo í snæviþakta fjallstoppa. Bændurnir í þessum dal búa við sömu tækni og afar þeirra hafa gert í árþúsundir. Pó þarna sé hvorki bíl- vegur, rafmagn né nokkur vél þá þekkist heldur ekki sú vonleysislega fátækt sem blasir við allstaðar í borgum Indlands. Fæsta vanhagar um nokkuð það sem þeir ekki geta fengið og því er fólkið þarna ríkt. Síðustu 10 ár hafa sveitakarlarnir svo haft aukatekjur af vestrænum farfuglum sem koma sumir ár eftir ár, en fáir þeirra tolla í dalnum yfir vetrartímann enda er dalurinn þá þakinn ökkladjúpum snjó og hita- veitur eru hér óþekkt fyrirbæri. Hass eins og illgresi allt í kring. . . Gino segir okkur að þau hafi nú verið í dalnum í hálft ár og borgi í mánaðarleigu 150 rúbíur, eða ná- lægt 550 krónum íslenskum. Þess- utan kaupa þau svo mat hjá þorps- búum og með öllu lifir kommúnan af þremur til fimm þúsund krónum á mánuði. Hassplantan, undirstaða tilverunnar, vex nánast eins og ill- gresi allt í kringum bæinn og þeir sem það vilja geta keypt efnið full- unnið hjá bændunum, sem hafa aldagamla reynslu í þessum heimil- isiðnaði. Ævintýrið er svo fjármagnað með því að selja vestrænt skran; mynda- vélar, gallabuxur, svefnpoka og té- boli á svörtum markaði lndlands þar sem upprunalegt kaupverð er nær tvöfaldað. Úti á svölum þessa ítalska heimilis héngu þrír svefn- pokar, nokkurskonar bankainn- stæða fyrir áframhaldandi dvöl. En annars upplýsti Gino að 6 mánaða vegabréfsáritun þeirra væri senn út- runnin og hans einasta von var að gúrúinn hans gæti innritað hann í ashramskóla, en þessir trúarskólar hindúa hafa sumir hverjir snúist upp í það að verða hæli lífsþreyttra vest- urlandabúa. Annars var ætlunin að hverfa heim til Evrópu fram til næstu áramóta og sækja svo um aðra 6 mánuði fyrir næsta ár. Meira að segja í þessum paradísardal var von á lögreglu, upplýsti viðmælandi okkar, sem þá athugar vegabréf og ýmist hirðir hassið til eigin nota eða tekur stórfé í mútur fyrir að láta það í friði. Samtalið er heldur slitrótt og eftir því sem hasspípan gengur fleiri um- ganga meðal heimamanna þokar bágborin enskukunnáttan fyrir ítölskuskotnum setningum. Fyrr en varði er Gino farinn að tala um veit- ingastað í Rómaborg þar sem vínið flýtur í stórum gámum og menn háma í sig svínakjötssamlokur. „Og þegar maður er búinn að vera lengi í Indlandi fer mann að dreyma um þessar samlokur. . .“ Gestirnir impra á því hvort verið geti að einhverjir ítalir eða Frakkar, sem líka eiga að vera til í þessum dal, hafi búið hérna árum saman, sumar sem vetur, en Gino hefur eng- an áhuga á slíkri landafræði. „Ég fór hingað til þess að vera í friði fyrir öðru fólki og kannski eru fleiri Italir hérna, kannski búnir að vera lengi, ég vil ekkert vita um það.“ Atvinnusatíar! Og við kveðjum þessi undarlegu úrhrök vestrænnar menningar, orðnir of þreyttir til þess að arka lengra í leit að þeim sem hafa haft lengri ábúð í dalnum. Indverskur kunningi sem þekkti til á einum slík- um bæ varaði mig heldur við að berja þar uppá. „Þeir sjá að þú ert öðruvísi en þeir,“ sagði hann. „Þeir eru tannlausir, skítugir og ekkert alltof vingjarnlegir." Miklu innar í Parvati-dalnum var okkur sagt af ítalskri stelpu sem lifir í heilögu hjónabandi með satía, en svo kallast helgir menn hindúism- ans sem leita burt úr skarkala hvers- dagslífsins, flakka um og leita að trú- arlegri frelsun. Seinni tíma atvinnusatíar halda svo vestrænum kannabisneytend- um selskap gegn smávægilegri ölm- usu og bróðurlegri hlutdeild í hassi. Hassið sem annars var af sumum viðurkennt sem tæki til þess að komast í nánari snertingu við guð- dóminn verður hjá þessum guð- dómurinn sjálfur. Þeir sem ekki fara lengra inn Par- vati-dalinn en sem bilveginum nem- ur geta notið þessa samfélags við heitar hveralaugar i þorpinu Mani- karan þar sem torkennilega tóbaks- fýlu leggur upp af illa lýstum tehús- um daglangt. i Parvati-dal breytist ekki lífið þótt hippar komi og hverfi. Þessar stúlkur báru uppskeru í hús eins og kynslóðirnar á undan. Síðustu hipparnir reyna hins vegar að draga fram lífið með því að selja vestrænt skran. Þeir eru yfirleitt litnir hornauga af innfæddum. Hassreykurinn enn sogaður: ítalinn Gino er ein eftirlegukind vestrænna blómatíma sem ílengst hefur í Indlandi. Augun eru glær, heilinn starfar hægt og hugsar aðeins um undirstöðu tilverunnar: Hassið. Sjálfur segist hann vilja vera í friði fyrir öðru fólki. ■texti og myndir Bjarni Harðarson 22 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.